Aukin þátttaka erlendra aðila mun hjálpa til við dýpkun gjaldeyrismarkaðarins, að mati forstjóra Kauphallarinnar.
Aukin þátttaka erlendra aðila mun hjálpa til við dýpkun gjaldeyrismarkaðarins, að mati forstjóra Kauphallarinnar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alþjóðlega vísitölufyrirtækið FTSE Russell lauk innleiðingu íslenska hlutabréfamarkaðarins í flokk nýmarkaðsríkja þann 20. mars síðastliðinn. Innleiðingin var stigin í þremur skrefum til að forðast skaðleg áhrif á gjaldeyrismarkaði

Alþjóðlega vísitölufyrirtækið FTSE Russell lauk innleiðingu íslenska hlutabréfamarkaðarins í flokk nýmarkaðsríkja þann 20. mars síðastliðinn. Innleiðingin var stigin í þremur skrefum til að forðast skaðleg áhrif á gjaldeyrismarkaði. Fyrri skref innleiðingarinnar voru stigin í september og desember. Innleiðing vísitölunnar gekk þó ekki alveg snurðulaust fyrir sig, því markaðsvirði hlutabréfa í Kauphöllinni lækkaði um rúma 260 milljarða króna frá miðjum september fram í byrjun október, sem að mestu má rekja til þess að erlendir fjárfestingarsjóðir losuðu sig við stöður í skráðum félögum sem þeir höfðu byggt upp vikurnar á undan.

Færist upp um gæðaflokk

Með innleiðingu má þó segja að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hafi færst upp um gæðaflokk. Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að innleiðingunni fylgi aukinn trúverðugleiki og gæðastimpill sem styðji stöðu íslenska markaðarins til framtíðar.

„Vísitölusjóðirnir komu inn á markaðinn snurðulaust og það gekk allt saman mjög vel. Þeir hafa fjárfest í íslenskum fyrirtækjum fyrir rúmlega 300 milljónir dollara,“ segir Magnús og bætir við að þá séu ótaldir aðrir erlendir aðilar sem fjárfest hafa í íslenskum fyrirtækjum frá því að innleiðingin hófst.

MSCI næst á dagskrá

Aðilar á markaðir horfa nú til vísitölufyrirtækisins MSCI, og standa vonir til þess að Ísland muni fljótlega færast upp um flokk þar. Árlegt endurmat MSCI á vísitöluflokkunum sínum mun eiga sér stað í júní næstkomandi og þá mun koma ljós hvort íslenski markaðurinn verði tekinn til endurskoðunar.

„Það eru fleiri og stærri sjóðir sem fylgja MSCI-vísitölunni svo það myndi þýða enn meira innflæði en komið er, sem myndi leiða af sér viðbótartrúverðugleika,“ segir Magnús.

Gjaldeyrismarkaðurinn veikur

„Eitt áhyggjuefni FTSE áður en við fórum inn í vísitöluna var að gjaldeyrismarkaðurinn hér væri ekki nógu djúpur og virkur,“ segir Magnús og bætir við að til að komast upp um flokk hjá MSCI þurfi fyrirtækið að hafa sannfæringu fyrir því að gjaldeyrismarkaðurinn sé nógu djúpur, en einnig þarf að halda áfram að stækka markaðinn.

Aðspurður hvernig hægt sé að dýpka og virkja gjaldeyrismarkaðarinn segir Magnús að aukin þátttaka erlendra aðila muni í sjálfu sér hjálpa til. En hann telur einnig að erlendir bankar þurfi að sýsla í auknum mæli með krónuna og gagnsæi að stóraukast.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt, ef það er hægt, að fá erlenda banka til að þjónusta viðskipti með krónuna utan Íslands, það myndi auðvelda erlendum fjárfestum að eiga viðskipti með krónuna í gegnum sinn viðskiptabanka,“ og segir Magnús það vera annað stærsta málið en hitt er aukið upplýsingaflæði og meira gagnsæi í gjaldeyrisviðskiptum sem er nauðsynlegt til að auka traust á markaðnum og vilja til að eiga hér viðskipti.

Stór hluti gjaldeyrisviðskipta er paraður inni í bönkunum, svo það er einungis yfirflæðismarkaðurinn sem er sýnilegur, þ.e.a.s. að það sem parast ekki innanhúss leitar á millibankamarkaðinn, og því er sjáanleg dýpt gjaldeyrismarkaðarins minni en raunin er.

„Ég held að erlendir fjárfestir fái stundum þá tilfinningu með því að skoða tölur á millibankamarkaði að hann sé óburðugri en hann í raun er. Þó svo að hann geti að sjálfsögðu verið burðugri þá fá þeir í raun og veru óþægilega mynd af honum.“

Krónan getur virkað betur

Magnús segir það vera verkefni Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins að bæta virkni gjaldeyrismarkaðarins.

„Það er vel hægt að fá erlenda fjárfesta í miklum mæli inn á markaðinn með krónunni. Þetta snýst ekki um krónu eða ekki krónu, heldur þarf krónumarkaðurinn að virka eins vel og hann getur mögulega virkað,“ segir hann.