Verðlaun Mikil gleði var í Ráðhúsinu þegar verðlaun voru afhent. F.v.: Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, varaforseti SÍ, Yilmaz frá Tyrklandi, Grandelius, og Gupta frá Indlandi.
Verðlaun Mikil gleði var í Ráðhúsinu þegar verðlaun voru afhent. F.v.: Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, varaforseti SÍ, Yilmaz frá Tyrklandi, Grandelius, og Gupta frá Indlandi. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sænski stórmeistarinn Nils Grandelius er sigurvegari Reykjavíkurskákmótsins en hann var sá eini af efstu mönnum sem vann skák sína í lokaumferðinni. Hann er öflugasti skákmaður Svía í dag og hefur teflt ellefu sinnum á Reykjavíkurskákmótunum, oftar en nokkur annar erlendur skákmaður

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Sænski stórmeistarinn Nils Grandelius er sigurvegari Reykjavíkurskákmótsins en hann var sá eini af efstu mönnum sem vann skák sína í lokaumferðinni. Hann er öflugasti skákmaður Svía í dag og hefur teflt ellefu sinnum á Reykjavíkurskákmótunum, oftar en nokkur annar erlendur skákmaður. Nils vann þrjár lykilskákir með góðri taflmennsku á lokasprettinum og hlaut 7½ vinning af 9 mögulegum og er vel að sigrinum kominn. Í 2.-7. sæti komu Tyrkinn Yilmaz, Indverjinn Gupta, Frakkinn Lagarde, Ungverjinn Banusz og Króatinn Livaic, allir með 7 vinninga. Keppendur voru 401 talsins sem er þátttökumet. Salarkynni Hörpunnar rúmuðu vel þennan mikla fjölda.

Fyrir síðustu umferð voru fimm skákmenn efstir með 6½ vinning en Hannes Hlífar Stefánsson, sem var með 6 vinninga, var eini íslenski skákmaðurinn sem átti möguleika á efsta sæti. Í flóknu miðtafli lokaumferðar gegn Ungverjanum Tamas Banusz fékk hann tækifæri til að ná fram sigurvænlegri stöðu en lét það sér úr greipum ganga og þegar fram í sótti tókst Ungverjanum að vinna þó að staðan væri lengi vel jafnteflisleg.

Alexander Domalchuk Jónasson, sem vann fjórar síðustu skákir sínar, fékk flesta vinninga íslensku þátttakendanna, 6½ v. og hafnaði í 8.-23 sæti. Þrátt fyrir það lækkaði hann umtalsvert á stigum. Guðmundur Kjartansson, Sigurbjörn Björnsson, Hannes Hlífar og Hjörvar Steinn Grétarsson hlutu allir 6 vinninga og lentu í 24.-51. sæti.

Á Reykjavíkurskákmótunum er eitt helsta markmið ungu skákmannanna að hækka á stigum. Mestri stigahækkun náðu Örvar Hólm Brynjarsson sem hækkaði um 107 stig, Guðrún Fanney Briem 93 stig, Engilbert Viðar Eyþórsson 89 stig, Katrín María Jónsdóttir 84 stig og Benedikt Þórisson 81 stig.

Öll úrslit má nálgast á slóðinni https://www.reykjavikopen.com/.

60 ára afmæli Reykjavíkurskákmótanna á næsta ári

Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið var haldið fyrst árið 1964. Það var jafnframt fyrsti alþjóðlegi viðburðurinn á Íslandi sem bar nafn höfuðborgarinnar. Þá sigraði Mikhail Tal með miklum glæsibrag, vann allar skákir sínar nema gegn jarðvísindamanninum kunna, Guðmundi Pálmasyni, sem átti unnið tafl á einum stað gegn „töframanninum frá Riga“ en jafntefli varð niðurstaðan. Fram til 1982 voru keppendur 12 til 16 talsins og tefldu allir við alla. Fyrsta „opna“ Reykjavíkurmótið fór fram á Kjarvalsstöðum árið 1982. Það fyrirkomulag hefur haldist síðan að mótinu 1992 undanskildu. Mótið í ár er hið fjölmennasta frá upphafi en helstu styrktaraðilar þess voru Kvika banki og Brim. Margir eru á þeirri skoðun að rétt sé að skipta mótinu í a.m.k. tvo stigaflokka en samsetning þess í ár hefur gert sókn að titiláföngum erfiða og má finna um það nokkur dæmi. Ef marka má viðbrögð forystumanna Skáksambands Íslands, sem eru hæstánægðir með hina miklu þátttöku, virðast miklar breytingar á mótshaldinu ekki fyrirhugaðar.

Nýir straumar á alþjóðavettvangi skákarinnar

Skákheimurinn virðist hinsvegar hafa tekið miklum breytingum hin síðari ár og náð nýrri hæð í Covid-faraldrinum þegar „streymi“ frá skákviðburðum varð vinsælt. Bandaríkjamaðurinn Hikaru Nakamura hefur slegið í gegn á þeim vettvangi og nokkrar skákkonur hafa einnig haslað sér völl og voru með beint streymi frá skákum sínum á mótinu, t.d. Anna Cramling Bellon hin sænska, en móðir hennar, hin þekkta skákkona, Pia Cramling, skýrði skákir hennar frá sínum heimavígstöðvum.

Þó að frammistaða okkar bestu manna hafi verið undir væntingum voru tilþrif annarra keppenda oft á tíðum glæsileg. Bárður Örn Birkisson átti t.d. algjörlega fullkominn dag er hann mætti pólskum stórmeistara:

Reykjavíkurskákmótið 2023; 6. umferð:

Bárður Örn Birkisson – Gregorz Gajewski

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. Bb5+ Rd7 4. a4 Rgf6 5. Rc3 g6 6. a5 a6 7. Bc4 h6

Það er margt að varast, 7. ... Bg7 gengur ekki vegna 8. Bxf7+! Kxf7 9. Rg5+ Kg8 10. Re6 De8 11. Rc7 ásamt – Rxa8.

8. O-O Bg7 9. d3 O-O 10. h3 e5 11. Bd2 Rb8 12. Rd5 Rxd5 13. Bxd5 Rc6 14. Db1!

Skemmtilega teflt. Drottningin styður við framás b-peðsins.

14. ... Kh7 15. b4 cxb4 16. Bxb4 f5 17. Rd2 f4 18. f3 Rd4 19. Hf2 Bf6 20. c3 Rb5 21. Rc4 Bh4 22. Hd2 Df6 23. Rb6 Hb8 24. Db3 Bg3 25. Had1 Hd8 26. d4

Hvítur hefur byggt upp yfirburðastöðu og svartur er algerlega án mótspils.

26. ... exd4 27. cxd4 Dg7 28. Dd3 Bd7 29. Rxd7 Hxd7 30. Hc2 Hc7 31. Hxc7 Dxc7

32. e5! dxe5 33. dxe5 Dxe5 34. Be4 Df6

Eða 35. ... Hg8 36. Bxb7 o.s.frv.

35. Dd7+ Dg7

36. Bxg6+! Kxg6 37. Dg4+ Kf6 38. Bc3+! Rxc3 39. Hd6+

- og svartur gafst upp.