Finnar ganga í NATO

Finnland gekk í gær til liðs við Atlantshafsbandalagið (NATO), varnarbandalag 31 vestræns lýðræðisríkis. Það eru söguleg og gleðileg tíðindi og við hæfi að það gerðist á 74 ára afmæli NATO.

Með því verða enn einar breytingarnar á liðskipan í Evrópu eftir lok kalda stríðsins, sem mögulega reynast djúpstæðustu áhrif Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta á mannkynssöguna. Þær eru bein afleiðing af ólöglegu, siðlausu og misheppnuðu árásarstríði hans gegn Úkraínu.

Íslendingar hafa látið sér annt um öryggi Finnlands, allt frá því í vetrarstríðinu 1939, þegar Sovétmenn, í vanheilögu bandalagi við nasista í Þýskalandi, reyndu að leggja landið undir sig. Það misheppnaðist vegna frækilegrar varnar Finna.

Með inngöngu Finna tvöfaldast sameiginleg landamæri NATO-ríkja við Rússland, Finnar láta af hlutleysi og taka sér stöðu með vestrænum lýðræðisríkjum. Vonandi verður Svíum að sömu ósk von bráðar.

Mikilvægi norðurslóða fyrir öryggi NATO hefur magnast að undanförnu, en þegar öll Norðurlönd verða komin í NATO mun vægi þeirra innan þess og varnarsamstarf þeirra á milli ugglaust aukast. Þar mega Íslendingar ekki láta sitt eftir liggja.