Sókn Stjörnumaðurinn Niels Guteniuss í harðri baráttu við þá Ozren Pavlovic og Kára Jónsson í Origo-höllinni á Hlíðarenda í gærkvöldi.
Sókn Stjörnumaðurinn Niels Guteniuss í harðri baráttu við þá Ozren Pavlovic og Kára Jónsson í Origo-höllinni á Hlíðarenda í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Armani Moore var stigahæstur hjá Stjörnunni þegar liðið gerði sér lítið fyrir og lagði Íslands-, bikar- og deildarmeistara Vals að velli í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda í gær

Körfubolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Armani Moore var stigahæstur hjá Stjörnunni þegar liðið gerði sér lítið fyrir og lagði Íslands-, bikar- og deildarmeistara Vals að velli í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda í gær.

Leiknum lauk með fimm stiga sigri Stjörnunnar, 94:89, en Moore skoraði 20 stig, tók fjögur fráköst og gaf eina stoðsendingu í leiknum.

Mikið jafnræði var með liðunum allan tímann en Stjarnan leiddi með einu stigi eftir fyrsta leikhluta, 25:24. Liðin skiptust á að skora í öðrum leikhluta og leiddu Garðbæingar með þremur stigum í hálfleik, 50:47.

Líkt og í fyrri hálfleik var mikið jafnræði með liðunum í síðari hálfleik og Garðbæingar voru þremur stigum yfir að þriðja leikhluta loknum, 76:73. Liðin skiptust á að skora í fjórða leikhluta en Val tókst að minnka forskot Stjörnunnar í eitt stig þegar mínúta var til leiksloka, 89:90.

Stjörnumenn voru hins vegar sterkari á lokamínútunni, skoruðu fjögur síðustu stig leiksins, og fögnuðu sigri í leikslok.

Adama Darbo og Niels Gutenius skoruðu 17 stig hvor fyrir Stjörnuna en Darbo tók einnig átta fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Callum Lawson var stigahæstur hjá Val með 23 stig, fjögur fráköst og tvær stoðsendingar og Kári Jónsson skoraði 16 stig og gaf sex stoðsendingar.

Stjarnan leiðir því 1:0 í einvíginu en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Næsti leikur liðanna fer fram í Garðabænum á föstudaginn kemur.

Tvöföld tvenna í Njarðvík

Þá var Nicolas Richotti stigahæstur hjá Njarðvík þegar liðið tók á móti Grindavík í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitunum í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Leiknum lauk með naumum sigri Njarðvíkur, 87:84, en Richotti skoraði 29 stig, tók eitt frákast og gaf fjórar stoðsendingar.

Njarðvíkingar léku á als oddi í fyrri hálfleik og skoruðu 31 stig gegn 23 stigum Grindavíkur í fyrsta leikhluta. Njarðvíkingar juku forskot sitt svo enn frekar í öðrum leikhluta og leiddu með 17 stigum í hálfleik, 50:33.

Grindvík byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og tókst að minnka forskot Njarðvíkur í 15 stig í þriðja leikhluta, 52:67. Það virtist allt stefna í öruggan sigur Njarðvíkinga sem leiddu með 12 stigum, 80:68, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.

Grindvíkingum tókst hins vegar að minnka muninn í tvö stig, 81:83, þegar 12 sekúndur voru til leiksloka en Njarðvíkingum tókst að halda út.

Dedrick Basile skoraði 16 stig fyrir Njarðvík, tók fjögur fráköst og gaf fjórar stoðsendingar og Mario Matasovic skoraði 15 stig og tók átta fráköst.

Ólafur Ólafsson var stigahæstur hjá Grindavík með 27 stig og ellefu fráköst og Bragi Guðmundsson skoraði 19 stig.

Næsti leikur liðanna fer fram í HS Orku-höllinni í Grindavík á föstudaginn kemur.