Undirritaður deilir ekki þeirri skoðun með formanni Læknafélagsins að nauðsynlegt sé að skýra frekar en gert er í núgildandi lögum hvaða þjónusta flokkist sem heilbrigðisþjónusta

Atvinnulíf

Bjarki Már Baxter

Lögmaður á Málþingi lögmannsstofu

Þjóðfélagsbreytingar sem verða vegna nýrrar tækni, þekkingar eða breyttra áherslna í samfélaginu leiða oft til umræðu um hvort nauðsynlegt sé að uppfæra lög og reglur. Stundum litast slík umræða af klassískri forsjárhyggju þar sem kallað er eftir því að stjórnvöld bregðist við og setji á einn eða annan hátt skorður við athafnafrelsi einstaklinga undir því yfirskini að nauðsynlegt sé að „vernda“ almenning. Í mörgum tilvikum eru slíkar breytingar hins vegar ónauðsynlegar þótt ýmsar starfsstéttir telji annað og þá oft í því skyni að vernda eigin hagsmuni. Í öðrum tilvikum hefur liðið langur tími þar til hagsmuna- og eftirlitsaðilar sættast á þróun og breytingar í þjóðfélaginu, þ.m.t. í heilsutengdri þjónustu.

Nýlega kom upp umræða hér á landi sem minnti undirritaðan á framangreint. Var það eftir að hafa lesið viðtal við formann Læknafélagsins þar sem fram kom sú skoðun hennar að nauðsynlegt væri að skýra nánar hvaða þjónusta félli undir heilbrigðisþjónustu hér á landi og þar með leyfisskylda starfsemi sem væri undir eftirliti embættis landlæknis. Tilefnið var umræða um fyrirtæki hér á landi sem býður upp á ýmiskonar þjónustu tengda heilbrigðum lífsstíl. Þjónusta fyrirtækisins felst í að veita ráðgjöf varðandi hreyfingu, mataræði og bættan lífsstíl almennt en fyrirtækið býður m.a. upp á blóðmælingar þar sem skoðaðir eru helstu áhrifavaldar á heilsuna.

Umræðan sem átti sér stað í kjölfarið minnti undirritaðan á sambærileg mál sem komið hafa upp í gegnum tíðina og þá sérstaklega á sviði heilsu- og heilbrigðismála þegar þróun hefur orðið í framboði á þjónustu. Þá hefur oft verið varað við tiltekinni starfsemi, lagst gegn henni eða kallað eftir breyttri lagaumgjörð með tilheyrandi leyfisskyldu og eftirliti. Slíkt ákall hefur oft komið frá starfandi heilbrigðisstarfsfólki. Sem dæmi má nefna að sjóntækjafræðingar höfðu á sínum tíma mikið fyrir því að fá viðurkenningu á sjónmælingaréttindum hér á landi gegn mikilli andstöðu augnlækna. Einnig mætti nefna starfsemi kírópraktora, þeirra sem stunda nálastungur og ýmsar aðrar stéttir sem hafa haft töluvert fyrir því að fá viðurkenningu starfsréttinda sinna og frelsi til þess að stunda starfsemi sína hér á landi.

Framboð og framfarir á sviði heilsutengdrar þjónustu hafa án efa aukist á undanförnum árum. Í umræðu um heilsutengda þjónustu hefur hins vegar lítið borið á tali um nokkur grundvallarréttindi sem mættu fá aukna athygli í umræðunni. Er þar annars vegar um að ræða frelsi einstaklinga til þess að bera ábyrgð á eigin heilsu. Í því á að felast frelsi einstaklinga til þess að leita upplýsinga og fá ráðgjöf um heilsutengd málefni eins og mataræði og hreyfingu, utan heilbrigðisstofnana, á eigin ábyrgð, sem og til þess að láta framkvæma mælingar og rannsóknir á eigin kostnað. Hins vegar er um að ræða atvinnufrelsið en í því felst að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa og að löggjafanum sé aðeins heimilt að setja frelsi skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast þess.

Undirritaður deilir ekki þeirri skoðun með formanni Læknafélagsins að nauðsynlegt sé að skýra frekar en gert er í núgildandi lögum hvaða þjónusta flokkist sem heilbrigðisþjónusta. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er skýrt að heilbrigðisþjónusta sé m.a. þjónusta heilbrigðisstarfsmanna sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga. Kjarnaatriði skilgreiningarinnar felst í því að heilbrigðisstarfsmenn greina og meðhöndla sjúkdóma. Sú samfélagsþróun hefur hins vegar orðið að sífellt fleiri einstaklingar kjósa að fylgjast með eigin heilsu án þess að vera haldnir sjúkdómi eða flokkast sem sjúklingar. Er það og eðlileg krafa að einstaklingar sem bjóða heilbrigðu fólki upp á heilsutengda þjónustu fái til þess frelsi án afskipta löggjafans eða eftirlitsaðila en heilbrigðisstarfsfólk einbeiti sér áfram að meðferð og greiningu á sjúkdómum.