Skapandi Rán Flygenring er tilnefnd fyrir Eldgos.
Skapandi Rán Flygenring er tilnefnd fyrir Eldgos. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsagan Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur, sem Mál og menning gefur út, og myndabókin Eldgos eftir Rán Flygenring, sem Angústúra gefur út, eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023 fyrir Íslands hönd

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Skáldsagan Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur, sem Mál og menning gefur út, og myndabókin Eldgos eftir Rán Flygenring, sem Angústúra gefur út, eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023 fyrir Íslands hönd. Þetta var tilkynnt í gær. Svo skemmtilega vill til að þetta er þriðja árið í röð sem Arndís er tilnefnd og annað árið í röð sem Rán er tilnefnd.

Landsbundnar dómnefndir tilnefna í ár samtals 14 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Osló 31. október í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur sem samsvarar um sex milljónum íslenskra króna.

Frá Álandseyjum er tilnefnd myndabókin Giraffens hjärta är ovanligt stort eftir Sofiu Chanfreau sem Amanda Chanfreau myndlýsti. Frá Danmörku eru tilnefndar myndabókin Frank mig her eftir Line-Maria Lång og Karen Vad Bruun sem Cato Thau-Jensen myndlýsti og unglingaskáldsagan Tænk ikke på mig eftir Vilmu Sandnes Johansson. Frá Finnlandi eru tilnefndar myndabókin Kaikki löytämäni viimeiset eftir Maiju Hurme og unglingaskáldsagan Vi ska ju bara cykla förbi eftir Ellen Strömberg. Frá Færeyjum er tilnefnd myndabókin Strikurnar eftir Dánial Hoydal sem Annika Øyrabø myndlýsti. Frá Grænlandi er tilnefnd myndabókin Pipa Sulullu qaangiipput eftir Naju Rosing-Asvid. Frá Noregi eru tilnefndar myndabækurnar Ikke! eftir Gro Dahle sem Svein Nyhus myndlýsti og Berre mor og Ellinor eftir Ingrid Z. Aanestad sem Sunniva Sunde Krogseth myndlýsti. Frá samíska málsvæðinu er tilnefnd myndabókin Arvedávgeriikii eftir Mary Ailonieida Sombán Mari sem Sissel Horndal myndlýsti. Frá Svíþjóð eru tilnefndar Farbröder eftir Teresu Glad, sem er myndasaga byggð á heimildum, og myndabókin Glömdagen eftir Söru Lundberg.

Frumleg og áhrifarík saga

Íslensku dómnefndina skipa Helga Ferdinandsdóttir, Markús Már Efraím og Halla Þórlaug Óskarsdóttir, sem er varamaður. Í umsögn dómnefndar um bók Arndísar segir: „Kollhnís er frumleg og áhrifarík saga um erfið málefni þar sem óáreiðanlegur sögumaður er í forgrunni og þröngt sjónarhorn hans teymir lesandann áfram á hnitmiðaðan og djarfan hátt. Eftir því sem líður á söguna fer lesandann að gruna að upplifun Álfs sé ekki fullkomlega traustsins verð. Agaður frásagnarmáti Arndísar og stíll dregur listilega fram, með kímni og kærleik, hvernig sterkar tilfinningar bjaga hrekklausa sýn sögumannsins á fólkið sem hann dáir. […] Frásögnin er manneskjuleg og skrifuð af dýpt og umhyggju fyrir meginumfjöllunarefninu: einhverfu og þeim flóknu áskorunum sem fylgja henni, bæði fyrir aðstandendur og einstaklinginn sjálfan. Kollhnís fjallar um marglaga og flókna fjölskyldudýnamík og tekur á sárum tilfinningum og meinsemdum sem þrífast í nándinni en ná sjaldan inn í íslenskar barnabókmenntir.“

Bók sem ristir dýpra

Í umsögn dómnefndar um bók Ránar segir: „Þótt Íslendingar búi á eldfjallaeyju eru eldgos ekki daglegt brauð og sjaldgæft að þau séu sjáanleg frá mannabyggð eða í göngufæri. Snemma árið 2021 hófst samt gos nærri helsta þéttbýlissvæði landsins og vakti óttablandna hrifningu hjá bæði börnum og fullorðnum. […] Myndirnar sem prýða bókina eru fullar af húmor og forvitnilegum smáatriðum. Þær flæða eins og biksvart gjall í japönsku bleki eða sem glóandi hraunfljót í litríkum forstofudreglum og sýna náttúruna á bæði raunsæjan og ævintýralegan hátt. Persónur bókarinnar eru teiknaðar svarthvítar, en náttúran í lit. Rauðglóandi hraunið stígur þannig fram sem sjálfstæð persóna og andstæðan milli svarthvítra sögupersóna og litaðrar náttúru minnir okkur um leið á að við erum gestir hér á jörðu. Alveg eins og ferðamennirnir í bókinni. Eldgos kann í fyrstu að virðast hress og einföld saga um mæðgin og óblíða náttúru, en hún ristir mun dýpra.“

Til láns í Norræna húsinu

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru þau verðlaun ráðsins sem stysta sögu hafa, en þau voru fyrst veitt árið 2013. Norðurlandaráð veitir á hverju ári fimm verðlaun og eru þau auk barna- og unglingabókmennta á sviði bókmennta, kvikmynda, tónlistar og umhverfismála. Allar nánari upplýsingar um verðlaunin og rökstuðning um allar bækurnar má nálgast á vef Norðurlandaráðs, norden.org. Þess má geta að allar tilnefndar bækur ársins eru aðgengilegar á frummálunum á bókasafni Norræna hússins. Þar má einnig nálgast allar vinningsbækur frá upphafi. Skrifstofa hvorra tveggju bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hefur verið til húsa í Norræna húsinu frá 2014.

Höf.: Silja Björk Huldudóttir