Guðvarður Kjartansson fæddist á Flateyri við Önundarfjörð 5. maí 1941. Hann lést á heimili sínu að Engihjalla 11 í Kópavogi aðfaranótt 30. mars 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Guðrún Pálmfríður Guðnadóttir, f. 9.9. 1916, d. 28.8. 1997, dóttir Albertínu Jóhannesdóttur, f. 19.9. 1893, d. 2.1. 1989, frá Kvíanesi í Súgandafirði, og Guðna Jóns Þorleifssonar, f. 25.10. 1887, d. 1.4. 1970, frá Norðureyri í sama firði, sem síðast bjuggu í Efri bænum í Botni og á Suðureyri í sama firði, og Kjartan Ólafsson Sigurðsson, f. 21.9. 1905, d. 25.6. 1956, sonur Guðbjargar Einarsdóttur, f. 7.4.1863, á Sela-Kirkjubóli í Önundarfirði, d. 9.6. 1922, húsfreyju á Gilsbrekku í Súgandafirði, og eiginmanns hennar, Sigurðar skurðar Jóhannssonar, f. 6.1. 1862, d. 2.10. 1925, frá Hafnardal á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp.

Guðvarður var elstur í röð sex systkina, þeirra Svönu, f. 28.4. 1943, d. 2.9. 2019, Bertu Guðnýjar, f. 23.7. 1945, Hlöðvers, f. 16.8. 1948, Sólveigar Dalrósar, f. 14.6. 1951, d. 15.7. 2015, og Elínar Oddnýjar, f. 16.10. 1954, d. 26.7. 2013.

Guðvarður kvæntist, þ. 20.1.1996, Homhuan Kjartansson – áður Phiwbaikham, f. 9.12.1966, frá Tælandi. Þau skildu. Sonur þeirra er Kjartan Gunnar, f. 7.4. 1997. Fóstursonur Guðvarðar og sonur Homhuan er Athiphong Khod-Anu, f. 18.2. 1988, kvæntur Vipawan Saibud, f. 28.11.1997.

Guðvarður ólst upp á Flateyri. Hann lauk landsprófi frá Héraðsskólanum að Núpi 1958 og brautskráðist frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1960. Var hann trompetleikari í skólahljómsveitinni árin tvö á Bifröst. Sú sveit starfaði svo áfram utan skólans eftir útskrift meðlima hennar með breyttri skipan og gekk þá undir nafninu Kóral kvintett og Kári, mestmegnis á Norðurlandi. Eftir útskrift frá Bifröst vann hann eitt ár hjá COOP í Kaupmannahöfn og um tíma hjá Kaupfélaginu á Hólmavík og í Mývatnssveit og síðar hjá ýmsum öðrum Samvinnufyrirtækjum. Gjaldkeri og innheimtustjóri hjá Dráttarvélum hf., 1963 til 1967. Kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi Súgfirðinga 1970 til 1973, bókari hjá Kaupfélagi Önfirðinga 1978 til 1984 og jafnframt varamaður í stjórn þess 1979 til 1983 og aðalbókari hjá Kaupfélagi Árnesinga 1984 til 1989. Þá var hann leiðbeinandi við Grunnskólann á Flateyri 1988 til 1993. Eftir það vann hann hjá Bókhaldsþjónustunni í Þorlákshöfn þar til hann varð fjármálastjóri Hegas ehf. í Kópavogi 1997 og fram í maímánuð 2008 er hann fór á eftirlaun. Hann fékkst einnig við sjómennsku í gegnum tíðina, m.a. á eigin bátum frá Flateyri, og með mági sínum í Neskaupstað.

Guðvarður var félagi Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri og formaður þess 1970-1971. Hann var formaður stjórnar kjördæmisráðs Alþýðubandalagsins á Vestfjörðum í þrjú ár og formaður stjórnar kjördæmisráðs sama flokks á Suðurlandi í eitt ár. Hann fylgdi Æskulýðsfylkingunni að málum á yngri árum. Sat Í miðstjórn Alþýðubandalagsins í um fimm ár og átti sæti í hreppsnefnd Flateyrarhrepps 1978 til 1982 og var oddviti í rúmt ár.

Guðvarður hafði unun af tónlist. Var tónlistarmaður sjálfur og lék á trompet. Hann var hagmæltur vel, hnyttinn og gamansamur og samdi yfir áratugi gamanljóð, m.a. um ættmenni sín, Botnsarana, við kunn ljóð og flutti sjálfur af snilld.

Útför Guðvarðar fer fram frá Digraneskirkju í dag, 5. apríl 2023, klukkan 11.

Streymt verður frá henni á: http://www. streyma.is/streymi

Látinn er gamall og góður vinur minn, Guðvarður Kjartansson, eða Guffi eins og við vinir hans kölluðum hann oft. Guðvarður var Flateyringur og ólst þar upp, hann var 10 árum eldri en ég en kynni okkar hófust árið 1980 þegar ég flutti á ný til Flateyrar eftir nokkurra ára fjarveru. Við Guðvarður vorum báðir áhugamenn um bókhald og reikningsskil og í félagi við góðan vin okkar, Guðmund Jónas Kristjánsson, stofnuðum við félagið Reikningsskil sf. árið 1981. Félag þetta, sem annast bókhald og skattamál, starfar enn með 42 ára gamla kennitölu og gengur vel eins og alla tíð. Við Guðvarður störfuðum saman á margan annan hátt, m.a. í pólitíkinni á Flateyri þar sem við vorum samherjar þótt smá blæbrigðamunur væri á milli okkar þar. Guðvarður var kappsamur félagi og nákvæmur og kom það sér vel í störfum hans, en mestan hluta starfsævi sinnar starfaði hann við bókhald og skrifstofustörf, ásamt því að vera um tíma kaupfélagsstjóri og trillusjómaður á Flateyri á bátnum sínum, honum Smára ÍS. Leiðir skildi eins og gengur og Guðvarður flutti á Selfoss og síðan til Þorlákshafnar og starfaði þar um tíma. Ég flutti síðar til Þorlákshafnar og hitti þar fyrir vin minn Guðvarð og endurnýjuðum við þar vinaböndin.

Í Þorlákshöfn kynntist Guðvarður konu sinni, Homhuan, og eignuðust þau soninn Kjartan Gunnar sem alla tíð var augasteinn föður síns. Leiðir þeirra hjóna skildi en Kjartan bjó alla tíð hjá föður sínum og var hans stoð og stytta alla tíð. Guðvarður var mjög stoltur af syni sínum enda Kjartan vel gerður drengur og duglegur.

Guðvarður bjó síðustu árin í Kópavogi og undi hag sínum vel. Guðvarður hafði stundum sterkar skoðanir á dægurmálum og lét þær í ljós en hann var alltaf sanngjarn og málefnalegur og var gaman að rökræða við hann. Við félagarnir sem áttum Reikningsskil sf. héldum alla tíð góðu sambandi og hittumst reglulega, mér er sérlega minnisstætt að fyrir hálfu öðru ári ákváðum við að halda hátíð vegna 40 ára afmælis félagsins og gerðum úr því góða veislu og rifjuðum upp og treystum vinaböndin, fyrir dyrum stóð að hittast með vorinu en þá verðum við því miður færri og við munum sakna vinar okkar.

Að leiðarlokum þakka ég Guðvarði vini mínum langa og trausta vináttu við okkur hjónin og bið honum Guðs blessunar. Öllum aðstandendum sendum við hjónin samúðarkveðjur fullviss þess að góðar minningar lifa.

Þinn vinur,

Ægir E. Hafberg.

Ógleymanlegur samferðamaður er Guðvarður Kjartansson, sterkgreindur og jafnan með glöðu bragði. Hann brá því stórum svip yfir dálítið hverfi, Flateyri við Önundarfjörð.

Guðvarður var af Eyrarætt, afkomandi Ólafs Jónssonar lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði; Einar Guðmundsson, langafi hans, var frá Breiðadal neðri í Mosvallahreppi, en gerðist síðar bóndi á Selakirkjubóli í Flateyrarhreppi. Afi Einars, Jón Sigfússon í Tungu í Kirkjubólssókn, var þriðji maður frá ættföðurnum, Ólafi á Eyri.

Eiginkona Ólafs lögsagnara var Guðrún Árnadóttir prests í Hvítadal Jónssonar. Síra Árni, faðir Guðrúnar, var sonur Jóns prests Loptssonar í Saurbæjarþingum og Sigþrúðar Einarsdóttur prests á Stað í Steingrímsfirði.

Guðvarður var niðji Sigurðar stúdents Ólafssonar í Ögri. En meðal annarra barna þeirra Ólafs lögsagnara og Guðrúnar voru Þórður í Vigur, Ingibjörg átti síra Jón Sigurðsson á Rafnseyri, afa Jóns forseta, og Solveig átti síra Jón Sigurðsson í Holti í Önundarfirði, þann, er seinna var kallaður „Vaðapresturinn“ af því að hann drukknaði í svonefndum Vöðum skammt frá Holti. Foreldrar síra Jóns voru síra Sigurður Jónsson prófastur í Holti undir Eyjafjöllum og Valgerður Jónsdóttir í Laugarnesi Þórðarsonar. Í prófaststíð síra Sigurðar barst tilskipan frá Danakonungi þess efnis, að hætt skyldi að halda þríheilagt á hátíðum. Síra Sigurður gegndi því engu. Hann þótti merkismaður og ræðuskörungur. Af börnum sonar hans, síra Jóns, komst upp dóttirin Jarþrúður, sem átti Boga fræðimann á Staðarfelli Benediktsson, höfund Sýslumannaæfa. En það er önnur saga.

Langafi Guðvarðar í föðurætt var Jóhann bóndi Guðmundsson í Unaðsdal á Snæfjallaströnd, afkomandi Jóns hreppstjóra Jónssonar á Hróðnýjarstöðum í Laxárdal í Dalasýslu. Eiginkona Jóns var Halla Sigurðardóttir bónda Runólfsdóttir á Sauðafelli í Miðdölum. Sonur þeirra var Sigurður Jóhannsson á Flateyri, föðurafi Guðvarðar. Kona Sigurðar og föðuramma Guðvarðar var Guðbjörg Einarsdóttir. Guð blessi minningu þeirra.

Ógn var notalegur hugblærinn í þeirri stofu Grunnskólans á Flateyri, sem ætluð var Tónlistarskólanum. Ofan af veggjunum horfðu andlitsmyndir genginna fræðara og það var traustvekjandi, þótt sumir væru að vísu æði harðir undir brún. Fyrir neðan kolsvart, glampandi píanó; við gluggann hægindastóll frá Guðmundi heitnum í Víði. Guðvarður hafði látið innritast nemandi í tónfræði. Og nú var hressandi að kafa í kyrrð eftir leyndardómum þessarar greinar undir hinum bröttu fjöllum við þennan djúpa sjó; í vestfirsku skammdegi ólítil uppörvun andanum að átta sig á því, að litlu skrefin í dúr-skalanum eru á milli 3. og 4. og 7. og 8. tóns. Í laghæfum moll-skala aftur á móti milli 2. og 3. tóns og 7. og 8. tóns á leiðinni upp, en á milli 6. og 5. tóns og 3. og 2. tóns á leiðinni niður.

Guðvarður var ritfær í besta lagi. Um það vitna Þættir úr byggðasögu Flateyrar, sem hann samdi og birtust í bókinni Firðir og fólk.

Guð blessi minningu drengsins góða. Guð varðveiti, huggi og styrki ástvini hans.

Gunnar Björnsson, pastor emeritus.