Arnarstapi Einn fjölsóttasti ferðamannastaðurinn á Snæfellsnesi. Fékk 7,92 í einkunn í mati á ástandi áfangastaða innan friðlýstra svæða í fyrra.
Arnarstapi Einn fjölsóttasti ferðamannastaðurinn á Snæfellsnesi. Fékk 7,92 í einkunn í mati á ástandi áfangastaða innan friðlýstra svæða í fyrra. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Ástand áfangastaða sem eru innan friðlýstra svæða á landinu var heilt yfir svipað á seinasta ári og á árinu á undan þrátt fyrir að miklu fleiri ferðamenn færu um landið í fyrra. Svæðum sem eru metin í hættu á að tapa verndargildi sínu fækkaði um eitt milli ára og eru þessi svæði nú 14 talsins. Þá hefur innviðauppbygging á síðustu árum einnig skilað sér í aukinni náttúruvernd. Á það m.a. við um Rauðafoss og Keis innan Friðlands að Fjallabaki og Gjána og Háafoss innan Þjórsárdals.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ástand áfangastaða sem eru innan friðlýstra svæða á landinu var heilt yfir svipað á seinasta ári og á árinu á undan þrátt fyrir að miklu fleiri ferðamenn færu um landið í fyrra. Svæðum sem eru metin í hættu á að tapa verndargildi sínu fækkaði um eitt milli ára og eru þessi svæði nú 14 talsins. Þá hefur innviðauppbygging á síðustu árum einnig skilað sér í aukinni náttúruvernd. Á það m.a. við um Rauðafoss og Keis innan Friðlands að Fjallabaki og Gjána og Háafoss innan Þjórsárdals.

Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Umhverfisstofnunar um ástandið í fyrra á áfangastöðum sem eru á friðlýstum svæðum. Fimm áfangastaðir náðu að vinna sig út af listanum yfir staði þar sem hugsanleg hætta er talin á að þeir tapi verndargildi sínu og þörf er á aðgerðum (merktir appelsínugulir áfangastaðir) en fjórir nýir staðir eru komnir inn á listann. Þeir eru: Geysir, Háubakkar, Hveravellir og Stútur.

Á hinn bóginn eru fjórir áfangastaðir nú metnir í verulegri hættu á að tapa verndargildi sínu (merktir rauðir staðir í áfangamatinu). Þeir eru Suðurnám innan Friðlands að Fjallabaki, Námuvegur innan Vatnajökulsþjóðgarðs og Vigdísarvellir og Vigdísarvallaleið innan Reykjanesfólkvangs. „Námuvegur stendur í stað en bæði Vigdísarvellir og Vigdísarvallaleið ásamt Suðurnámi innan Friðlands að Fjallabaki lækka í einkunn á milli ára. Skýringuna á lækkuninni er að finna í aukningu á gróðurskemmdum vegna aksturs utan vega innan Vigdísarvalla og í tilfelli Suðurnáms hefur töf á lagfæringu á göngustíg aukið á gróðurskemmdir á svæðinu,“ segir í umfjöllun Umhverfisstofnunar.

Alls var lagt mat á ástand 146 áfangastaða innan friðlýstra svæða. Meginniðurstaðan úr ástandsmatinu er sú að meðaltalseinkun þeirra hækkar lítillega milli ára og fá svæði lækkuðu í einkunn, sem er talið vera mjög góður árangur í ljósi mikils fjölda gesta í fyrra. Alls fengu 45% allra áfangastaða yfir átta af tíu í einkunn og fjölgaði þeim úr 64 áfangastöðum í 66 sem fá græna einkunn en til þess að komast á grænan lista þarf viðkomandi svæði að hafa náð a.m.k. átta í heildareinkunn.

„Flest svæði voru að fá svipaðan gestafjölda og árin fyrir covid og einhver jafnvel fleiri gesti en nokkru sinni fyrr. Þrátt fyrir þessar öru breytingar í gestakomum, stóðu svæðin sig vel og fá svæði lækkuðu í einkunn á meðan önnur hækkuðu í einkunn. Niðurstaðan er sú að meðaleinkunn þeirra 146 svæða sem voru metin í ár er hærri en nokkru sinni fyrr,“ segir í skýrslunni.

Í nánari umfjöllun um einstaka áfangastaði sem metnir eru í verulegri hættu á að tapa verndargildi sínu segir m.a. um Vigdísarvelli og Vigdísarvallaleið að aukin vitneskja um svæðið og nálægð við gossvæðið í Fagradalsfjalli hafi aukið umtalsvert umferð um Vigdísarvallaleið. „Akstur utan vega jókst en meira vegna eldgoss nr. 2 í Fagradalsfjalli en margir keyrðu þarna í gegn til að komast á gossvæði. Að auki er farið að nota svæðið sem leiksvæði fyrir ýmis farartæki og er því um að ræða miklar skemmdir á náttúru svæðisins.“ Hveravellir eru einn þeirra staða sem voru færðir inn á appelsínugulan lista. Þar er lausaganga búfjár sögð valda álagi á friðlýstum jarðminjum svæðisins. Gamalt sæluhús og aðrar menningarminjar eru í slæmu ástandi og ráðast þarf í nauðsynlegt viðhald.

Gullfoss og Geysir

Mikil fjölgun gesta í fyrra

Um hálf milljón gesta kom að Gullfossi á árinu 2021 og talið er að rétt undir milljón hafi komið á svæðið í fyrra. Búast má við að þeim muni fjölga áfram á næstu árum og segir í skýrslunni að svæðið þurfi að vera í stakk búið að taka við miklum fjölda árið um kring. Ráðast þurfi í uppbyggingu á neðra svæði svo samræmi verði milli efra og neðra svæðis. Gullfoss fékk 7,74 í heildareinkunn í fyrra.

Í fyrra kom um ein milljón gesta að Geysi í Haukadal. „Klára þarf að hanna svæðið frá grunni og hefja framkvæmdir þannig að svæðið geti tekið við þeim fjölda gesta sem sækja svæðið heim ár hvert. Betrumbæta þarf upplýsingaaðstöðu á svæðinu. Vinna þarf mikið átak í að hefta útbreiðslu á lúpínu og sjálfsáðri furu á svæðinu,“ segir um úrbætur. Eiga framkvæmdir við stígagerð o.fl. að byrja í ár. Heildareinkunn svæðisins er 6,52.

Höf.: Ómar Friðriksson