Heima Björk Níelsdóttir er snúin heim eftir 15 ára dvöl í Hollandi þar sem hún starfaði sem söngkona.
Heima Björk Níelsdóttir er snúin heim eftir 15 ára dvöl í Hollandi þar sem hún starfaði sem söngkona. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er nútímatónlist fyrir fólk með athyglisbrest,“ segir söngkonan og trompetleikarinn Björk Níelsdóttir um plötuna Allt er ömurlegt – Örljóð um daglegt amstur sem Dúplum dúó (skipað Björk og Þóru Margréti Sveinsdóttur…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Þetta er nútímatónlist fyrir fólk með athyglisbrest,“ segir söngkonan og trompetleikarinn Björk Níelsdóttir um plötuna Allt er ömurlegt Örljóð um daglegt amstur sem Dúplum dúó (skipað Björk og Þóru Margréti Sveinsdóttur víóluleikara) sendi frá sér á dögunum á stafrænu formi auk nótnabókar sem kemur út á prenti.

„Titillinn er fenginn úr unglingadagbókinni minni og textarnir líka,“ útskýrir Björk hlæjandi og á meðal laga eru unglingaperlur á borð við „Date Night“, „Ruslafatan“, „Nágrannakonan á Vitastíg 8“, „Normcore“, „Í strætó“ og „Ömurlegi afmælisdagurinn“ sem er jafnframt lengsta lagið á plötunni eða heil mínúta að lengd.

Á túr með Björk í tvö ár

Allt er ömurlegt er önnur smáskífa Bjarkar sem er menntuð söngkona og trompetleikari en hún á að baki viðburðaríkan feril.

„Rétt skriðin út úr menntaskóla fór ég á tveggja ára hljómleikaferðalag með Björk Guðmundsdóttur sem trompetleikari þegar hún fylgdi eftir plötunni Volta. Ég var að fara til útlanda í annað skiptið þegar ég fæ það tækifæri og það var alveg klikkuð lífsreynsla. Ég man eftir að hafa staðið á sviðinu á Coachella-hátíðinni í Kaliforníu og upplifað svona „out-of-body“-tilfinningu.“

Að því hljómleikaferðalagi loknu fluttist Björk til Amsterdam þar sem hún nam söng og strax eftir útskrift var hún ráðin sem bakraddasöngkona og trompetleikari hjá bresku hljómsveitinni Florence & the Machine ásamt Valdísi Þorkels trompetleikara og Sigrúnu Jónsdóttur básúnuleikara sem einnig léku með Björk á Volta-túrnum.

„Það var ótrúleg reynsla líka og áhugavert innlit í þennan breska rokkstjörnuheim. Mjög fínt fyrsta verkefni eftir útskrift.“

Fólk sprakk úr hlátri

Í Amsterdam ílengdist Björk svo í heil 15 ár við söngstörf með ýmsum nútímatónlistarhljómsveitum, djassböndum og kammersveitum, tók þátt í óperuuppfærslum, leikhúsverkum og fleiru en er nú komin heim og heldur uppteknum hætti.

„Já, ég sneri heim fyrir ári en er alltaf með annan fótinn úti í Amsterdam. Kenni dálítið á trompet í tónlistarskólanum í Hafnarfirði þar sem ég lærði sjálf undir handleiðslu dr. Tótu [dr. Þórunn Guðmundsdóttir] en er svo bara að læra að verða fullorðin á Íslandi,“ segir hún og hlær.

En aftur að plötunni, hvað geturðu sagt mér um hana?

„Já, þessi plata og þetta nótnakver sem fylgir með varð til fyrir nokkrum árum þegar mér datt í hug að semja örlög sem við í Dúplum Dúó gerðum og fluttum á Myrkum músíkdögum 2019 sem tókst frábærlega. Við bjuggumst ekki við að fólk myndi fatta húmorinn því við erum mjög alvarlegar í framkomu og flutningi en ég hef sennilega aldrei séð fólk hlæja jafn mikið á tónleikum áður. Það hreinlega sprakk úr hlátri og gat ekki haldið aftur af hlátrinum út tónleikana.“

Hefur samúð með unglingum

Undirtitillinn er Nútímatónlist fyrir fólk með athyglisbrest. Geturðu útskýrt það nánar?

„Já, það er bara vegna þess að lögin eru öll rúmlega 10 sekúndur. Ef þú átt erfitt með að halda athygli þegar þú hlustar á tónlist þá er platan kjörin fyrir þig. Lagið er búið áður en þú veist af.“

En þú ert ekki sjálf með athyglisbrest, er það?

„Jú, reyndar. En það kemur þessu ekkert við,“ segir hún hlæjandi.

Hvaða hlustendahóp eða aldurshóp voruð þið með í huga við gerð plötunnar?

„Við hugsuðum þetta fyrir fullorðna en textarnir eru allir brot úr dagbók sem ég hélt þegar ég var unglingur. Það er smá unglinga-„angst“ í þessu. En það hafa allir gott af því að hlusta á nútímatónlist, ungir sem aldnir.“

Heldurðu að þetta höfði til unglinga?

„Já, það er aldrei að vita. Unglingar hafa gaman af öllu. Ég hef svo mikla samúð með unglingum. En við höfum ekki látið reyna á það. Kannski gerum við það bara næst.“