Sauðfé í Borgarfirði Bændur við Þverárafrétt hafa áhyggjur af því að ekki standi til að sinna viðhaldi girðinga.
Sauðfé í Borgarfirði Bændur við Þverárafrétt hafa áhyggjur af því að ekki standi til að sinna viðhaldi girðinga. — Morgunblaðið/Eggert
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Bændur í Borgarfirði eru áhyggjufullir sökum þess að ekki liggur fyrir fé frá hinu opinbera til viðhalds girðinga eftir að riðusmit kom upp í Miðfirði. Engin svör liggja fyrir hjá yfirvöldum og opinberir aðilar benda hver á annan að sögn Þuríðar Guðmundsdóttur, formanns upprekstrar Þveraárafréttar í Borgarfirði.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Bændur í Borgarfirði eru áhyggjufullir sökum þess að ekki liggur fyrir fé frá hinu opinbera til viðhalds girðinga eftir að riðusmit kom upp í Miðfirði. Engin svör liggja fyrir hjá yfirvöldum og opinberir aðilar benda hver á annan að sögn Þuríðar Guðmundsdóttur, formanns upprekstrar Þveraárafréttar í Borgarfirði.

„Við fáum eina og eina kind inn á okkar afrétt annars staðar frá og við höfum að sjálfsögðu áhyggjur af því,“ segir Þuríður. Eru áhyggjurnar til komnar vegna þeirra riðusmita sem upp eru komin í Miðfirði. Fella þarf 690 kindur eftir að upp komst um riðusmit á bænum Bergsstöðum í svokölluðu Miðfjarðarhólfi en Þverárréttur liggur þar nærri. Miðfjarðarhólfið hefur til þessa verið hreint.

Benda hvor á aðra

Þuríður segir að fólk sé uggandi og hugi að því hvernig best megi verja afréttinn. „Við höfum fengið þær upplýsingar að ekki eigi að leggja fé í viðhald varnargirðingar á milli Húnvetninga og Borgfirðinga,“ segir Þuríður.

Segir hún að reynt hafi verið að hafa samband við Matvælaeftirlitið og ráðuneyti landbúnaðar (matvælaráðuneytið) til þess að fá upplýsingar um hvers vegna ekki standi til að sinna viðhaldi í sumar ólíkt því sem verið hefur undanfarin ár en fátt sé um svör og stofanirnar bendi hvor á aðra. „Við viljum að peningur sé settur í þetta í sumar. Þetta er okkar áhyggjuefni og við trúum því varla að menn ætli að hunsa þetta í ljósi þessara nýjustu frétta. Það þarf að halda girðingum við á hverju einasta sumri ef þetta á að halda eitthvað,“ segir Þuríður.

Hún segir að þótt ekki hafi komið upp riðutilfelli í nærsveitum þá setji fréttirnar frá Bergsstöðum fólk upp á tærnar. „Þetta er svo rosalegt áfall fyrir allt samfélagið og þarna erum við að missa eitt af stærri og betri rekstrarbúum landsins. Sérstaklega er tilhugsunin slæm þegar við erum að nálgast sauðburð og það eina sem hægt að gera er að farga fénu,“ segir Þuríður.

Riðusmit

Fella þarf hátt í 700 kindur eftir að upp kom riðusmit á Bergsstöðum í Miðfirði.

Bændur á nálægum svæðum eru uggandi og dæmi eru um að kindur slæðist á milli.

Ekki stendur til að leggja fé í viðhald girðinga sem girða af kindur í Borgarfirði.

Þuríður Guðmundsdóttir segir að Matvælastofnun og matvælaráðuneytið bendi hvort á annað þegar bændur leita svara.