Aðalfríður Dýrfinna Pálsdóttir fæddist 11. janúar 1933 á Sauðárkróki. Hún lést 15. mars 2023 á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík.

Aðalfríður ólst upp á Sauðárkróki, miðjubarn hjónanna Páls Stefánssonar, f. á Bjarnastöðum í Blönduhlíð 13.8. 1890, d. 28.7. 1955, og Guðrúnar Soffíu Gunnarsdóttur, f. 8.10. 1896 í Keflavík í Hegranesi, d. 11.2. 1985 á Sauðárkróki. Systkini Aðalfríðar Dýrfinnu voru Sigurlaug Gunnfríður, f. 1929, d. 1995 á Akureyri, og Stefán Aðalberg, f. 1934, d. 2015 á Sauðárkróki.

Aðalfríður lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Sauðárkróks 1950, prófi frá Húsmæðraskólanum á Laugalandi 1953 og Húsmæðrakennaraskóla Íslands 1956. Hluti kennaranámsins fólst í námskeiðum við Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Þar kynntist hún eiginmanni sínum, Eyjólfi Pálssyni frá Hjálmsstöðum í Laugardal, f. 5.1. 1930, d. 27.5. 1967. Synir þeirra eru: 1) Páll, klassískur gítarleikari, f. 23.3. 1958, giftur Signýju Kjartansdóttur, f. 1960, og eiga þau tvær dætur: a) Aldísi, f. 1980, í sambúð með Sindra Birgissyni, f. 1980, þau eiga tvö börn, Magneu, f. 2006, og Jökul, f. 2010, og b) Veru, f. 1993, í sambúð með Styrmi Vilhjálmssyni, f. 1993, og eiga þau tvö börn, Sylvu Sól, f. 2017, og Storm Snæ, f. 2021. 2) Gaukur, bifvélavirkja- og matreiðslumeistari, f. 1.1. 1961, giftur Birnu Jónsdóttur, f. 1960, og eiga þau þrjár dætur: a) Katrínu Tinnu, f. 1982, gift Guðmundi Hreiðarssyni, f. 1983, en þau eiga þrjú börn, Eyju, f. 2010, Hlyn, f. 2014, og Birnu, f. 2018, b) Steinunni Eyju, f. 1991, í sambúð með Þorgeiri Sveinssyni, f. 1991, þau eiga eina dóttur, f. 2023, og c) Þórdísi Öllu, f. 2000, unnusti hennar er Arnar Freyr Yngvason, f. 1997. 3) Stefán, bifreiðasmiður og viðskiptafræðingur, f. 16.11. 1962, giftur Bergþóru Tómasdóttur, f. 1964, og eiga þau eina dóttur, Bryndísi, f. 1993, í sambúð með Aroni Jóhannssyni, f. 1990, og eiga þau tvö börn, Ölbu, f. 2017, og Atlas, f. 2021.

Aðalfríður stjórnaði gistihúsinu í Fornahvammi og kenndi við Húsmæðraskólann á Laugalandi áður en hún giftist Eyjólfi. Hann vann skrifstofustörf á Keflavíkurflugvelli, hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur og Loftleiðum. Eftir að Aðalfríður varð ekkja kenndi hún á matreiðslunámskeiðum hjá Húsmæðraskóla Reykjavíkur og heimilisfræði á gagnfræðastigi við Breiðholtsskóla og Ölduselsskóla. Á sumrin vann hún á Hótel Eddu á Laugarvatni. Hún tók sér námsleyfi eitt skólaár og nam næringarfræði við Háskóla Íslands. Hún tók þátt í félagsstarfi eldri borgara, var í Skagfirsku söngsveitinni og Kór eldri borgara.

Aðalfríður hóf sambúð með Steini Mikael Sveinssyni frá Tjörn á Skaga, f. 3.10. 1930, d. 15.3. 2023, snemma á níunda áratugnum. Steinn átti einn uppkominn son, Hörð, skósmið, f. 15.8. 1951. Steinn vann síðustu ár starfsævinnar á lager Hitaveitu Reykjavíkur en rak áður verktakafyrirtækið Hlaðprýði.

Útför Aðalfríðar Dýrfinnu Pálsdóttur og Steins Mikaels Sveinssonar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 5. apríl 2023, klukkan 13.

Streymi: https://www.netkynning.is/adalfridur-og-steinn

Virkan hlekk má nálgast á www.mbl.is/andlat

Kletturinn er fallinn.

Fimm ára gamla réðst á hana hani. En hún var undirbúin, með pumpu fulla af vatni. Hún hafði betur. Hún hafði yfirleitt betur. Þrjátíu og fjögurra ára missti hún manninn sinn og stóð eftir með þrjá unga drengi og Moskvich-bíl, en próflaus. Þá var bara að taka bílprófið og gefa í. Fyrsti bíltúrinn var í kirkjugarðinn að vitja leiðis pabba okkar og það sem hún kveið mest fyrir var brekkan. Ef bíllinn dræpi á sér og hún þyrfti að taka af stað í brekku. Það var eiginlega það versta sem gæti gerst. Og auðvitað drap bíllinn á sér í brekkunni með okkur standandi í aftursætinu. Við strákarnir hvöttum hana áfram, og klöppuðum fyrir henni á leið austur þegar bíllinn komst í 60 kílómetra hraða niður brekku.

Hún hvatti okkur og studdi í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur, kappkostaði að okkur myndi ekkert skorta, hefðum allt eins og önnur börn. Og það tókst henni. Gerði þrenn jakkaföt á okkur úr tvennum af pabba. Hún vann mörg störf, kenndi, þreif barnaheimili á kvöldin og vann á hóteli á sumrin. Við unnum allir á einhverjum tímapunkti með henni á hótelinu og höfðum ekki roð við henni. Hún bjó okkur til unaðsreit í sveitinni okkar, fæðingarstað föður okkar og forfeðra.

Leiðir mömmu og Steins lágu saman fyrir um fjörutíu og fimm árum og var það mikið gæfuspor í lífi þeirra beggja og samglöddumst við þeim innilega. Barnabörnin fæddust hvert af öðru og Steini gekk þeim öllum í afastað. Steinn var vinur okkar og afi barnanna okkar. Hann reisti börnunum lítið hús í sveitinni þar sem þau undu sér við leik og störf. Börnin eignuðust afa og hann eignaðist hóp af börnum sem elskuðu hann og dáðu. Síðustu árin lifði hún við alzheimersjúkdóminn og þau fluttu á hjúkrunarheimilið Skjól. Minnið hjá henni fjarlægðist og stundum var hún að leita að litlu drengjunum sínum. Alltaf með vegferð þeirra í huga. Gladdist þegar langömmubörnin komu til hennar með sínum foreldrum. Brosti og bauð alla velkomna þó svo við vissum að hún væri kannski ekki alltaf með á nótunum. Alltaf glöð, brosmild og full af hlýju.

Þegar Steini frétti að nú væri jarðvist hennar senn á enda var eins og slokknaði á honum og öll mótstaða brast. Kannski hafði hann notað varaaflið við að aðstoða hana síðustu misserin. Hann var órólegur síðasta daginn þeirra þar til við settum höndina hennar í hans hönd. Þá var eins og ró færðist yfir hann. Þau kvöddu sama daginn eftir langa ævi. Við lútum höfði í þökk.

Páll Eyjólfsson,
Gaukur Eyjólfsson,
Stefán Eyjólfsson.

Velkomin í ömmuhús – þetta voru orðin sem ég heyrði þegar ég hljóp upp stigann á Rauðalæknum. Á móti mér tók amma, yfirleitt með svuntu bunda um sig, með faðminn sinn hlýja og stóra brosið sitt sem náði svo fallega til beggja augnanna. Afi fylgdi oftast í humátt á eftir henni og ég man það svo sterkt hvað mér leið alltaf vel hjá þeim. Þegar inn var komið fylltust vitin af kanilsnúðalykt, amma hafði verið að baka. Hún vildi kenna mér að baka snúða og steikja vestfirskar hveitikökur, allt gert af mikilli alúð. Á meðan bakkelsið bakaðist spilaði afi gjarnan við mann hæ gosa og ólsen. Í ömmuhúsi var enginn að flýta sér, bæði afi og amma gáfu mér endalausan tíma og fyrir það er ég ævinlega þakklát.

Það er hverju barni dýrmæt gjöf að eiga góða að. Slíkt ríkidæmi er því miður ekki öllum gefið. Að fá að njóta ástar og umhyggju er besta veganesti sem hugsast getur og það var þér svo eðlislægt að gefa, elsku amma mín. Sundferðirnar, símtölin okkur og bréfaskrifin eru mér svo innilega minnisstæð – ég veit hversu heppin ég var að hafa átt þig að.

Amma kvaddi mig yfirleitt með því að segja guð veri með þér barnið mitt og vertu ævinlega blessuð en nú er komið að mér að kveðja þig í hinsta sinn, elsku amma mín. Guð veri með þér, vertu ævinlega blessuð. Ég veit þú ert komin á fallegan stað, guð og góðu englarnir varðveiti þig að eilífu, elsku amma mín. Ég kveð þig með trega en fyrst og fremst miklu þakklæti fyrir alla ástina sem þú gafst mér.

Það þarf fólk eins og þig,

fyrir fólk eins og mig.

Þín alltaf,

Bryndís Stefáns.

Elskuleg vinkona mín, Aðalfríður Pálsdóttir (Alla), lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 15. mars sl. níræð að aldri. Hún var í mörgu tilliti einstök kona og verður hennar lengi minnst með hlýhug og þakkæti af þeim fjölmörgu sem kynntust henni og hafa notið velvildar hennar. Sama dag lést seinni maður hennar, Steinn Sveinsson, og votta ég ættingjum hans mína dýpstu samúð. Fyrri maður hennar var Eyjólfur Pálsson frá Hjálmstöðum í Laugardal sem andaðist langt um aldur fram.

Ég kynntist Öllu fyrst skömmu eftir að hún lauk prófi frá Húsmæðrakennaraskóla Íslands, áður hafði hún verið í Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði. Námið kom sér vel eftir andlát Eyjólfs, þegar hún þurfti að annast unga syni þeirra. Við Alla unnum saman í rúman áratug er hún kom að vinna hjá mér á Hótel Eddu á Laugarvatni með drengina sína þrjá, sem síðar áttu allir eftir að vinna á hótelinu. Á Laugarvatni áttum við Alla margar góðar og skemmtilegar stundir og tókst með okkur góður vinskapur sem hélst alla tíð. Alla hafði góða söngrödd og söng með ýmsum kórum í Reykjavík. Seinna lágu leiðir okkar aftur saman þegar við urðum nágrannar á Dalbrautinni. Var mikið um samgang okkar þar og var hún ávallt glaðvær og elskuleg í viðmóti.

Ég votta sonum Öllu og fjölskyldum þeirra innilega samúð. Góð kona hefur kvatt, blessuð sé minning hennar.

Erna Helga Þórarinsdóttir (Lillý).