Mannlífið á götum Lagos. Nógu dýr verða orkuskiptin og loftslagsmarkmiðin fyrir Vesturlönd, en verðmiðinn verður með öllu óviðráðanlegur fyrir fátækari ríki heims. Óraunhæfar lausnir verða aldrei að veruleika.
Mannlífið á götum Lagos. Nógu dýr verða orkuskiptin og loftslagsmarkmiðin fyrir Vesturlönd, en verðmiðinn verður með öllu óviðráðanlegur fyrir fátækari ríki heims. Óraunhæfar lausnir verða aldrei að veruleika. — AFP/John Wessels
Mér þykir fátt leiðinlegra en að flokka rusl og ég prísa mig sælan að hafa undanfarinn áratug búið mestan part í borgum sem leyfa fólki að setja heimilissorpið allt í eina tunnu. Var ég ekki kátur þegar við hjónin fluttum til Parísar og ég…

Mér þykir fátt leiðinlegra en að flokka rusl og ég prísa mig sælan að hafa undanfarinn áratug búið mestan part í borgum sem leyfa fólki að setja heimilissorpið allt í eina tunnu. Var ég ekki kátur þegar við hjónin fluttum til Parísar og ég uppgötvaði að hér eru tunnurnar þrjár: græna tunnan tekur við hverju sem er, sú með gula lokinu er ætluð undir bylgjupappír, plastflöskur, dósir og þess háttar, og loks er tunnan með hvíta lokinu sem er sú franskasta af þeim öllum og tekur gagngert við vínflöskum. Það segir heilmikið um franska lífsstílinn að í fjölbýlishúsinu mínu er það vínflöskutunnan sem fyllist hvað hraðast.

Ég er enginn umhverfissóði, en ég hef verulegar efasemdir um að flokkun á heimilissorpi geri mikið gagn – og hvað þá að gagnið sé í réttu hlutfalli við fyrirhöfnina og kostnaðinn. Þegar málin eru skoðuð ofan í kjölinn virðist smásmuguleg flokkun á sorpi oft lítið meira en sýndarmennska og ávinningurinn sáralítill af öllum þeim tíma sem fer í flokkunina, öllu því plássi sem þarf að taka frá undir eldhúsvaskinum og úti á lóð undir aðskildar ruslafötur og ruslatunnur, og öllu því veseni sem fylgir því að láta mismunandi ruslabíla safna mismunandi sorpi á mismunandi dögum. Við erum ekki alveg á réttri leið þegar heimilissorpið er farið að leika allstórt hlutverk í daglegu lífi fólks.

Og jafnvel ef tækist að sýna fram á, þegar dæmið allt er reiknað til enda, að allt umstangið í kringum ruslið gerði meira gagn en ógagn þá þyrfti líka að spyrja hvaða aðrir valkostir eru í stöðunni? Hvaða önnur verkefni gætum við ráðist í sem gagnast myndu plánetunni og fólkinu sem á henni býr? Hvað ef við létum nægja að hrúga öllu í eina tunnu, safna í einn ruslabíl og urða á einum stað – en notuðum það sem sparaðist til að leggja meira af mörkum til að uppræta vannæringu barna eða stemma stigu við malaríu í fátækari löndum heimsins?

Það er ekki nóg að gera góða hluti „af því bara“, og vart ástæða til að óska íbúum höfuðborgarsvæðisins til hamingju með að það stendur víst til að bæta á þá fjórðu flokkunartunnunni – þó enginn hafi verið að biðja sérstaklega um það.

Japönsk rökhugsun

Að því sögðu þá sé ég það í hillingum að flokka heimilissorpið þegar við Youssef látum loksins verða af því að flytja til draumaborgarinnar Tókýó. Er flökkunarkerfið í Japan þó síst einfaldara en það sem lagt er á Reykvíkinga eða Parísarbúa og greina heimildir frá því að í sumum hverfum japönsku höfuðborgarinnar megi flokka ruslið í allt að 30 ólíka flokka. Þá nota Tókýóbúar ekki tunnur heldur poka – úr gagnsæju plasti í ólíkum litatónum fyrir ólíkar gerðir af sorpi – og þarf að setja réttu pokana út á götu fyrir kl. 8 árdegis á réttu dögunum, og mjög illa séð að setja ruslið út kvöldið áður til að geta sofið fram eftir.

Japanska kerfið snýst hins vegar ekki um að flokka sorpið „af því bara“, heldur byggist það á rökhugsun. Er þumalputtareglan að skipta heimilissorpi í þrjá flokka: endurvinnanlegt rusl (plastflöskur, krúsir, oþh.), rusl sem má brenna (matarleifar, pappír, fatnaður), og loks rusl sem ekki er hægt að brenna (málmar, gler, keramík).

Hvað er svo gert við sorpið? Það sem má brenna fer beint í næsta orkuver og er mokað í brennsluofna til að búa til raforku fyrir heimilin (reykurinn er vandlega síaður, mengun í algjöru lágmarki og enginn hefur af því áhyggjur að bruninn búi til koltvísýring). Mikið af endurvinnanlega sorpinu, einkum plastið, fer sömu leið, ef það er ekki fjárhagslega hagkvæmt að endurvinna það. Óbrennanlega sorpið má svo nota sem landfyllingu enda veitir Japan ekki af meira landsvæði. Undan ströndum Tókýó hefur tekist að nota sorpið til að mynda tvær litlar eyjar sem hýsa meðal annars gámahöfn og skrifstofur umhverfissviðs borgarstjórnar. Eyjarnar eru í dag um 377 hektarar að stærð og gert ráð fyrir að þær verði á endanum nærri þúsund hektarar, eða á við hundrað Klambratún.

„Vitum ekki rétta svarið“

Er leitun að þeirri þjóð sem sinnir umhverfismálum betur en Japan, en fólkið sem þar býr – og þeir sem fara með völdin – gæta þess um leið að hafa báða fætur á jörðinni. Skynsemin ræður för en ekki draumórar og dyggðaskreyting.

Japönsku skynsemina má m.a. sjá í starfi bílaframleiðandans Toyota sem hefur nálgst orkuskipti í samgöngum af meiri varkárni en flestir keppinautarnir, og raunar farið svo varlega að sumum hefur þótt þetta framsækna og öfluga fyrirtæki nánast draga lappirnar þegar kemur að þróun rafmagnsbíla.

Á blaðamannafundi í desember sagði Toyoda Akio, fráfarandi forstjóri Toyota, það sem fáir í bílageiranum hafa þorað að segja upphátt: að það gæti verið misráðið að leggja ofuráherslu á rafmagnsbíla, og að a.m.k. til skemmri tíma litið ættu bílar með sparneytnar tvinn-vélar að geta leikið mikilvægt hlutverk við að draga úr olíunotkun og útblæstri. Rímar þetta við það sem ófáir sérfræðingar og álitsgjafar hafa haldið fram: að á mörgum stöðum í heiminum sé nær útilokað að segja skilið við bensinbíla með miklum hraði: það leysir engan vanda að ætla að bjóða fjölmennum og fátækum löndum á borð við Pakistan, Nígeríu eða Indland upp á rafmagnsbíla þegar aðrir valkostir eru ódýrari. Þá eru lönd sem eiga fullt í fangi með að tryggja íbúum sínum aðgang að rennandi vatni varla að fara að reisa hraðhleðslustöðvar á hverju götuhorni.

„Þögull meirihluti [í bílageiranum] er efins um að það sé ráðlegt að veðja einvörðungu á rafmagnsbíla. En sama fólk heldur að það sé til lítils að synda gegn straumnum, svo þau hafa ekki hátt um skoðanir sínar,“ sagði Toyoda en fyrir réttu ári síðan tilkynnti Toyota að félagið hygðist verja 383 milljónum dala í að reisa nýjar verksmiðjur sem eiga að framleiða fjögurra strokka bensínvélar fyrir bifreiðar með bæði „gamaldags“ og tengiltvinn-aflrás. „Við vitum ekki enn hvert rétta svarið verður og ættum þess vegna ekki að veðja á einn hest,“ útskýrði Toyoda.

Er fyrirtækið með alla anga úti: fleiri rafbílar eru á leiðinni, miklu púðri varið í að þróa vélar sem ganga fyrir vetni, og mjög áhugaverðar tilraunir í gangi með notkun ammóníakseldsneytis. (Ammóníakið mætti framleiða með kolefnishlutlausri aðferð íslenska tæknisprotans Atmonia. Verður Atmonia vafalítið orðið að alþjóðlegu risafyrirtæki áður en öldin er hálfnuð).

Toyoda Akio steig til hliðar í byrjun þessa mánaðar og tók Sato Koji við keflinu. Sato lærði vélaverkfræði við Waseda-háskóla og tókst að komast til æðstu metorða hjá Lexus. Í nýlegu viðtali kvaðst hann ætla að halda áfram þeirri stefnu að takmarka þróunarstarf Toyota ekki við rafmagnsbíla eingöngu. „Það er mikilvægt að viðhalda sveigjanleika og geta boðið upp á vöruframboð sem fellur vel að ólíkum markaðssvæðum með ólík markmið um að draga úr útblæstri,“ sagði hann.

Verður gaman að sjá hvar Toyota mun standa að nokkrum áratugum liðnum þegar flestir vestrænir bílaframleiðendur verða búnir að láta þróun bensínvéla sitja á hakanum vegna ofuráherslu á rafmagnið. Eitthvað fær mig til að halda að það verði ekki mikið fleiri rafmagnsbílar á götunum í Abuja eða Islamabad árið 2040 en eru þar á götunum í dag.

Það á við um umhverfis- og útblástursmálin að menn geta metist um það hver sé framsýnastur og réttsýnastur, en alltaf þarf á endanum að horfast í augu við veruleikann eins og hann er, og hvað hlutirnir kosta í raun og veru.

Of hár reikningur

Talandi um framsýni og réttsýni, þá er áhugavert að sjá hvernig umræðan um loftslagsmál virðist smám saman vera að ná jarðtengingu á ný. Það var ekki nokkur vandi að setja háfleyg markmið um orkuskipti á meðan allt lék í lyndi en núna standa þjóðir heims frammi fyrir sársaukafullri verðbólgu og háu orkuverði. Evrópa, sem hefur staðnað efnahagslega í röskan áratug, slapp með skrekkinn í vetur því að veðurfarið í álfunni var óvenjumilt svo það varð ekki jafnþungt högg að fara á mis við olíuna og jarðgasið frá Rússlandi.

Útlitið er nægilega alvarlegt til að málsmetandi aðilar hafi byrjað að leyfa sér að viðra ósköp eðlilegar spurningar um kostnaðinn og ávinninginn af núverandi stefnu og hvort fara þurfi aðra leið.

Síðast á föstudaginn birtist ritstjórnarpistill í Wall Street Journal þar sem bent var á að stjórnvöld um allan heim stæðu í þeim sporum að þurfa að viðurkenna að sá ákafi sem einkennt hefur tilraunir þeirra til að draga úr losun koltvísýrings og umbylta orkumálum er að reynast allt þeim allt of dýr og þarfnist rækilegrar endurskoðunar. „Metnaður [stjórnvalda] á umhverfissviðinu kemur ekki heim og saman við hinn efnahagslega veruleika,“ segir í pistlinum þar sem jafnframt er bent á að það blasi æ betur við að mikilla tækniframfara þurfi við ef að það á að vera raunhæft að skipta bensínbílaflotanum út fyrir rafmagnsbíla.

Segir ritstjórn WSJ að lokum: „Hugmyndin um kolefnishlutleysi er að deyja hægfara dauðdaga, nú þegar stjórnmálamenn og kjósendur eru byrjaðir að sjá hversu misráðið það var að leggja upp í þessa vegferð. Kannski að einhver fáist loksins til að segja það upphátt.“