Hér nálgast ábúendur á bænum vistirnar sem varðskipsmenn komu með í Mjóafjörð.
Hér nálgast ábúendur á bænum vistirnar sem varðskipsmenn komu með í Mjóafjörð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hörður Vilberg hordur@mbl.is Það var kærkomin sending sem barst ábúendum á Dalatanga sl. mánudag. Varðskipið Þór, sem var að ljúka björgunaraðgerðum eftir snjóflóðin í Neskaupstað, kom með alls kyns kræsingar; páskasteikina, páskaegg, mjólk, rjóma og egg auk lyfja fyrir dýrin á staðnum.

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Það var kærkomin sending sem barst ábúendum á Dalatanga sl. mánudag. Varðskipið Þór, sem var að ljúka björgunaraðgerðum eftir snjóflóðin í Neskaupstað, kom með alls kyns kræsingar; páskasteikina, páskaegg, mjólk, rjóma og egg auk lyfja fyrir dýrin á staðnum.

Marsibil Erlendsdóttir hundaþjálfari býr á Dalatanga ásamt dóttur sinni, Aðalheiði Elfríð Heiðarsdóttur, og barnabarninu Jakobi Þór Arnarssyni. Hann ákvað að koma frá Bandaríkjunum og prófa að vera einn vetur með ömmu sinni. „Hann er búinn að fá harðan vetur,“ segir Marsibil og hlær.

Hún segir að það hafi verið gaman að sjá skipverja Þórs koma færandi hendi en það eru um fjörutíu ár frá því að varðskip kom síðast á Dalatanga. „Við vorum ekki búin að fá vörur í mánuð,“ segir hún og bætir við að mikil veðraskipti hafi verið í vetur og leiðin að Dalatanga oftar en ekki lokast. „Það er búið að vera frekar leiðinlegt veður og það hefur verið snjóþungt. Við vorum til dæmis innilokuð í fimm vikur frá því fyrir jólin þar til í febrúar þegar vegurinn loks opnaðist.“

- Hvað gerir fólk þegar útilokað er að skjótast út í búð til að sækja sér vistir?

„Þetta er ekkert mál. Við erum með stórar ískistur og stóra ísskápa. Blessaður vertu!“ segir Marsibil glettin við blaðamann en það saxast þó hægt og bítandi á birgðirnar þegar allar samgöngur liggja niðri og fólk kemst hvorki lönd né strönd vikum saman. Fæðið verður einhæft, kartöflur og fiskur.

Ferjunni Björgvin á Mjóafirði er ætlað að færa þeim vistir einu sinni í viku en ferjan hefur aðeins komist að Dalatanga einu sinni í vetur vegna mikils brims og óróa í sjónum. Engin bryggja er á staðnum. „Við þurfum að labba niður fljúgandi hálar klappir og taka á móti vörunum. Það er ekkert vandamál. Þeir keyra bátana upp að björgunum og vörunum er hent á land þar sem við tökum á móti þeim.“ Póstbáturinn á að koma einu sinni í viku þar sem einn maður er um borð. Hann þarf að leggja honum og halda að landi á gúmmíbát en hefur ekki ráðið við krefjandi aðstæður í vetur.

Segja má að oftar en ekki hafi vart verið hundi út sigandi, sem kom niður á þjálfun hunda Marsibilar. Þau sinna sauðfénu og hestunum á daginn, gera verðurathuganir á tveggja tíma fresti og sjá til þess að vitinn á staðnum sé í lagi. Norræna siglir fram hjá á leiðinni til og frá Seyðisfirði og vissara að ljós logi á vitanum.

Marsibil hefur búið á Dalatanga síðan 1968 og líkar lífið þar vel. „Þetta er eins og lítið fyrirtæki, maður þarf alltaf að vera að stússast eitthvað. Það eru allir að vorkenna okkur að búa hérna en þetta er lífsval og okkur finnst mjög gott að búa hérna, ekkert vandamál.“

Höf.: Hörður Vilberg