Ný verðtryggð íbúðalán til heimila námu um 6 milljörðum í febrúar.
Ný verðtryggð íbúðalán til heimila námu um 6 milljörðum í febrúar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Heimilin tóku samtals tæpan 21 milljarð verðtryggðra króna að láni með veði í íbúð á tímabilinu frá desember 2022 til febrúar 2023. Á sama tíma greiddu heimilin upp óverðtryggð íbúðalán um sem nemur 3 milljörðum króna

Heimilin tóku samtals tæpan 21 milljarð verðtryggðra króna að láni með veði í íbúð á tímabilinu frá desember 2022 til febrúar 2023. Á sama tíma greiddu heimilin upp óverðtryggð íbúðalán um sem nemur 3 milljörðum króna. Þetta kemur fram í gögnum Seðlabanka Íslands.

Vinsældir verðtryggðra lána hafa farið vaxandi frá því í byrjun síðasta árs. Í október á síðasta ári var lánað meira af verðtryggðum íbúðalánum en óverðtryggðum í fyrsta skipti frá árinu 2018. Frá því í desember hafa verðtryggðu lánin verið allsráðandi á markaði á meðan lántakendur hafa heldur greitt óverðtryggð lán upp. Bankarnir kannast við þróunina en merkja ekki aukin vanskil.

Miklar sviptingar hafa verið á íbúðalánamarkaði frá upphafsmánuðum ársins 2020. Á þeim tíma tóku heimilin einkum óverðtryggð íbúðalán á breytilegum vöxtum og heildarfjárhæð lánveitinga fór ört vaxandi mánaða á milli. Eftir stýrivaxtahækkun Seðlabankans í maí 2021 fóru óverðtryggð lán á föstum vöxtum smám saman að taka markaðinn yfir auk þess sem hægði á lántöku. Þau lán voru vinsælust fram á síðasta haust þegar verðtryggðu lánin urðu vinsælasta lánsformið. Árin 2020 og 2021 greiddu lántakendur verðtryggð lán upp í stórum stíl, allt þar til vinsældir þeirra tóku að aukast á ný á síðasta ári.