Seltjarnarnes Passíusálmar lesnir upp í kirkjunni á föstudaginn.
Seltjarnarnes Passíusálmar lesnir upp í kirkjunni á föstudaginn. — Morgunblaðið/Ómar
Passíusálmar séra Hallgríms Péturssonar verða að venju lesnir upp í Seltjarnarneskirkju á föstudaginn langa, 7. apríl nk., og hefst lesturinn kl. 13. Safnaðarfólk les þá alla 50 sálmana og lýkur lestri um kl

Passíusálmar séra Hallgríms Péturssonar verða að venju lesnir upp í Seltjarnarneskirkju á föstudaginn langa, 7. apríl nk., og hefst lesturinn kl. 13.

Safnaðarfólk les þá alla 50 sálmana og lýkur lestri um kl. 18. Fagra tónlist leika á milli þau Auður Hafsteinsdóttir á fiðlu og Friðrik Vignir Stefánsson á orgel. Allir eru velkomnir í kirkjuna yfir daginn til að njóta lestrar og tónlistar, og standa við eins lengi og aðstæður hvers og eins leyfa, eins og segir í tilkynningu. Kaffiveitingar eru í safnaðarheimilinu.

Passíusálmarnir voru fyrst gefnir út árið 1666 á Hólum og hafa öldum saman verið í miklu uppáhaldi hjá þjóðinni. Meðal þeirra sálma sem oft eru sungnir við messur og margir þekkja eru „Son Guðs ertu með sanni“ og „Víst ertu, Jesús, kóngur klár“. Ekkert íslenskt rit hefur verið prentað jafnoft og Passíusálmarnir eða yfir hundrað sinnum, auk útgáfna á öðrum tungumálum.