Akureyri Norðurland beint í hjartastað enda mun þar viðra sæmilega.
Akureyri Norðurland beint í hjartastað enda mun þar viðra sæmilega. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Á þeirri hátíð sem nú fer í hönd mun væntanlega viðra best á morgun, skírdag, þegar gert er ráð fyrir hæglátu veðri víðast hvar. Um landið sunnan- og vestanvert eru líkur á éljum á láglendi. Úrkomulaust verður á Norður- og Austurlandi og góðar…

Á þeirri hátíð sem nú fer í hönd mun væntanlega viðra best á morgun, skírdag, þegar gert er ráð fyrir hæglátu veðri víðast hvar. Um landið sunnan- og vestanvert eru líkur á éljum á láglendi. Úrkomulaust verður á Norður- og Austurlandi og góðar aðstæður til útivistar þegar hiti verður 1-3°á láglendi. Í dag, miðvikudag, má annars búast við kulda og að eitthvað snjói, til dæmis vestur á fjörðum.

Á föstudag og fram á sunnudag má búast við, samkvæmt veðurspám, slagviðri með suðlægum áttum um sunnan- og vestanvert landið og hugsanlega líka austur á landi. Á sunnudag má svo búast við skilum nýrrar lægðar með allhvassri A- og SA-átt. Um sunnanvert landið verður ausandi rigning en nyrðra þurrt með hnúkaþey. Eins verður að mestu þurrt á Vestfjörðum. Allir helstu vegir á landinu verða færir.

„Besta veðrið næstu daga gæti orðið á Norður- og Austurlandi og þá lofar Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið góðu. Þar verður vorblíða á skírdag, en reikna má þó með að skíðasnjó taki fljótt upp,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

„Bærinn fyllist af fólki. Gestir að sunnan gista á flestum heimilum, allir vegir hingað eru greiðfærir. Hér verður mikil gleði,“ segir Gísli Elís Úlfarsson kaupmaður í Hamraborg á Ísafirði. Þar vestra verður nú á fyrstu frídögunum hátíðin Aldrei fór ég suður og svo er á dagskrá ýmislegt tengt skíðaíþróttinni. sbs@mbl.is