Björn Leví Gunnarsson
Björn Leví Gunnarsson
Vantraust er erfitt. Efi umlykur allt og hverju skrefi fram á við fylgja óteljandi skref í allar aðrar áttir til þess að fólk geti fullvissað sig um að ekkert betra sé í boði. Blint traust er líka erfitt

Vantraust er erfitt. Efi umlykur allt og hverju skrefi fram á við fylgja óteljandi skref í allar aðrar áttir til þess að fólk geti fullvissað sig um að ekkert betra sé í boði. Blint traust er líka erfitt. Sama hversu oft er bent á betri leið þá er bara vaðið áfram í gegnum fen og forarpytti.

Í síðustu viku stóðu ríkisstjórnin og þingmenn hennar, öll sem ein, á bak við verk dómsmálaráðherra. Þó að vantrauststillagan sem Píratar, Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins lögðu fram hafi grundvallast á því að dómsmálaráðherra fyrirskipaði Útlendingastofnun að afhenda Alþingi ekki gögn, og braut með því gegn upplýsingaskyldu sinni gagnvart þinginu, þá hljótum við óhjákvæmilega að horfa á þá samstöðu í stærra samhengi.

Þó að brotið gegn upplýsingaskyldunni sé eitt og sér nægt tilefni til vantrausts – í öllum þróuðum lýðræðisríkjum í heiminum nema á Íslandi – þá eru mörg önnur mál sem ættu að leiða til vantrausts gagnvart dómsmálaráðherra. Rafbyssumálið er gott dæmi. Ef stjórnarliðar treystu dómsmálaráðherra þrátt fyrir brot gegn upplýsingaskyldu sinni þá treysta þau einnig ráðherra þrátt fyrir samráðsleysi um mikilvæg stjórnarmálefni. Það hlýtur þá að þýða að þau taki ekki mark á forsætisráðherra sem finnst rafbyssumálið vera mikilvægt stjórnarmálefni sem ætti að ræða nánar.

Það er mjög erfitt að gagnrýna. Í ævintýrinu um nýju fötin keisarans þorði því enginn nema barn sem vissi líklega ekki betur. Viðbrögðin í ævintýrinu voru þau að loksins þorði einhver að segja það sem öllum lá á hjarta. Það sem allir sáu með berum augum. Öll fögnuðu þau.

Ísland er ekki ævintýralandið. Hér er fólki reglulega útskúfað fyrir að benda á það sem öllum ætti að vera augljóst, eins og að ráðherra má ekki selja föður sínum hlut í banka. En kannski af því að það eru ekki börn sem eru að benda á það heldur annað fullorðið fólk, þá er allri þöggunarhandbókinni beitt af öllu afli til þess að lemja niður þá gagnrýni.

Nei, þetta er ekkert brot – stjórnvöld þurfa ekkert að búa til ný gögn. Upplýsingaskyldan er um eftirlitsstörf Alþingis. Alþingi getur ekki sagt Útlendingastofnun fyrir verkum. Alþingi er að ganga inn á verksvið framkvæmdavaldsins, ... allt augljóslega rangt.

Jú, stjórnvöld búa oft til ný gögn fyrir þingið. Það eru reglulega gerðar greiningar á hinum ýmsu álitamálum fyrir þingið. Auðvitað á upplýsingaskyldan einnig við um almenn störf þingsins. Að biðja um gögn er ekki að segja neinum fyrir verkum – það er einfaldlega lagaleg skylda að verða við upplýsingabeiðni.

Þegar svörin eru svona afgerandi afneitun á því að keisarinn er nakinn – hvað er þá hægt að gera? Leyfa keisaranum bara að krókna úr kulda í íslenskri veðráttu? Eða er þetta þurs sem þrífst í kuldanum?

Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is