Bjarney Linda Ingvarsdóttir fæddist á Akranesi 28. febrúar 1958. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut í Reykjavík 24. mars 2023.

Foreldrar hennar voru Ingvar Þorleifsson, f. 27.9. 1929, d. 4.12. 1987 og Kolbrún Jóhannesdóttir, f. 28.2. 1940, d. 28.9. 2018.

Systkini Bjarneyjar Lindu: Guðmundur Vignir Ingvarsson, f. 31.7. 1957. Samfeðra Ingi Már Ingvarsson, f. 29.9. 1969 og Þórey Sigríður Ingvarsdóttir, f. 26.10. 1970.

Eiginmaður Lindu, eins og hún vildi láta kalla sig, er Gissur Ísleifsson, f. 31.5. 1958. Foreldrar hans eru Ísleifur Gissurarson, f. 28.2. 1928, d. 3.4. 1993 og Sveina B. Karlsdóttir, f. 29.6. 1932, d. 30.1. 2007.

Börn Lindu og Gissurar eru: 1) Ísleifur, f. 17.4. 1980, kvæntur Ernu Karen Kristjánsdóttur, f. 6.2. 1981, börn þeirra eru: a) Gissur Máni, f. 20.10. 2001, b) Kara Sól, f. 28.5. 2005 og c) Ása Kristrún, f. 3.11. 2012. 2) Kolbrún, f. 2.12. 1985, 3) Hrafnkell Ingi, f. 4.4. 1991 og 4) Védís, f. 28.10. 1996.

Linda ólst upp hjá foreldrum sínum á Akranesi fram að skilnaði þeirra árið 1962. Þá fluttust þau til Reykjavíkur og voru systkinin til skiptis þar hjá móður sinni og hjá föður sínum á Akranesi.

Linda og Gissur tóku saman fimmtán ára gömul og giftust 29.6. 1986.

Tólf ára byrjaði hún að vinna með móður sinni á Hressingarskálanum við afgreiðslu og þjónustustörf. Eftir það vann hún á ýmsum veitingastöðum og prófaði m.a. að vinna á hóteli í Grikklandi. Þegar Kolbrún móðir hennar ákvað að fara í veitingarekstur þá fylgdi hún og bróðir hennar og tóku þau þátt í uppbyggingu fyrst á veitingahúsinu Torfunni og síðar á Lækjarbrekku sem Kolbrún rak til ársins 1992. Kolbrún fékk heilablóðfall fljótlega eftir að hún hætti með Lækjarbrekku og Linda stóð eins og klettur við hliðina á henni í þeirri baráttu þar til yfir lauk árið 2018.

Árið 1984 fluttu Linda og Gissur til Gautaborgar í Svíþjóð þar sem Gissur var í háskólanámi og voru þau þar til ársins 1987 þegar þau fluttu heim aftur. Eftir að Lækjarbrekkuárunum lauk fór hún að vinna fyrir Humarhúsið. Þegar hún fann að hún þyrfti að fara létta aðeins vinnu sínu þá fór í hún í skrifstofunám hjá MK og lauk því með sóma. Þá tók hún við skrifstofustjórastarfinu hjá Humarhúsinu og síðar hjá Hamborgarabúllu Tómasar.

Seinni part ársins 2018, stuttu eftir að móðir Lindu dó, greindist hún með brjóstakrabbamein og slóst við það þangað til yfir lauk.

Útför hennar verður í Grafavogskirkju í dag, 5. apríl 2023, klukkan 13.

Fallin er frá ein yndislegasta manneskja sem ég hef um ævina kynnst, Bjarney Linda Ingvarsdóttir. Minningarnar streyma fram. Þau voru komin á unglingsaldur systkinin Linda og Gummi þegar við Kolla móðir þeirra hófum sambúð og gengum í hjónaband. Þau voru þar með komin með ungan og óreyndan stjúpföður sem ekki var sjálfgefið að þeim hugnaðist. Mér til hugarhægðar tóku þau mér afar vel með hlýju viðmóti sem hefur haldist æ síðan.

Linda var glaðvær og skemmtileg, forkur dugleg og ábyrg í gjörðum. Hún átti góða vini sem hafa haldið vel saman í gegnum tíðina. Gissur var í þeim hópi og þau Linda ekki gömul þegar þau drógu sig saman. Fyrsta barn þeirra fæddist 1980 og Gissur orðinn hluti af fjölskyldu okkar. Sem aðstoðarmaður við húsbyggingu okkar Kollu í Fljótaseli var hann vel liðtækur og hann aðstoðaði einnig við uppbyggingu veitingahúsa okkar á Bernhöftstorfu. Hann gekk þar m.a. um beina eftir að rekstur hófst og Linda lærði þar framreiðslu. Meistari hennar var Ólafur Sveinsson. Hún var alla tíð eftirsótt í því starfi, enda mjög góður fagmaður.

Þegar Linda og Gissur voru í Svíþjóð, þar sem hann var við nám, skildi leiðir okkar Kollu. Það var erfitt að tilkynna þeim hvernig komið væri. Vinskapurinn rofnaði þó ekki og Linda hélt mér upplýstum um gang mála í fjölskyldunni. Börnin urðu fleiri og frá þeim streymir sama hlýja viðmótið og ég hef vanist frá foreldrum þeirra.

Straumhvörf urðu þegar móðir Lindu varð fyrir áfalli sem leiddi til málstols og lömunar. Henni var sinnt á stofnunum og af fjölskyldunni en það var með ólíkindum hvað Linda sinnti móður sinni vel. Hún var hennar helsta stoð í 26 ár. Það hefur áreiðanlega ekki alltaf verið auðvelt.

Þegar Linda greindist með krabbamein og hafði gengist undir aðgerð fylltist ég bjartsýni um að hún næði heilsu. Hún var dugleg í endurhæfingu og sótti sér stuðning í Ljósinu. Þegar ég sjálfur greindist með mein leiddi Linda mín mig í Ljósið þar sem ég hef náð mér eftir aðgerð og horfur góðar. Það voru því hörmuleg tíðindi þegar Linda greindist aftur og aftur og þessi skæði sjúkdómur lagði hana að velli.

Hugur okkar Ingibjargar er hjá fjölskyldu Lindu. Megi minning um góða eiginkonu, góða móður, ömmu og systur lýsa ykkur veginn um ókomna tíð.

Snorri Sigurjónsson.

Elsku amma, ég elska þig svo mikið og ég vildi að þú værir hér enn. Ég vona að þér líði betur núna, þú ert komin til mömmu þinnar. Það var gaman að lita, spila og gera alls konar með þér. Ég sakna þín svo mikið og þú varst besta amma í öllum alheiminum.

Þú varst góð fyrirmynd og þú ert það enn þó að þú sért farin, þú varst óeigingjarnasta manneskja sem ég þekkti. Þegar þú varst á spítala þá varstu ekki að hugsa um þig sjálfa heldur mig, þú varst að segja mér að ekki gráta og að þú færir á betri stað og það væri allt í lagi. Ég sakna þess að kyssa þig og knúsa, ég vildi svo mikið að þú værir hérna að kyssa mig og knúsa. Ég man þegar við fórum í Smáralindina og þó að þú værir þreytt og með krabbamein fórum við samt að kaupa eitthvað fyrir afmælið mitt og við höfðum rosalega gaman og ég elska þig rosalega mikið.

Kveðja,

Ása Kristrún.

Elsku amma mín. Þú hugsaðir svo vel um alla, þú gerðir allt fyrir mig. Ég man enn eftir því þegar þú komst og sóttir mig klukkan fjögur um nóttina heim til vinkonu minnar af því ég gat ekki sofnað. Ég gat alltaf talað við þig og þú skildir mig svo vel, þú varst með svör við öllu sem ég spurði og vissir alltaf hvað þú áttir að segja. Þú ert fyrirmyndin mín og sterkasta manneskja sem ég þekki. Þú hafðir alltaf trú á mér og varst alltaf svo stolt af mér, sama hvað ég gerði.

Lífið heldur áfram en það verður aldrei eins án þín elsku amma.

Sumar sálir eru bara of fallegar fyrir þennan heim og því þurfa þær að fara.

Ég á eftir að sakna þín að eilífu amma mín.

Þín

Kara Sól.

Mig langar að minnast Lindu vinkonu minnar í nokkrum orðum.

Við kynntumst árið 2006 þegar við settumst á skólabekk á skrifstofubraut Menntaskólans í Kópavogi, komnar á miðjan aldur og báðar tilbúnar að breyta um starfsvettvang í lífinu. Hún búin að starfa sem þjónn, fyrst hjá mömmu sinni á Lækjarbrekku og síðast á Humarhúsinu, hún var ein sú besta í faginu.

Við náðum strax vel saman, áttum afmæli á svipuðum tíma, deildum báðar afmælisdegi með mæðrum okkar, og mömmurnar okkar glímdu báðar við lömun af völdum veikinda.

Námið var krefjandi og þarna vorum við, miðaldra konurnar, að feta okkar fyrstu skref í tölvunotkun. Við vorum vel studdar af Kollu hennar, sem var óþreytandi að leiðbeina okkur. Mér er minnisstætt þegar við vorum að senda hvor annarri skjöl og Kolla sagði okkur að hengja skjölin bara í bréfaklemmuna og senda svo. Við áttum engar bréfaklemmur og skildum alls ekkert hvernig þetta ætti eiginlega að fara fram. Það var mikið hlegið að þessu þegar þetta loks hafðist hjá okkur.

Allt gekk þó vel og Linda rúllaði upp náminu. Það bættist í vinahópinn og Svanhvít og Dóra urðu hluti af teyminu okkar. Við vorum góður hópur sem vann vel saman og námið skilaði okkur svo út á vinnumarkaðinn eftir tveggja ára nám með aukna þekkingu og tækifæri.

Eins og námsmenn gjarnan gera fórum við í útskriftarferð til Kaupmannahafnar, Linda var okkar leiðsögumaður í veitingahúsaflórunni þar og margt var brallað. Bústaðaferð til Dóru var farin en hápunkturinn í skemmtanalífi hópsins okkar var þegar Linda varð fimmtug. Glæsileg veisla í Iðnó sem endaði með því, eftir að hafa komið við á fleiri stöðum í bænum, að þá skiluðum við vinkonurnar okkur heim undir morgun. Ég nefni þetta því engin okkar hefur hvorki fyrr né síðar verið svona lengi úti en stemningin sem Linda og hennar fjölskylda og vinir náðu að skapa var þannig að engan langaði að skemmtunin tæki enda.

Linda átti stóra og samheldna fjölskyldu og voru Gissur, börnin, tengdadóttir og barnabörnin henni allt. Þeirra missir er mikill.

Þegar Linda varð sextug gáfum við henni kertastjaka með fjórum kertum. Sögðum henni að þetta værum við fjórar. Nú er búið að slökkva á einu kertinu.

Við þökkum af alhug það ferðalag sem við áttum með Lindu og minnumst hennar með hlýhug og virðingu. Við vottum Gissuri, börnunum og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð.

Elín, Svanhvít og Dóra.