Málþing Góð mæting var í Þórsver á Þórshöfn á mánudag þegar efling byggðar á norðausturhorninu var rædd.
Málþing Góð mæting var í Þórsver á Þórshöfn á mánudag þegar efling byggðar á norðausturhorninu var rædd. — Ljósmynd/Hilma Steinarsdóttir
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Austurbrú boðuðu til málþings á Þórshöfn á mánudag undir merkjum Eflingar byggðar á norðausturhorninu – orka – náttúra – ferðaþjónusta. Alls mættu ríflega 60 manns á þingið auk þess sem margir fylgdust með í streymi og var gerður góður rómur að uppátækinu.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Austurbrú boðuðu til málþings á Þórshöfn á mánudag undir merkjum Eflingar byggðar á norðausturhorninu – orka – náttúra – ferðaþjónusta. Alls mættu ríflega 60 manns á þingið auk þess sem margir fylgdust með í streymi og var gerður góður rómur að uppátækinu.

Málþingið var þrískipt eftir málefnum: Norðausturhornið og hringrás ferðamanna um Austur- og Norðurland; Orkumál og atvinnuþróun; og Hagræn tengsl náttúruverndar og byggðaþróunar. Undir hverju málefni voru flutt 4-5 stutt erindi en í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður og spurningar úr sal bornar upp.

Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður var einn fundarmanna og greindi frá því á Facebook-síðu sinni að tíðinda virðist vera að vænta af orkumálum á svæðinu. „Það áhugaverðasta í samtalinu í dag kom fram í ræðum og svörum fulltrúa Landsnets og RARIK. Þar kom meðal annars fram að lagasetningin á sínum tíma, þegar stofnað var til Landsnets, kemur ekki alls staðar til móts við þarfir atvinnulífs og almennings. Þar kom einnig fram að það er nauðsynlegt að fara í skoðun á því að tengja Þórshöfn við flutningskerfi Landsnets og styrkja flutningsgetuna umtalsvert til Þórshafnar. Bæta samkeppnishæfni og tryggja að sveitarfélagið Langanesbyggð geti tekið þátt í orkuskiptunum og byggt upp framtíðaratvinnuvegi. Mikilvægt að Orkustofnun taki vel í hugmyndir Landsnets um hvernig eigi að standa að málum og horfa til orkuskiptanna og mögulegrar orkuvinnslu og framtíðaratvinnuvega í grænum iðnaði,“ segir þingmaðurinn.

Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti Langanesbyggðar, segir að ánægjulegt hafi verið að boðað sé að mál þróist til betri vegar í orkumálum landshlutans. Greint var frá því á fundinum að hjá Landsneti sé hafin forkönnun á nýjum afhendingarstað raforku í Langanesbyggð á 132 kV spennu. Slík framkvæmd, sem metin er á 5,3 milljarða króna, væri öflugt framlag til orkuskipta á svæðinu. Ekki væri síður mikilvægt að geta tvítengt bæði Langanesbyggð og Vopnafjörð við flutningskerfið en þar með myndi orkuöryggi á þessum svæðum aukast verulega.

„Við höfum verið í þeirri stöðu að þegar farið er að ræða uppsetningu hraðhleðslustöðvar fyrir bíla þá eru menn ekki vissir um að þeir geti afhent raforku til þess. Það þurfti ekkert stærra,“ segir Sigurður í samtali við Morgunblaðið.

Hann kveðst afar sáttur við málþingið og vonar að hægt verði að byggja á þeirri vinnu og samstarfi sem þar hafi farið fram. „Við höfum alltaf verið að kljást við það að búa á mörkum landshluta, það hefur alltaf verið lína á milli okkar og Austurlands þó stutt sé á milli staða. Það væri óskandi að okkur takist að vinna yfir þessi mörk eins og gert var á þessu málþingi. Flest þessi málefni eru ekkert einkamál okkar, þetta eru sömu viðfangsefni á Raufarhöfn, Vopnafirði og Kópaskeri.“

Gunnar Már Gunnarsson, verkefnastjóri hjá SSNE, tekur undir það að mikilvægt sé að byggðarlögin frá Kópaskeri til Vopnafjarðar komi saman. „Þau verkefni sem íbúar, fyrirtæki og sveitarfélög standa frammi fyrir eru svipuð og áskoranirnar þær sömu. Til dæmis má nefna að hin sérstaka norðurslóðanáttúra í kringum Langanes og Melrakkasléttu er verulega vannýtt og þar eru mörg tækifæri til nýsköpunar og uppbyggingar í ferðaþjónustu í sátt við umhverfið. Ferðaþjónustan kemur hins vegar ekki í staðinn fyrir aðra atvinnuvegi, þótt í henni felist mikilvægir vaxtarmöguleikar. Þegar við horfum til hefðbundinna framleiðslufyrirtækja á svæðinu þá hafa orkumálin verið í brennidepli upp á síðkastið og raunar um árabil. Stóra spurningin er auðvitað hvernig við tryggjum örugga og sjálfbæra orku í nægu magni inn á svæðið – og kannski var þeirri spurningu svarað í gær. Ef svo er, þá eru það stór tíðindi,“ segir Gunnar.