Hrafnhildur segir nýju tilbúnu réttina hafa fengið mjög góðar viðtökur.
Hrafnhildur segir nýju tilbúnu réttina hafa fengið mjög góðar viðtökur. — Morgunblaðið/Arnþór
Eldum rétt hefur einfaldað mörgum heimilum matarinnkaupin og matseldina. Hagar keyptu reksturinn á síðasta ári og var starfsemin útvíkkuð í kjölfarið með framleiðslu á tilbúnum réttum sem nýverið fóru í sölu hjá Hagkaupsverslununum

Eldum rétt hefur einfaldað mörgum heimilum matarinnkaupin og matseldina. Hagar keyptu reksturinn á síðasta ári og var starfsemin útvíkkuð í kjölfarið með framleiðslu á tilbúnum réttum sem nýverið fóru í sölu hjá Hagkaupsverslununum. Hrafnhildur Hermannsdóttir hefur fylgt félaginu frá stofnun og segir hún aðkomu Haga gefa félaginu færi á að blómstra enn frekar og enn hraðar.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Við höfum náð ótrúlega góðum árangri í sölu á matarpökkum Eldum rétt. En með Einstökum réttum í Hagkaupsverslunum erum við að feta stíg sem við höfum ekki fetað áður. Það er mikil áskorun að gera áætlanir í tengslum við tilbúna rétti og á fyrsta degi seldust m.a. upp nokkrir af réttunum. Eins og flestir vita sem eru að byrja með nýja vöru eða þjónustu verða alltaf einhverjir hnökrar og það tekur tíma að aðlagast.

Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?

ÍMARK-dagurinn var haldinn hátíðlegur nú fyrir stuttu. Þar voru mjög skemmtilegir og áhugaverðir fyrirlesarar, bæði innlendir og erlendir, og erindin fjölbreytt. Ég hefði þó viljað sjá fleiri konur en á mælandaskrá voru sex karlar og ein kona. Þar sem það er ekki skortur á áhugaverðum konum í faginu þá hef ég fulla trú á að hægt sé að gera betur í þessum efnum.

Hugsarðu vel um líkamann?

Já, ég huga vel að heilsunni. Ég legg stund á hlaup og um þessar mundir er ég að undirbúa mig fyrir Laugavegshlaupið sem er 55 km utanvegahlaup og fer fram í sumar. Þegar ég skráði mig hélt ég að ég myndi mögulega þurfa að fórna félagslífinu en komst svo fljótt að því að ég hef aldrei átt fleiri góðar samverustundir með vinum mínum.

Ég hef náð að flétta saman samveru með vinkonum mínum í hlaupinu og ég hef farið með þeim í nokkrar hlaupaferðir – það eru bestu ferðirnar. Svo er ég í frábærum hlaupahóp sem samanstendur af konum sem koma úr öllum áttum og félagsskapurinn þar er algjörlega ómetanlegur.
Ég reyni að setja í forgang þrennuna góðu: hreyfingu, svefn og mataræði – ef eitt klikkar, kemur það niður á hinum en ef allt er í góðu jafnvægi fæst líka góð líkamleg og ekki síst góð andleg heilsa.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ég er í algjöru draumastarfi eins og er. Ef ég hins vegar þyrfti að skipta um starfsvettvang færi ég eflaust aftur í hjúkrunarfræðina, jafnvel ljósmóðurfræði. Áður starfaði ég á meðgöngu- og sængurlegudeildinni á Landspítalanum og á heilsugæslunni í ungbarnaeftirliti og það er ofboðslega gefandi að fá að starfa með nýburum og fjölskyldum þeirra.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Mig langar alltaf að bæta við mig þekkingu tengdum markaðsmálunum svo meistaragráða í markaðsfræði yrði líklegast fyrir valinu ef ég færi aftur í fullt nám. Um þessar mundir afla ég mér þó þekkingar með því að sækja stök námskeið í gegnum netið sem ég næ að sinna meðfram vinnunni. Flestir háskólar eru farnir að bjóða upp á námsleiðir í gegnum netið þar sem hægt er að fara í gegnum námsefnið á eigin hraða með vinnu.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Viðskiptamódel Eldum rétt er einstakt að því leyti að við framleiðum eingöngu matarpakka eftir óskum viðskiptavina sem þurfa að leggja inn pöntun með minnst fimm daga fyrirvara. Með því móti höfum við náð að lágmarka alla sóun frá framleiðanda til neytanda. Viðskiptavinirnir fá ferskara hráefni, meiri fjölbreytni, minni matarsóun, minna kolefnisfótspor og flestir segjast spara með þessu fyrirkomulagi. Við erum í nánum tengslum við viðskiptavini okkar og þau hafa verið dugleg að bæði lofa okkur og láta okkur vita ef eitthvað mætti betur fara.

Gallarnir eru þeir sömu og forsenda kostanna. Með pöntunarfrestinum höfum við ekki náð að bregðast við þörfum viðskiptavina sem vilja fá vöruna strax í hendurnar. Margir gleyma pöntunarfrestinum og eiga erfitt með að skipuleggja sig svo langt fram í tímann. Þar komum við sterk inn með Einstaka rétti í Hagkaupsverslununum og nú er hægt að nálgast mat frá Eldum rétt allan sólarhringinn.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?

Ég myndi persónulega vilja lengra fæðingarorlof. Kerfið sem við búum við í dag virkar einfaldlega ekki, það sér það hver einstaklingur. Við þurfum að styðja betur við börnin okkar – við höfum alveg rými til þess í hagkerfinu okkar.

Ævi og störf

Nám: Stúdentspróf af tungumálabraut MK 2008; B.Sc. í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 2016; stunda frá 2022 fjarnám í stjórnun hjá Harvard Online.

Störf: Hjúkrunarfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2016 til 2017; markaðsfulltrúi Eldum rétt 2014 til 2018 og markaðsstjóri frá 2018.

Áhugamál: Fyrst og fremst náttúruhlaup, ferðalög, útivist og hreyfing. Þá er samvera með vinum og fjölskyldu náttúrlega ómetanleg.

Fjölskylduhagir: Í sambúð með Kristófer Júlíusi Leifssyni og eigum við saman þrjú börn; Áróru Aldísi, átta ára, Albert Inga, fimm ára, og Matthildi Söru, þriggja ára.