Fyrirliði Höskuldur Gunnlaugsson hefur bikarinn á loft eftir sigur Íslandsmeistara Breiðabliks gegn bikarmeisturum Víkings úr Reykjavík.
Fyrirliði Höskuldur Gunnlaugsson hefur bikarinn á loft eftir sigur Íslandsmeistara Breiðabliks gegn bikarmeisturum Víkings úr Reykjavík. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Íslandsmeistarar Breiðabliks höfðu betur gegn Víkingi úr Reykjavík í Meistarakeppni KSÍ í knattspyrnu á Kópavogsvelli í gær. Gísli Eyjólfsson kom Breiðabliki yfir strax á 14. mínútu með frábæru skoti eftir laglegan undirbúning Patriks Johannesen

Íslandsmeistarar Breiðabliks höfðu betur gegn Víkingi úr Reykjavík í Meistarakeppni KSÍ í knattspyrnu á Kópavogsvelli í gær.

Gísli Eyjólfsson kom Breiðabliki yfir strax á 14. mínútu með frábæru skoti eftir laglegan undirbúning Patriks Johannesen. Patrik tvöfaldaði svo forystu Blika með marki á 36. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf Viktors Karls Einarssonar.

Nikolaj Hansen minnkaði muninn fyrir Víkinga með marki úr vítaspyrnu á 77. mínútu eftir að Anton Ari Einarsson, markvörður Blika, hafði brotið á Danijel Djuric innan teigs. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði þriðja mark Blika úr vítaspyrnu á 81. mínútu eftir að Oliver Ekroth hafði brotið á Patrik Johannesen innan teigs. Hansen minnkaði svo muninn enn á ný fyrir Víkinga með fallegu skallamarki eftir sendingu Loga Tómassonar og lokatölur því 3:2 í Kópavoginum.

Breiðablik tekur á móti HK á Kópavogsvelli í 1. umferð Bestu deildarinnar hinn 10. apríl, á meðan Víkingar heimsækja Stjörnuna á Samsung-völlinn.