Þjálfari Jón Þórir Jónsson er sitt fimmta tímabil með lið Framara.
Þjálfari Jón Þórir Jónsson er sitt fimmta tímabil með lið Framara. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Framarar voru nýliðar í Bestu deildinni í fyrra. Það var nýtt hlutskipti fyrir þetta gamla stórveldi sem varð síðast Íslandsmeistari árið 1990, þá í átjánda sinn, en Fram hafði mátt sætta sig við að leika sjö löng ár í 1

Framarar voru nýliðar í Bestu deildinni í fyrra. Það var nýtt hlutskipti fyrir þetta gamla stórveldi sem varð síðast Íslandsmeistari árið 1990, þá í átjánda sinn, en Fram hafði mátt sætta sig við að leika sjö löng ár í 1. deildinni.

Eftir frekar slæma byrjun á tímabilinu náðu Framarar að lyfta sér upp fyrir mestu fallbaráttuna og héldu sér þar nokkuð örugglega. Níunda sætið varð niðurstaðan og engin fallhætta á lokasprettinum.

Jón Þórir Sveinsson, sem sjálfur varð þrisvar Íslandsmeistari með Fram á árunum 1986 til 1990, er að hefja sitt fimmta tímabil sem þjálfari Framara og breytingar hjá honum eru litlar frá síðasta tímabili. Hægri bakvörðurinn Alex Freyr Elísson fór í Breiðablik, vinstri bakvörðurinn Jesús Yendis fór heim til Venesúela og miðjumaðurinn Indriði Þorláksson fór til ÍA. Þá lagði miðjumaðurinn reyndi Almarr Ormarsson skóna á hilluna.

Aron Jóhannsson er kominn til Fram frá Grindavík þar sem hann hefur verið í stóru hlutverki á miðjunni. Orri Sigurjónsson kemur frá Þór en hann leikur ýmist sem varnarmaður eða varnartengiliður, og bakvörðurinn Adam Örn Arnarson er kominn frá Breiðabliki.

Framarar halda þeim fjórum erlendu leikmönnum sem voru í stórum hlutverkum, Fred Saraiva, Delphin Tshiembe, Tiago Fernandes og Jannik Pohl. Fred er nánast eins og uppalinn leikmaður en þetta er hans sjötta ár með liðinu.

Fram var ekki í vandræðum með að skora mörk í fyrra og Guðmundur Magnússon varð annar tveggja markahæstu leikmanna deildarinnar með 17 mörk. Jannik Pohl skoraði sex mörk á lokaspretti deildarinnar og gæti reynst þeim enn betur í ár. Sem nýliðar er ekki slæmt að skora 53 mörk í 27 leikjum og sóknarleikur þeirra bláklæddu var oft á tíðum stórskemmtilegur.

En varnarleikurinn var stóra vandamálið hjá Fram sem fékk á sig 63 mörk og skoruð voru fjögur mörk eða fleiri hjá liðinu í sex leikjum.

Breytingar á hópnum gefa ekki sérstaklega til kynna að það muni lagast en bent hefur verið á að innkoma Ragnars Sigurðssonar í þjálfarateymið geti haft góð áhrif á varnarleikinn. Hann þurfa þeir að bæta til að komast ofar í deildinni.

Framarar fluttu alfarið í Úlfarsárdal snemma á síðasta tímabili. Þeir eru loksins komnir með varanlegan heimavöll og nýtt og stórt hverfi í kringum sig. Félagið virðist eiga alla möguleika á að eflast á ný þar eftir erfiðan tíma síðustu árin í Safamýrinni.