Borinn sökum Donald Trump sést hér fyrir miðri mynd við borð sakbornings í réttarsalnum í dómshúsinu á Manhattan. Hann neitar allri sök.
Borinn sökum Donald Trump sést hér fyrir miðri mynd við borð sakbornings í réttarsalnum í dómshúsinu á Manhattan. Hann neitar allri sök. — AFP/Seth Wenig
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var í gær færður fyrir dómara á Manhattan, þar sem honum voru kynntar sakargiftir á hendur sér. Lýsti Trump yfir sakleysi sínu í öllum ákæruliðum, en þeir eru 34 talsins.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var í gær færður fyrir dómara á Manhattan, þar sem honum voru kynntar sakargiftir á hendur sér. Lýsti Trump yfir sakleysi sínu í öllum ákæruliðum, en þeir eru 34 talsins.

Trump er gefið að sök að hafa ítrekað falsað skjöl fyrir fyrirtæki sitt til þess að fela glæpsamlegt athæfi sitt í aðdraganda forsetakosninganna 2016.

Segir í atvikalýsingu saksóknara að Trump hafi í samsæri með öðrum reynt að hafa áhrif á kosningarnar með því að múta fólki sem hafði neikvæðar upplýsingar um hann fyrir þögn þess og auka þar með líkurnar á að hann næði kjöri. Þá hafi Trump einnig reynt að fela hinn sanna tilgang mútugreiðslna sinna, til þess að fegra þær fyrir skatti.

Voru meint brot framin á tímabilinu frá ágúst 2015 og fram til desember 2017, en ákæruliðirnir snúast flestir um greiðslur til Michaels Cohens, fyrrverandi lögmanns Trumps, á þessu tímabili, sem hafi átt að vera laun til Cohens fyrir að hafa haft milligöngu um greiðslu til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels skömmu fyrir kjördag í nóvember 2016. Voru greiðslurnar færðar til bókar sem greiðsla fyrir lögfræðistörf.

Segir ákærurnar sorglegar

Todd Blanche, einn af lögfræðingum Trumps, sagði eftir dómtöku málsins að ákæruskjalið væri „sorglegt“, þar sem ákæruliðirnir væru „afritaðir“, og að lögfræðiteymi Trumps myndi berjast gegn þeim af fullri hörku.

Dómari málsins, Juan Merchan, ákvað að sleppa Trump úr haldi án tryggingar, og sagði að réttarhöldin gætu mögulega hafist í janúar 2024. Þá setti Merchan engar kvaðir á Trump, en þeim möguleika hafði verið velt upp í gær að dómarinn myndi meina Trump að tjá sig opinberlega um málið, en forsetinn og fjölskylda hans hafa farið mikinn á samfélagsmiðlum síðustu daga.

Trump hélt aftur til Flórída-ríkis í gærkvöldi eftir að dómtökunni lauk, og hugðist hann flytja ræðu um ákærurnar við heimili sitt, Mar-a-Lago, skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma.