FH, Fram og ÍBV verða liðin þrjú sem þurfa að sætta sig við að leika í neðri hlutanum á lokaspretti Bestu deildar karla á komandi keppnistímabili í fótboltanum, en ættu hins vegar að vera nógu sterk til þess að forðast of mikil vandræði í botnbaráttu deildarinnar

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

FH, Fram og ÍBV verða liðin þrjú sem þurfa að sætta sig við að leika í neðri hlutanum á lokaspretti Bestu deildar karla á komandi keppnistímabili í fótboltanum, en ættu hins vegar að vera nógu sterk til þess að forðast of mikil vandræði í botnbaráttu deildarinnar.

Þetta er niðurstaðan í hinni árlegu spá Árvakurs um lokastöðu Bestu deildar karla þar sem 28 manns tóku þátt, starfsfólk Morgunblaðsins, mbl.is og K100 ásamt lausapennum og fréttariturum sem fjalla um leiki deildarinnar.

FH fékk 179 stig í spánni, Fram 140 og ÍBV 129 stig. Fyrir neðan þau urðu Keflavík með 90 stig, Fylkir með 75 og HK með 68 stig eins og fjallað var um í blaðinu í gær.

Á síðasta tímabili endaði FH í 10. sæti, Fram í 9. sæti og ÍBV í 8. sæti. Nú er spurning hvort eitthvert eitt þeirra getur komist í efri hlutann og miðað við spána eru FH-ingar líklegastir til þess en þeir voru mjög nálægt sjötta sætinu. Eyjamenn ættu samkvæmt því að eiga á hættu að dragast niður í fallbaráttuna.

Öll liðin spila sinn fyrsta leik í deildinni á mánudaginn kemur, 10. apríl. Tvö þeirra mætast, Fram og FH eigast við í Úlfarsárdal, en Eyjamenn leika gegn Val á Hlíðarenda.

Í annarri umferð helgina 15.-16. apríl verður FH á heimavelli gegn Stjörnunni og ÍBV á heimavelli gegn KA en Framarar sækja HK-inga heim.