Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gaf í skyn við kynningu á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að atvinnulífið skuldaði ríkissjóði peninga.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gaf í skyn við kynningu á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að atvinnulífið skuldaði ríkissjóði peninga. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fjármálaáætlun ríkisstjórnar­innar felur í sér skattahækk­un á fyrirtæki á næsta ári. Skatta­hækkunin er þó aðeins dropi í haf­ið sem mótvægi við óhófleg og sí­vaxandi ríkisútgjöld en er ætlað að vera táknræn, eins og formaður fjárlaganefndar komst að orði í útvarpsviðtali um helgina

Fjármálaáætlun ríkisstjórnar­innar felur í sér skattahækk­un á fyrirtæki á næsta ári. Skatta­hækkunin er þó aðeins dropi í haf­ið sem mótvægi við óhófleg og sí­vaxandi ríkisútgjöld en er ætlað að vera táknræn, eins og formaður fjárlaganefndar komst að orði í útvarpsviðtali um helgina.

Við kynningu á áætluninni, þegar rætt var um væntanlega skattahækkun, sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að ríkissjóður hefði staðið með atvinnulífinu í gegnum kórónuveiru-faraldurinn og nú væri komið að því að greiða til baka. Það voru skilaboðin sem atvinnulífið fékk frá ríkisstjórninni þá vikuna.

En hversu vel stóð með atvinnulífinu í gegnum faraldurinn? Rétt er að hafa í huga að fjármálaráðuneytið gaf nýlega út skýrslu þar sem ráðuneytið dæmdi eigin verk í faraldrinum. Ráðuneytið komst að þeirri óvæntu niðurstöðu að allar aðgerðir hins opinbera hefðu verið vel heppnaðar og þeim 450 milljörðum sem ríkið varði (eða eyddi) í mótvægisaðgerðir hefðu ýtt undir „kröftugan efnahagsbata“ eins og það er orðað. Verðbólgan er í dag um 10% og ríkissjóður verður rekinn með halla næstu árin, en látum það ekki skemma gleðina.

Í upphafi faraldursins sáu flest fyrirtæki þann eina kost að segja upp starfsfólki – með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð í formi atvinnuleysisbóta. (Reyndar eru fyrirtækin árum saman búin að greiða himinhátt tryggingagjald en ríkisvaldinu hefur tekist að eyða þeim peningum í önnur verkefni.) Ríkið lagði þá til hina svonefndu hlutabótaleið þar sem ríkissjóður greiddi laun starfsmanna að hluta til eða í heild. Rétt er að hafa í huga að það fjármagn rann til starfsmanna, ekki til fyrirtækja. Tína má til fleiri aðgerðir. Fyrirtæki fengu að fresta skattgreiðslum, en sá frestur er nú útrunninn. Virðisaukaskattur var að hluta til endurgreiddur vegna framkvæmda, en það fjármagn rann til þeirra sem keyptu þjónustuna, ekki fyrirtækja.

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að ríkisstjórnin, sem þá var skipuð sömu flokkum og nú, tók ákvarðanir sem settu rekstur fyrirtækja í uppnám hvað eftir annað á meðan faraldrinum stóð. Að koma nú, nokkrum árum seinna, og tala af yfirlæti til atvinnulífsins og benda á að atvinnulífið skuldi ríkinu fé er auðvitað fásinna. Mögulega þarf þó að sýna stöðu ríkisstjórnarinnar skilning. Há laun stöðugt fjölgandi ríkisstarfsmanna borga sig ekki sjálf.