Þjálfari Hermann Hreiðarsson tók við ÍBV fyrir síðasta tímabil.
Þjálfari Hermann Hreiðarsson tók við ÍBV fyrir síðasta tímabil. — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyjamenn voru nýliðar í Bestu deildinni í fyrra eftir að hafa eytt tveimur árum í 1. deild. Þeir unnu ekki leik fyrr en í 13. umferðinni um miðjan júlí og útlitið var því allt annað en gott en komu sér þá úr fallsæti á skömmum tíma

Eyjamenn voru nýliðar í Bestu deildinni í fyrra eftir að hafa eytt tveimur árum í 1. deild. Þeir unnu ekki leik fyrr en í 13. umferðinni um miðjan júlí og útlitið var því allt annað en gott en komu sér þá úr fallsæti á skömmum tíma. Á lokasprettinum vann ÍBV fjóra leiki af fimm og náði áttunda sætinu á nokkuð sannfærandi hátt.

Hermann Hreiðarsson er sitt annað ár með liðið og án nokkurs vafa er markmið hans og félagsins að komast í efri hlutann. Góð frammistaða í deildabikarnum veitir Eyjamönnum eflaust mikla trú á verkefnið en þar unnu þeir alla fjóra leikina í riðlakeppninni og féllu síðan út gegn KA í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum.

Ef deildabikarinn og lokasprettur síðasta Íslandsmóts eru lögð saman koma út átta sigrar í síðustu tíu leikjum og það er ekki slæmt veganesti fyrir nýtt tímabil.

Andri Rúnar Bjarnason, sem skoraði 10 mörk í deildinni í fyrra, fór til Vals í vetur. Miðjumaðurinn Telmo Castanheira fór til Malasíu, kantmaðurinn Atli Hrafn Andrason fór í HK, José Sito fór til Spánar, markvörðurinn Guðjón Orri Sigurjónsson er hættur, alla vega í bili, og ekki var samið aftur við miðjumanninn Kundai Benyu.

Filip Valencic, slóvenskur sóknartengiliður, er kominn til Eyja frá KuPS í Finnlandi og lofar góðu. Hollendingurinn Guy Smit ver markið sem lánsmaður frá Val og Sverrir Páll Hjaltested, sem einnig kemur frá Val, á að fylla skarð Andra Rúnars í framlínunni. Hermann Þór Ragnarsson skoraði 13 mörk fyrir þriðjudeildarmeistara Sindra á síðasta tímabili og fær nú tækifæri í efstu deild. Bjarki Björn Gunnarsson kemur sem lánsmaður frá Víkingi en eins og Sverrir Páll lék hann með Kórdrengjum í 1. deildinni í fyrra.

Eiður Aron Sigurbjörnsson er sem fyrr algjör lykilmaður í varnarleik Eyjamanna, enda einn af bestu miðvörðum deildarinnar.

Stærsta spurningin er hver tekur af skarið og skorar reglulega fyrir ÍBV en þrátt fyrir gott gengi í deildabikarnum skoraði enginn meira en tvö mörk í þeirri keppni.

Eyjamenn leika áfram á grasinu á Hásteinsvelli þótt áform hafi verið uppi um að skipta yfir á gervigras fyrir þetta tímabil. Frammistaða á heimavelli hefur oft skipt sköpum fyrir Eyjamenn og gerir það örugglega áfram.

Það var einmitt lykillinn að endurkomunni í fyrra því frá tapleik gegn Víkingi 15. júní voru þeir ósigrandi á Hásteinsvelli, unnu sex leiki þar og gerðu þrjú jafntefli.