Herdís Hauksdóttir fæddist í Reykjavík 23. desember 1945. Hún lést á Sóltúni 18. mars 2023.

Foreldrar hennar voru Herdís Jónsdóttir, f. 1926, d. 3. janúar 1946, og Haukur Kristjánsson, f. 1923, d. 1984. Hálfsystkin samfeðra: Anna, Sigríður, Kristján Þráinn, Sjöfn og Haukur.

Herdís ólst upp hjá móðurömmu sinni, Sólveigu Þórðardóttur, f. 1889, d. 1980.

Synir Herdísar eru Jón Hermann L. Ólafsson, f. 1963, og Scott A. Neeley, f. 1972, dætur hans eru Abigail, f. 2001, og Avery, f. 2005.

Herdís giftist Jóhanni Hjálmtýssyni, f. 1924, d. 1992, í júní 1992.

Herdís verður jarðsungin frá Fossvogskapellu í dag, 5. apríl 2023, klukkan 15.

Fyrir rúmri hálfri öld var umhverfið í Smáíbúðahverfinu með allt öðru móti en það er núna. Varla bíll á götunum, enda bílaeign ekki almenn á þessum tímum og gatan því leiksvæði okkar krakkanna. Þar lékum við okkur í stórfiskaleik, parís, fallin spýtan og slípuðum smápeninga sem var mikið sport. Flestar mæður voru heimavinnandi og því algengt að heyra hrópað úr öðru hverju húsi um hádegisbilið: Krakkar, komið þið heim, það er kominn hádegismatur!

En á öllum tímum dagsins heyrðist kallað úr glugganum í litla hvíta húsinu í Akurgerði, svo hljómaði um allt hverfið: Ellen - Ellibet, komdu!

Þarna var á ferðinni hún Herdís, barnfóstran mín og vinkona. Þá slepptum við stelpurnar sippuböndunum og hlupum af stað til hennar því þá var erindið oftar en ekki að fara með „sms“-skilaboð þess tíma á litlum minnismiða til vinkonu Herdísar sem átti heima í Heiðargerði, því öngvir voru símarnir. Þetta var alltaf jafn spennandi. Við hlupum af stað með skilaboðin og biðum á meðan vinkona hennar svaraði og færðum Herdísi. Umbunin fyrir þetta var alltaf ríkuleg. Við fórum í sjoppuna, keyptum kók, lakkrísrör, kókosbollur og Freyjukaramellur fyrir afganginn og okkur var boðið inn til að gæða okkur á veitingunum. Herdís hafði alltaf tíma fyrir okkur litlu stelpurnar sem litum upp til hennar, því hún var svo mikil skvísa og talaði við okkur sem jafninga. Ekkert jafnaðist þó á við að vera í heimsókn hjá henni þegar hún var að hafa sig til; setja rúllur í hárið og mála á sig eyeliner og lakka á sér neglurnar. Víkka út támjóu skóna, sem hún gerði með því að halda skónum smá stund undir rennandi vatni og smeygja sér svo í þá.

Hún var eins og kvikmyndastjarna í okkar augum. Við biðum í óþreyju eftir að verða stórar og jafn glæsilegar og hún.

Herdís eignaðist son sinn, Jón Hermann, ung að árum en flutti til Bandaríkjanna árið 1970 og eignaðist þar son sinn Scott með þáverandi eiginmanni sínum, John Neeley, árið 1972. Leiðir þeirra skildi árið 1980 og flytur Herdís þá heim og fer að vinna á Landspítalanum. Þar vann hún þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 2010.

Strákana sína elskaði hún takmarkalaust og passaði vel upp á allar myndir og minningar tengdar þeim og síðar dætrum Scotts þeirra.

Allt var sett í myndaalbúm og merkt vel, nánast eins og hún hefði lært skjalastjórnun. Enda eyddi hún mörgum stundum í að skoða myndirnar sínar og orna sér við góðar minningar. Hún átti frá unga aldri myndavél og tók mikið af myndum sem skrásetja líf hennar, sem var ansi viðburðaríkt.

Árið 1992 giftist hún Jóhanni Hjálmarssyni sem lést aðeins nokkrum mánuðum eftir að þau giftu sig og var það henni mikið áfall, en hún og fjölskylda hans héldu áfram góðu sambandi sem var henni dýrmætt.

Árið 2016 fékk Herdís heilablóðfall sem hafði mikil áhrif á hana þótt henni tækist vel að halda því leyndu fyrir okkur sem þekktum hana því minnið og frásagnargleðin var ekki frá henni tekin og hrein unun að hlusta á hana segja frá liðinni tíð. Hún sagði mér líka margar sögur af mér þegar ég var lítil og eru þær dýrmætar perlur í safni minninga minna um hana.

Í ágúst sl. kom í ljós að hún var komin með krabbamein. Allan tímann hélt hún í vonina um að komast aftur heim og sagðist þurfa að fá sér bíl - helst bleikan Cadillac - og nýja kápu og hatt. Ég treysti því að hún sé nú komin í flotta kápu og hatt í stíl og bruni um háloftin á bleikum Cadillac.

Blessuð sé minning þín mín kæra vinkona og takk fyrir liðna tíð og gengna götu.

Elísabet B. Þórisdóttir.

Mamma, elsku mamma,

man ég augun þín,

í þeim las ég alla

elskuna til mín.

Mamma, elsku mamma,

man ég þína hönd,

bar hún mig og benti

björt á dýrðarlönd.

Mamma, elsku mamma,

man ég brosið þitt;

gengu hlýir geislar

gegnum hjarta mitt.

Mamma, elsku mamma,

mér í huga skín,

bjarmi þinna bæna,

blessuð versin þín.

Mamma, elsku mamma,

man ég lengst og best,

hjartað blíða, heita –

hjarta, er sakna ég mest.

(Sumarliði Halldórsson)

Elsku fallega og góða mamma okkar. Það er sárt að kveðja þig, þú varst mér og okkur Scott ómetanleg mamma og við elskum þig af öllu hjarta og söknum þín meira en orð fá lýst. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur þegar við áttum heima í Ameríku og við fjölskyldan hjálpuðumst að þegar þú varst að vinna, þá passaði ég Scott en á móti studdir þú okkur bræðurna í einu og öllu. Samband okkar hefur alltaf verið mjög náið og þrátt fyrir að ég færi í herinn í fjögur ár í San Diego þá töluðum við reglulega saman.

Síðan lenti ég í alvarlegu slysi sem varð til þess að ég og þú fluttum aftur til Íslands þar sem beið mín mikil endurhæfing á Grensás og þá varst það þú, elsku besta mamma mín, sem stóðst með mér og hvattir mig áfram þegar ég var í dái. Síðan eftir dvölina á Grensás barðist þú fyrir því að ég fengi íbúð í Hátúni og endurhæfingu sem ég er í enn þann dag í dag þrátt fyrir að það séu fjöldamörg ár síðan slysið varð, en ég slasaðist illa.

Þú komst til mín á meðan þú varst heilsuhraust alla daga, bæði á Grensás og heim í Hátún, og við töluðum saman daglega í síma. Scott bróðir var áfram í Ameríku með konunni sinni og börnum en við vorum svo lánsöm að geta heimsótt hann saman tvisvar sinnum og síðan hefur Scott komið til okkar til Íslands.

Það er mikill missir fyrir okkur bræðurna að missa þig elsku mamma. Ég var svo glaður að geta haldið upp á 60 ára afmælið mitt inni á Sóltúni þar sem þú bjóst undir lokin og Ellen gerði daginn minn svo eftirminnilegan þar sem hún var búin að gera svo flottar veitingar og við nánasta fólkið þitt komum og fögnuðum saman, þá varst þú orðin svo veik að nokkrum dögum seinna kvaddir þú. En ég hélt í höndina þína allt til enda, þú varst okkur allt og okkar besti vinur.

Það er svo tómlegt án þín og svo erfitt að geta ekki tekið upp símann og hringt í þig en minning þín er er falleg og björt. Við bræður eigum góðar og dýrmætar minningar sem við munum ylja okkur við og síðan ógrynni af myndum og myndaalbúmum sem gott er að geta skoðað og rifjað upp góðar stundir.

Það verður erfitt að halda áfram án þín elsku mamma. Undanfarin ár hef ég alltaf komið til þín yfir páska og jól og gist hjá þér uppi í Þórufelli og við borðað páskaegg saman og góðan mat og við hlustuðum á Siggu Beinteins, sem var uppáhaldstónlistarkonan þín. Við Inga fórum á tónleika í Hörpu sem var svo skemmtilegt.

Guð blessi minningu þína elsku mamma. þakka þér fyrir allt það fallega og góða sem þú hefur fært okkur í lífinu. Hver minning sem dýrmæt perla.

Elskum þig að eilífu.

Þínir synir,

Jón Hermann Laufdal og Scott Neeley.