Samstarf Sveitarstjórar á höfuðborgarsvæðinu skrifa undir samkomulagið.
Samstarf Sveitarstjórar á höfuðborgarsvæðinu skrifa undir samkomulagið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins var formlega stofnuð í fyrradag með undirskrift stjórnenda allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúa ferðaþjónustunnar. Fór athöfnin fram í Salnum í Kópavogi að viðstöddum ráðherra ferðamála, Lilju Alfreðsdóttur, borgar- og bæjarfulltrúum og fleirum

Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins var formlega stofnuð í fyrradag með undirskrift stjórnenda allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúa ferðaþjónustunnar. Fór athöfnin fram í Salnum í Kópavogi að viðstöddum ráðherra ferðamála, Lilju Alfreðsdóttur, borgar- og bæjarfulltrúum og fleirum.

Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að undirbúningi stofnunar markaðsstofunnar með aðkomu sveitarfélaga á svæðinu, atvinnulífsins og stjórnvalda. Formlegir stofnaðilar eru Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins.

Með markaðsstofunni er komið á sameiginlegum vettvangi til að markaðssetja og þróa áfangastaðinn sem höfuðborgarsvæðið er fyrir ferðamenn, innlenda sem erlenda.

Mikilvægt skref

Í tilkynningu er haft eftir Regínu Ásvaldsdóttur, formanni stjórnar SSH og bæjarstjóra í Mosfellsbæ, að SSH hafi síðustu tvö ár unnið ötullega með ferðaþjónustunni að greina með hvaða hætti uppbyggingu og markaðssetningu ferðaþjónustu verði best háttað á höfuðborgarsvæðinu. Með stofnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins sé stigið mikilvægt skref í að tryggja samræmdar aðgerðir sem tengjast ferðaþjónustu á sviði markaðsmála og þróun áfangastaðarins. Með tilkomu stofunnar verði til öflugt samstarf sem muni efla samkeppnishæfni áfangastaðarins.

Geta haft bein áhrif

Þórir Garðarsson, formaður Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins, segir fyrirtækin í greininni lengi hafa kallað eftir því að stofnuð yrði markaðsstofa á þessu svæði. Nú geti fyrirtækin með beinum hætti haft áhrif á hvernig markaðssetning og þróun ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu muni verða á næstu árum.

„Er óhætt að segja að þetta sé eitt stærsta framfaraskrefið í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þórir í tlkynningu um samkomulagið.