Steinn Mikael Sveinsson fæddist á Tjörn á Skaga norður 3. október 1930. Hann andaðist á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík 15. mars 2023.

Foreldrar hans voru Sveinn Mikael Sveinsson, f. á Hrauni 29.9. 1890, d. 7.4. 1932, og kona hans Guðbjörg Rannveig Kristmundsdóttir, f. í Ketu 2.10. 1897, d. 18.6. 1967. Þau bjuggu í Kelduvík 1915- 1923 en fluttu þá að Tjörn á Skaga og bjuggu þar til æviloka.

Systkini Steins eru: María, f. 1916, d. 2011, Þorgeir Mikael, f. 1917, d. 2016, Guðbjörg, f. 1919, d. 2013, Sigrún Ingibjörg, f. 1920, d. 1976, Guðrún, f. 1923, d. 2015, Sigurlaug Ásgerður, f. 1924, d. 2021, Pétur Mikael, f. 1927, d. 2012, óskírður, f. 1929, d.s.á., Sveinn Guðberg, f. 1932.

Steinn kvæntist árið 1950 Pálínu Magnúsdóttur, f. 25.6. 1926, þau skildu. Sonur þeirra er Hörður, f. 15.8. 1951.

Steinn hóf sambúð um 1980 með Aðalfríði Dýrfinnu Pálsdóttur, f. 1933. Þau bjuggu saman til æviloka, fyrst á Laugarnesvegi, síðan Rauðalæk, Dalbraut og að lokum á hjúkrunarheimilinu Skjóli þar sem þau önduðust bæði 15. mars sl. Synir Aðalfríðar eru Páll, Gaukur og Stefán Eyjólfssynir.

Steinn Mikael ólst upp á Tjörn. Hann stundaði nám í Gagnfræðaskólanum á Sauðárkróki og Samvinnuskólanum, sem þá var í Reykjavík. Um 1950 fór Steinn á berklahælið Vífilsstaði til lækninga. Eftir að systkini Steins, Þorgeir og Guðbjörg, stofnuðu heimili í Reykjavík um 1960 bjó Steinn hjá þeim ásamt syni sínum, fyrst á Grandavegi 4 og síðar Meistaravöllum 15.

Steinn starfrækti ásamt fleirum fyrirtækið Hlaðprýði sem sá um ýmiss konar jarð- og lagnavinnu og malbikun. Um miðjan áttunda áratuginn hóf hann störf hjá Hitaveitu Reykjavíkur og lauk þar starfsævi sinni.

Útför Steins Mikaels og Aðalfríðar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 5. apríl 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Streymi: https://www.netkynning.is/adalfridur-og-steinn

Virkan hlekk má nálgast á www.mbl.is/andlat

Elsku afi.

Takk fyrir að hræra skyrið mitt með púðursykri.

Takk fyrir að hafa alltaf verið til í að spila.

Takk fyrir að sýna mér hvernig á að gróðursetja gulrætur.

Takk fyrir allar Kolaportsferðirnar.

En fyrst og fremst takk fyrir alla ástina, hlýjuna & tímann sem þú gafst mér.

Góða nótt og megi guð og góðu englarnir varðveita þig.

Þín alltaf,

Bryndís.

Steinn frændi okkar er látinn og til sömu tíðar lést kona hans Aðalfríður (Alla). Þau vildu fylgjast að til nýrra heimkynna. Móðurbróðir okkar hann Steini var fæddur á Tjörn á Skaga og var systkinahópurinn stór. Þau misstu föður sinn rúmlega fertugan og því var ærið verk fyrir móður þeirra, Guðbjörgu, að koma hópnum á legg, en það tókst giftusamlega. Elstu systkinin fóru snemma að hjálpa til við búskapinn og svo aldursröðin koll af kolli þegar þau elstu fóru að flytjast að heiman. Að lokum settust tveir af yngri bræðrunum að á Tjörn og bjuggu þar sinn starfsaldur. Steini fór hins vegar til náms á Sauðárkrók og lauk þar gagnfræðaprófi. Stóð hugur hans til frekara náms og byrjaði hann í Samvinnuskólanum en ekki vildi betur til en það að hann smitast af berklabakteríunni um það leyti og þurfti að leita sér lækninga. Dvaldi hann m.a. á Vífilsstöðum vegna þessa. Um svipað leyti kynntist hann fyrri konu sinni, Pálínu, og átti með henni soninn Hörð. Þeirra leiðir skildi síðar.

Þegar mikill tilflutningur fólks varð frá sveitum til bæja á Íslandi á síðustu öld fór eins fyrir systkinunum á Tjörn að þau hleyptu mörg heimdraganum á þessum árum. Þrjú þeirra settu saman heimili á Grandavegi í Reykjavík, þau Steini, Doddi og Bubba auk Harðar sonar Steina. Þá fyrst hófust að einhverju marki kynni okkar, undirritaðra systkina frá Dalvík, af þessu heiðursfólki. Þegar við þurftum að fara til Reykjavíkur einhverra erinda stóð hús þeirra alltaf opið fyrir okkur sem og öðru frændfólki þeirra. Og hið sama hélt áfram eftir að þau fluttu á Meistaravellina þar sem þau bjuggu lengi.

Steini tók okkur ævinlega vel, hann var vel lesinn og margfróður þannig að gaman var að ræða við hann um heima og geima. Aldrei lét hann ungmennin finna annað en þeirra sjónarmið væru jafn rétthá og eldra og þroskaðra fólksins. Húmor hans var þannig að hann laumaði lipurlega að manni einhverju hlálegu en var ekki með hávaða eða látalæti. Oft var tekist á um málefni líðandi stundar og stjórnmál á Meistaravöllunum, stundum með nokkurri ástríðu og lögðu þá allir eitthvað í belginn. En allir skildu sáttir.

Eftir að Steini tók saman við Öllu og flutti af Meistaravöllunum var það sama upp á teningnum að það var mjög ánægjulegt að heimsækja þau og ekki spillti fyrir að borð svignuðu ávallt af veitingum hjá Öllu. Þá fór Steini einnig að sinna nokkrum áhugamálum sínum, t.d. var hann drjúgur frímerkjasafnari og einnig spilaði hann bridge reglulega.

Við kveðjum því þennan ágæta móðurbróður okkar og konu hans Öllu með hlýju og kæru þakklæti í huga. Við sendum Herði okkar dýpstu samúðarkveðju sem og sonum Öllu og fjölskyldum þeirra.

Fyrir hönd systkinanna frá Lundi, Dalvík,

Þórólfur Antonsson.