Bíó Northern Comfort fékk rúmar 108 milljónir endurgreiddar í ár.
Bíó Northern Comfort fékk rúmar 108 milljónir endurgreiddar í ár. — Ljósmynd/Brynjar Snær Þrastarson
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Mikill meirihluti endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar fyrstu þrjá mánuði ársins var vegna innlendra verkefna. Alls hafa tæpar 820 milljónir króna verið greiddar út í ár og þar af fara um 350 milljónir til sex íslenskra kvikmynda.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Mikill meirihluti endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar fyrstu þrjá mánuði ársins var vegna innlendra verkefna. Alls hafa tæpar 820 milljónir króna verið greiddar út í ár og þar af fara um 350 milljónir til sex íslenskra kvikmynda.

Samkvæmt nýju yfirliti Kvikmyndamiðstöðvar Íslands fékk íslenska kvikmyndin Northern Comfort eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson hæstu endurgreiðsluna af kvikmyndaverkefnum, rúmar 108 milljónir. Þar á eftir kom kvikmyndin Abbababb með 73 milljónir, Sumarljós með 62 milljónir og Villibráð með 42 milljónir.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu á dögunum var met sett í endurgreiðslum vegna kostnaðar við kvikmyndaframleiðslu hér á landi í fyrra. Þá námu þær rétt tæpum 3,4 milljörðum króna og þar af námu endurgreiðslur vegna erlendra verkefna rétt tæpum tveimur milljörðum króna. Búast má við því að þetta met verði slegið aftur í ár sökum umfangs framleiðslu á fjórðu þáttaröð True Detective sem TrueNorth sér um hér. Fram til þessa hefur verið hægt að sækja endurgreiðslu á 25% þess kostnaðar sem fellur til við kvikmyndagerð hér á landi. Á síðasta ári var lögum um þetta breytt á þann veg að stór verkefni geta fengið 35% kostnaðar endurgreidd og verður umrædd þáttaröð sú fyrsta sem fellur undir þetta skilyrði. Gefið hefur verið út að framleiðslukostnaður verði minnst tíu milljarðar króna svo ljóst er að endurgreiðslur verða að minnsta kosti 3,5 milljarðar króna, standist það. Sú upphæð dugar ein og sér til að slá met yfir endurgreiðslur hér á landi á einu ári og eru þá önnur verkefni ótalin.

14 milljónir út af Skaupinu

Fleiri forvitnilegar tölur má finna í yfirliti Kvikmyndamiðstöðvar vegna endurgreiðslna í ár. Hæstu einstöku greiðsluna fá sjónvarpsþættirnir Halo sem teknir voru hér á landi í fyrra, 149 milljónir króna. Upphaflega stóð til að endurgreiðslur vegna gerðar þáttanna yrðu gerðar upp í lok síðasta árs en þeir voru færðir á þetta ár. Kvikmyndin Mysterious Monsters sem RVX Productions sá um framleiðslu á fékk 79 milljónir endurgreiddar og sjónvarpsþættirnir While You Were Breeding, sem Ólafur Darri Ólafsson lék í, fengu 82 milljónir.

Ýmsir íslenskir sjónvarpsþættir fengu endurgreiðslur, til að mynda hið umdeilda Áramótaskaup Sjónvarpsins en framleiðslufyrirtækið S800 fékk tæpar 14 milljónir króna vegna þess. Fjórða þáttaröð af Æði skilaði tæpum níu milljónum króna og Hringfarinn fékk tæpar 16 milljónir í endurgreiðslu vegna þáttaraðar um Evrópuferð sína. Önnur þáttaröðin af Baklandinu fékk níu milljónir og Kanarí fékk rúmar 14 milljónir. Þá fékk Sagafilm 38 milljónir króna vegna þáttanna Hvað getum við gert þar sem Sævar Helgi Bragason fjallaði um lausnir á loftslagsvandanum.