Þjálfari Heimir Guðjónsson stýrði FH áður á árunum 2008-2017.
Þjálfari Heimir Guðjónsson stýrði FH áður á árunum 2008-2017. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekkert lið olli jafnmiklum vonbrigðum á síðasta ári og FH. Hafnfirðingarnir, sem hafa átt mikilli velgengni að fagna á þessari öld, áttu sitt versta tímabil í tæplega þrjá áratugi, eða síðan þeir féllu síðast árið 1995, og sæti þeirra í deildinni hékk á bláþræði fram í síðustu umferð

Ekkert lið olli jafnmiklum vonbrigðum á síðasta ári og FH. Hafnfirðingarnir, sem hafa átt mikilli velgengni að fagna á þessari öld, áttu sitt versta tímabil í tæplega þrjá áratugi, eða síðan þeir féllu síðast árið 1995, og sæti þeirra í deildinni hékk á bláþræði fram í síðustu umferð. Að lokum sluppu þeir á betri markatölu en Skagamenn.

Þetta sáu fáir fyrir en almennt hafði verið reiknað með FH-ingum á „sínum stað“ í efri hluta deildarinnar.

Nú er spurningin hvort FH takist að rétta úr kútnum á ný og komast í efri hlutann sem hlýtur að vera fyrsta markmiðið. Heimir Guðjónsson er kominn aftur í Kaplakrika eftir fimm ára fjarveru en hann er langsigursælasti þjálfarinn í sögu félagsins og vann fimm Íslandsmeistaratitla með liðinu á árunum 2008 til 2016.

En verður það nóg? Þegar litið er á leikmannahópinn er hann nokkuð svipaður og í fyrra og að mestu leyti hefur komið maður fyrir mann. Fjórir reyndir leikmenn eru horfnir á braut. Matthías Vilhjálmsson fór í Víking, Kristinn Freyr Sigurðsson í Val, Guðmundur Kristjánsson í Stjörnuna og Gunnar Nielsen markvörður er hættur, í það minnsta hjá FH. Þá fór Baldur Logi Guðlaugsson í Stjörnuna og markvörðurinn Atli Freyr Guðmundsson, sem spilaði talsvert í fyrra, fór í 4. deildarliðið KFK.

Hefur FH fyllt nægilega vel í skörðin? Heimir þarf að móta nýja hryggjarsúlu í liðinu eftir að hafa séð á bak lykilmönnum úr marki, vörn, miðju og sókn. Finnski miðvörðurinn Dani Hatakka og markvörðurinn Sindri Kristinn Ólafsson komu frá Keflavík. Hinn þrautreyndi Kjartan Henry Finnbogason kom frá KR og finnski kantmaðurinn Eetu Mömmö er í láni frá Lecce á Ítalíu.

Þá fengu FH-ingar Kjartan Kára Halldórsson lánaðan frá Haugesund en hann skoraði 17 mörk fyrir Gróttu í 1. deildinni í fyrra og varð markakóngur deildarinnar. Varnartengiliðurinn Gyrðir Hrafn Guðbrandsson er kominn frá Leikni í Reykjavík.

Meðalaldurinn hjá FH hefur lækkað með þessum breytingum þó Kjartan Henry haldi honum vissulega uppi.

FH átti köflótta leiki á undirbúningstímabilinu. Vann stórsigur á Breiðabliki á vetrarmóti en steinlá fyrir ÍBV í lokaleiknum í deildabikarnum. Það er frekar erfitt að meta stöðu FH-inga en eftir slæmt tímabil í fyrra þurfa þeir á góðri byrjun að halda á þessu Íslandsmóti.