Ísólfur Gylfi Pálmason sendi mér línu: „Ég hef ánægju af því að hjóla og hjóla gjarnan um höfuðborgarsvæðið þegar ég er í borginni. Á dögunum hjólaði ég fram hjá bragganum fræga í Nauthólsvíkinni og þá rifjaðist upp limra eftir Hermann frá Kleifum

Ísólfur Gylfi Pálmason sendi mér línu: „Ég hef ánægju af því að hjóla og hjóla gjarnan um höfuðborgarsvæðið þegar ég er í borginni. Á dögunum hjólaði ég fram hjá bragganum fræga í Nauthólsvíkinni og þá rifjaðist upp limra eftir Hermann frá Kleifum.

Í vindinum puntstráin vaggast

svo varlega að tæpast þau haggast.

Þá hlýlega strax

Ég hugsa til Dags.

Er hann ekki farinn að braggast?

Hafðu það alltaf sem best.“

Á Boðnarmiði yrkir Magnús Geir Guðmundsson „Vorvísutetur. - (Er á meðan er....):

Eykst nú bæði þrek og þor

Og þróttur svo og dýpka spor.

Nú komið loksins virðist vor,

Vænt og þýtt um bæ og skor.“

Karl Benediktsson segir frá því, að um daginn hafi hann fengið flugu í höfuðið (í eyrað reyndar) og þá varð þetta til:

Flugur – þær eru alls staðar,

ýmsar ljómandi fallegar.

Röndótt vespa með mitti mjótt,

maífluga lifnar, en deyr svo skjótt.

Feita ég maðkaflugu sá,

flug hennar kröftugt til að sjá.

Hrossafluga með langa löpp

lá í makindum þar á klöpp.

Flugur hvarvetna finna má,

í fjalldölum jafnt og út við sjá.

Ýmsir drepa þær æ og sí.

Ekki stendur hann ég í því!

Ég er ágætur inn við bein,

aldrei geri ég flugu mein.

Eitt sinn ég lamdi mitt eyra þó,

inni þar suðaði moskító.

„Vaxtastjóri“ heitir þessi limra eftir Guðmund Arnfinnsson:

Hér segir af Sveini Dúfu,

hann sólskinið bar í húfu

allan daginn

inn í bæinn,

enda með lausa skrúfu.

Þórður á Strjúgi Magnússon kvað:

Þó slípist hestur og slitni gjörð

slettunum ekki kvíddu

hugsaðu hvorki um himin né jörð

haltu þér fast og ríddu.

Sigurbjörn á Fótaskinni Jóhannsson:

Stutt með bak og breitt að sjá,

brúnir svakalegar,

augu vakin, eyru smá

einatt hrakin til og frá.gamlan hest:
Þú hefur borið Moldi mig
í mörgu ferða bramli.
Enn þá skríð ég upp á þig
auminginn minn gamli.
Gömul vísa:
Rauður bera manninn má,
mun hann vera þungur,
eins og þytur er að sjá
yfir hrun og klungur.
Jóhann frá Flögu segir svo frá: „Þegar mölflugur, öðru nafni gestaflugur, sáust fljúga, var það talið boða gestakomu“:
Flugan gesta flýgur hér
falleg alla vega.
Því að fresta ekki er,
einhver sest í kvöld hjá mér.
Xx
Gestaflugan er hér enn
aftur á bak að fljúga.
Ekki koma margir menn;
mun hún þessu ljúga.
Jón Hinriksson kvað:
Allt var slétt þá Rauður rann:
ruggaði toppur síður,
gatan rauk og gneistinn brann
- gangurinn var svo tíður.
Gömul vísa:
Heims af kvölum hef ég nóg,
harma bítur ljárinn.
Margt eitt bölið bætir þó
blessaður rauði klárinn.
Halldór Blöndal