Jenný Aðalsteinsdóttir fæddist í Neskaupstað 10. júní 1941. Hún lést 27. mars 2023 á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Foreldrar Jennýjar voru Björg Ólöf Helgadóttir, f. á Mel 4. mars 1915, d. 5. október 2003 og Einar Aðalsteinn Jónsson, f. á Kleifarstekk í Breiðdal 15. febrúar 1914, hann fórst 20. desember 1974 í snjóflóði í Neskaupstað.

Systkini Jennýjar eru Helga Soffía, f. 28. febrúar 1939, Guðný, tvíburasystir Jennýjar, f. 10. júní 1941, Jón Hlífar, f. 13. nóvember 1943, Steinunn Lilja, f. 15. júní 1945, og Kristján, f. 13. júlí 1954.
Eftirlifandi eiginmaður Jennýjar er Þorsteinn Torfason, f. 3. maí 1941. Þau giftust í Útskálakirkju 24. desember 1963. Börnin eru þrjú: 1) Kristín Björg Konráðsdóttir (faðir Konráð Auðunsson), f. 10. nóvember 1961, gift Sigfúsi Ólafssyni, þau eiga tvö börn og tvö barnabörn. 2) Þorsteinn Einar Þorsteinsson, f. 24. ágúst 1963, giftur Auði Eyberg Helgadóttur, þau eiga fjögur börn og tvö barnabörn. 3) Svanur Þorsteinsson, f. 18. maí 1966, hann er giftur Lilju Guðrúnu Kjartansdóttur, þau eiga þrjú börn og þrjú barnabörn.
Að loknum gagnfræðaskóla vann Jenný ýmis verkakvennastörf, m.a. annars í eldhúsinu á Sjúkrahúsinu í Neskaupstað sem þá var nýlega tekið til starfa. Jenný gekk í Húsmæðraskólann á Laugalandi. Árið 1962 fluttist hún í Garðinn með Kristínu Björgu og vann þar ýmis fiskvinnslustörf. Þar kynntist hún núlifandi manni sínum, Þorsteini Torfasyni. Síðar fór hún að vinna á Garðvangi, heimili aldraða í Garðinum, við umönnun í 21 ár þar sem hún lauk sinni starfsævi. Eftir það vann hún sjálfboðavinnu við að hjálpa vistmönnum á Garðvangi að gera sig fína.

Útförin fer fram í Útskálakirkju í dag, 5. apríl, klukkan 13. Sjónvarpað verður frá athöfninni í Miðgarði, sal Gerðaskóla.

Athöfninni verður streymt á:

https://streyma.is/streymi/

Elsku Jenný, það er þyngra en tárum taki að skrifa minningargrein um þig elsku frænka mín.


Jenný fæddist og ólst upp í Neskaupstað og þær voru tvær stúlkurnar sem komu í heiminn í júnímánuði 1941, þann 10. Hin var Guðný tvíburasystir hennar, þær voru mjög líkar og þegar þær voru krakkar þekkti ég þær aldrei í sundur enda sá ég þær ekki oft þar sem þær ólust upp í Neskaupstað en ég í Garðinum, en við vorum systradætur.

Systkinin urðu sex og ólust upp á Mel í Neskaupstað með foreldrum sínum þeim Boggu og Steina, Björgu Helgadóttur og Aðalsteini Jónssyni.

Þau systkinin hafa alla tíð verið mjög samrýnd og hittust reglulega á hverju ári sem mér fannst aðdáunarvert. Þær systur komu stundum saman í svona kvennaferð og var mér boðið að koma með einu sinni og var þá hittingur á Akureyri ásamt mágkonum þeirra systra. Þetta var yndisleg helgi sem við áttum saman og vil ég þakka það af alhug. Einhverju sinni lá leið systra út fyrir landsteinana.

Jenný kynntist manni sínum Steina, Þorsteini Torfasyni, þegar hún kom að vinna úti í Garði og dvaldi hjá foreldrum mínum í nokkra mánuði.

Eftir að Jenný kemur í Garðinn förum við að kynnast betur, við erum með börn á svipuðum aldri, sem leika sér mikið saman og samgangurinn verður meiri, áhugamálin börnin og uppeldi þeirra. Við berum okkur saman um að prjóna og sauma á krakkana og okkur sjálfar, enda bjuggum við við sömu götuna í Garðinum, Skólabrautina.

Jenný var afskaplega myndarleg húsmóðir, prjónaði, saumaði allt á sig og börnin og féll aldrei verk úr hendi, því hún vann líka utan heimilisins, fyrst í fiski en svo mörg ár á Garðvangi, eða þar til hún hætti störfum vegna aldurs.

Einhvern tímann á árunum svona 1965-1966 komum við saman sjö ungar konur og förum að hittast svona einu sinni í mánuði í saumaklúbb og héldum því í mörg ár. Á þessum tíma erum við að koma okkur upp fjölskyldu og fjölskyldurnar okkar stækka og stækka eins og gerist hjá ungu fólki og okkur vantaði nafn á klúbbinn okkar og það var fljótlegt að finna það; Kúluklúbburinn skyldi hann heita, já alltaf einhver okkar ófrísk. Okkur fannst þetta bara fínt nafn og lýsa okkur svolítið, við stuðluðum að því að fjölga jú mannkyninu.

Við gerðum okkur nú stundum dagamun og buðum körlunum okkar á flottustu hótelin eins og Hótel Sögu og Loftleiðir og með þríréttuðum dinner, já þetta fannst okkur flott í þá daga. Margt skemmtilegt gerðist í þessum ferðum sem ekki verður tíundað hér en við höfum oft rifjað upp og hlegið mikið að. Þetta voru yndislegir tímar.

Á einhverjum tímapunkti hættum við svo með klúbbinn okkar og tók það nokkur ár, en okkur lánaðist svo að byrja að hittast aftur og nutum þess og höfum reynt að hittast svona 2-3 á ári til skiptis hver hjá annarri, og höfum farið stundum saman út að borða eða í leikhús. Þetta eru dýrmætar stundir.

Ein klúbbsystir okkar lést 2012 og er Jenný mín númer tvö að yfirgefa þessa jarðvist og við hinar fimm sem eftir erum syrgjum þær báðar stöllur.

Það hefur sennilega verið árið 2016 eða 2017 sem ég spurði Jenný hvort þau Steini vildu koma með okkur Óla til Kanarí og það stóð ekki á svari; þau voru til, og síðan fórum við á hverju ári í fjórar vikur og bar aldrei skugga á þessa samfylgd.

Árið 2020 var svolítið skrýtið, þá kom Covid sem hrelldi alla heimsbyggðina og þá vorum við einmitt úti og áttum eftir svona í kringum tíu daga af okkar dvöl þegar bara allir urðu að fara heim til sín og engin undankoma með það enda lokaðist allt, þetta var mjög óþægilegt, en við komumst heil heim og urðum að fara í hálfsmánaðar sóttkví heima hjá okkur.

Árið 2021 komumst við ekkert út en fórum svo saman 2022 eða fyrir rétt rúmu ári. Það var yndislegt að vera með Jenný og Steina, þægilegir ferðafélagar, gott að vera með einhverjum til að fara út að borða og í ferðir eða sitja bara saman og spjalla eða bara spila kana, og við Jenný tókum í prjóna því alltaf var hún að gera handavinnu og er búin að gera ótal handverk handa sínum barnabörnum og langömmubörnum. Í þessari ferð okkar 2022 fann ég að hún var ekki alveg eins og hún átti að sér og þegar heim kom eftir þessa ferð leitaði hún til læknis og þá fær hún fljótlega greiningu um þann sjúkdóm sem hún barðist við sl. ár þar til núna í mars, krabbamein.

Elsku Jenný mín, mikið söknuðum við Óli ykkar Steina núna þegar við vorum úti á Kanarí.

En lífið er undarlegt ferðalag, við vitum sem betur fer aldrei hvað bíður okkar hinum megin við hornið, því er það svo mikils vert, meðan við getum, að leika og njóta, og staldra líka við og hugsa til þeirra sem hafa gengið með okkur lífið og hugsa um allar góðu minningarnar og ylja sér við þær. Þótt það geti verið sárt þá er líka gleði og bros við að hugsa um hvað við náðum vel saman.

Elsku Steini, þinn missir er mikill, megi allar góðu minningarnar um hana Jenný okkar ylja þér um hjartarætur og gefa þér styrk í þinni sorg. Elsku Bugga, Steini yngri og Svanur, tengdadætur og barnabörnin öll smá og stór, megi minningin um móður ykkar gefa ykkur styrk.

Kúluklúbburinn og makar þakka Jenný allar góðar stundir í gegnum árin, við yljum okkur við minningarnar á meðan við getum.

Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hvíl í friði, elsku frænka mín, guð þig blessi.

Soffía G. Ólafsdóttir.