Jenný Aðalsteinsdóttir fæddist 10. júní 1941. Hún lést 27. mars 2023.
Útförin fór fram 5. apríl 2023.
Elsku amma. Þá er komið að síðustu kveðjustundinni, miklu fyrr en ég átti von á. Ég get þó huggað mig við það að þú ert líklegast eitthvað að bardúsa með ömmu Boggu og einhvern tímann í framtíðinni hittumst við aftur. Ef þú færð einhverju að ráða þá er ansi langt í það. Við höfum alltaf verið mjög nánar enda hef ég eytt ansi miklum tíma hjá þér og afa á Skólabrautinni, sértaklega þegar ég bjó hjá ykkur á sumrin á þegar ég vann í fiskinum. Ég fór með þér í gegnum veikindin fyrir 20 árum. Það styrkti okkar samband enn þá meira og ég hef sjaldan upplifað eins mikla jákvæðni hjá neinum eins og þér. Þú varst alltaf svo jákvæð og varst ekki að eyða tímanum í óþarfa. Það hef ég tekið með mér út í lífið. Alltaf að reyna að finna það jákvæða i því neikvæða og reyna að breyta því neikvæða í eitthvað jákvætt. Þú kenndir mér líka fleira en bara þetta. Þú kenndir mér að prjóna og hekla, sem við svo eyddum tíma í að gera saman. Það var heldur ekkert sjálfsagðara enda varstu alltaf með handavinnuna á lofti. Ef mig vantaði lopapeysu, vettlinga eða eitthvað annað prjónað eða heklað þá varst þú meira en til í að redda því. Þú vildir bara vita hvaða liti ég vildi. Þú varst samt ekki sátt þegar ég sagði svart enda varstu líka ansi litaglöð. Ég er þó farin að skilja betur þessa litagleði i dag. Ekki nóg með að þú prjónaðir og heklaðir handa okkur barnabörnunum og langömmubörnunum þá prjónaðir þú og heklaðir líka fyrir makana okkar og vini. Þú prjónaðir meira að segja lopapeysu fyrir vin minn í Ástralíu. Þótt þú elskaðir handavinnuna varstu líka alltaf til í að koma með mér í göngutúr eða sund þar sem við spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Svo má ekki gleyma öllum stundunum sem við höfum eytt í pottinum uppi í bústað með bjór í hendi eða Matheus-rósavín í alls konar veðri. Eftir að ég flutti til Danmerkur hittumst við ekki eins oft en vorum yfirleitt duglegar að hringja og spjalla saman þannig að þú vissir alltaf hvað var að gerast hjá okkur og ég vissi hvað var að gerast hjá ykkur. Ég er ótrúlega þakklát fyrir allan þann tíma sem við fengum saman og allar þær minningar sem ég á með þér og enginn getur tekið frá mér. Ég elska þig og sakna þín.
Ég elska þig amma,
þú ert mér svo kær.
Til tunglsins og til baka,
ást mín til þín nær.
Sögur þú segir,
og sannleikann í senn.
Þú gáfuð og góð ert,
en það vita flestir menn.
Ég elska þig amma,
þú færir mér svo margt.
það er ætíð hægt að sanna,
að um þig sé ljós bjart.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Þín
Björg Ólöf.
Elsku systir. Það er svolítið skrýtið að fara að skrifa minningargrein um systkini sitt en þú ert sú fyrsta af okkur sex systkinunum sem kveður þessa jarðvist. Ég er yngst af okkur systrunum og slapp sennilega oftast við heimilisverkin. Í uppvextinum voruð þið Guðný alltaf sem ein í mínum huga. Eftir að þú fluttir í Garðinn voru þó nokkrar ferðarnar þangað um helgar meðan ég var í Kennaraskólanum.
Þú varst alveg sérstaklega myndarleg í höndunum eins og sagt var og að hinum systrunum ólöstuðum barst þú af okkur. Það var sama hvort um var að ræða saumaskap, prjónaskap eða hvers kyns föndur. Þú saumaðir ekki bara á börnin þín þegar þau voru yngri heldur líka á ykkur hjónin. Þú varst alltaf með eitthvað á prjónunum og prjónaðir gjarnan fyrir vinkonur þínar föt á barnabörn þeirra. Það var alltaf spennandi að sjá hvað þú varst að sýsla eftir að þú byrjaðir í Auðarstofu.
Eftir að við systur vorum hættar að vinna hittumst við á hverju ári í nokkra daga í sumarbústað, oftast á Akureyri. Þar var auðvitað setið við handavinnu milli þess að fara í göngutúra, heitan pott eða í bæinn. Við fórum eina ferð saman til Kaupmannahafnar og vorum búnar að skipuleggja aðra ferð þegar krabbinn heimsótti þig aftur eftir 20 ár. Þín verður sárt saknað, þú varst alltaf með eitthvað spennandi á prjónunum.
Við systkinin höfum verið dugleg að hittast einu sinni á ári undanfarin 10-12 ár og oftast var það í bústaðnum ykkar í Borgarfirðinum og áttum við þar skemmtilegan tíma saman. Síðasti hittingurinn var í október þegar þú varst á milli lyfjagjafa og hittumst við þá í Garðinum.
Við Diddi þökkum þann tíma sem við höfum átt með ykkur, bæði í bústaðnum og ekki síður þau kvöld sem við höfum átt saman áður en við fórum í flug til útlanda. Steini alltaf tilbúinn að skutla okkur í flug og geyma bílinn. Það var svolítið skrýtið að koma á Skólabrautina um daginn og svo upp á spítala að kveðja þig.
Steini, Bugga, Steini, Svanur og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur vegna fráfalls elsku Jennýjar.
Steinunn Lilja
Aðalsteinsdóttir.
Elsku Jenný, það er þyngra en tárum taki að skrifa minningargrein um þig, elsku frænka mín.
Jenný fæddist og ólst upp á Neskaupstað og þær voru tvær, stúlkurnar sem komu í heiminn í júnímánuði 1941, þann 10. Hin var Guðný, tvíburasystir hennar. Þær voru mjög líkar og þegar þær voru krakkar þá þekkti ég þær aldrei í sundur enda sá ég þær ekki oft þar sem þær ólust upp í Neskaupstað en ég í Garðinum, en við vorum systradætur.
Systkinin urðu sex og ólust upp á Mel í Neskaupstað með foreldrum sínum, þeim Boggu og Steina, Björgu Helgadóttur og Aðalsteini Jónssyni.
Þau systkin voru mjög samrýmd og hittust oft.
Jenný kynntist manni sínum Steina, Þorsteini Torfasyni, þegar hún kom að vinna úti í Garði og dvaldi hjá foreldrum mínum í nokkra mánuði.
Eftir að Jenný kom í Garðinn þá fórum við að kynnast betur. Við vorum með börn á svipuðum aldri, sem léku sér mikið saman og samgangurinn varð meiri, áhugamálin börnin og uppeldi þeirra. Við bárum okkur saman um að prjóna og sauma á krakkana og okkur sjálfar, enda bjuggum við við sömu götuna í Garðinum, Skólabrautina.
Jenný var afskaplega myndarleg húsmóðir, prjónaði, saumaði allt á sig og börnin og henni féll aldrei verk úr hendi, því hún vann líka utan heimilisins. Fyrst í fiski en vann svo mörg ár á Garðvangi, eða þar til hún hætti störfum vegna aldurs.
Einhvern tímann á árunum svona 1965-1966 þá komum við saman, sjö ungar konur, og förum að hittast svona einu sinni í mánuði í „saumaklúbb“ og héldum því í mörg ár. Á þessum tíma vorum við að koma okkur upp fjölskyldu og fjölskyldurnar okkar stækkuðu og stækkuðu eins og gerist hjá ungu fólki. Okkur vantaði nafn á klúbbinn okkar og það var fljótlegt að finna það. „Kúluklúbburinn“ skyldi hann heita, já alltaf einhverjar okkar ófrískar. Okkur fannst þetta bara fínt nafn og lýsa okkur svolítið, við stuðluðum jú að því að fjölga mannkyninu.
Við gerðum okkur nú stundum dagamun og buðum „köllunum“ okkar á flottustu hótelin eins og Hótel Sögu og Loftleiðir og með þríréttuðum dinner, já þetta fannst okkur flott í þá daga. Margt skemmtilegt gerðist í þessum ferðum sem ekki verður tíundað hér en við höfum oft rifjað upp og hlegið mikið að. Þetta voru yndislegir tímar.
Ég og Óli, Jenný og Steini ferðuðumst til Kanarí saman frá árinu 2017. Við áttum tíu daga eftir af ferðinni okkar þegar Covid skall á, öllu var skellt í lás og við send heim. Árið 2021 komumst við ekkert út en fórum svo saman 2022 eða fyrir rétt rúmu ári. Það var yndislegt að vera með Jennýju og Steina. Þau voru þægilegir ferðafélagar, sem gott var að vera með.
En lífið er undarlegt ferðalag. Við vitum sem betur fer aldrei hvað bíður okkar hinum megin við hornið. Því er það svo mikils vert að meðan við getum, að leika og njóta, og staldra líka við og hugsa til þeirra sem hafa gengið með okkur lífsveginn og hugsa um allar góðu minningarnar og ylja sér við þær. Þó það geti verið sárt þá er líka gleði og bros við að hugsa um hvað við náðum vel saman.
Elsku Steini, þinn missir er mikill, megi allar góðu minningarnar um hana Jennýju okkar ylja þér og þínum afkomendum um hjartarætur og gefa ykkur styrk í ykkar sorg. Minning um góða konu lifir áfram.
Kúluklúbburinn og makar, þakka Jennýju allar góðar stundir í gegnum árin, við yljum okkur við minningarnar á meðan við getum.
Hvíl í friði, elsku frænka mín, guð þig blessi.
Meira á www.mbl.is/andlat
Soffía G. Ólafsdóttir.