Bjarney Linda Ingvarsdóttir fæddist 28. febrúar 1958. Hún lést 24. mars 2023.

Útför hennar var gerð 5. apríl 2023.

Full af sorg kveð ég elsku Lindu mína allt of fljótt, eina af mínum bestu vinkonum sem var alltaf til staðar ef á þurfti að halda fyrir mig og mína. Ef halda átti veislu var Linda mætt til að fara yfir og laga það sem þurfti enda fagmaður fram í fingurgóma.

Linda hafði góðan húmor, hún grét úr hlátri og fékk alla með. Linda elskaði börnin sín og barnabörn. Hún ljómaði þegar hún talaði um fólkið sitt, stolt og hreykin mamma og amma.

Vináttusamband okkar Lindu hefur staðið yfir í rúmlega fimmtíu ár. Við fermdust saman og þroskuðumst saman frá unglingsárum. Fyrsta utanlandsferðin saman, 16 ára gamlar, er sérstaklega minnisstæð. Fyrir ferðina og fullar af bjartsýni saumuðum við okkur baðsloppa og bikini sem við svo notuðum ekki en man ekki hvers vegna. Þess í stað keyptum við ný gul bikini, alveg eins. Linda og Gissur voru farin að slá sér saman þá. Linda með kross um hálsinn sem Gissur átti, þau voru jú par. Eftir að ég kynntist Nonna vorum við orðin fjögur. Þá var farið saman í veiði og utanlandsferðir. Svo komu börnin, Linda og Gissur fluttu til Gautaborgar og við heimsóttum þau þangað, fórum í tónleikaferðir og bústaðaferðir til Danmerkur. Ferðir með saumaklúbbnum til útlanda og í bústað og alltaf var gaman hjá okkur. Það er til fullur banki minninga sem veita gleði og þakklæti. Ég á eftir að sakna kaffibollanna og spjallsins, við Linda gátum talað endalaust saman.

Elsku Gissur, Ísleifur, Kolla, Hrafnkell, Védís, Erna, Gissur, Kara og Ása, sorgin er sár og söknuðurinn mikill.

Með þakklæti og kærleika,

Guðbjörg (Gugga),
Jóno (Nonni),
Hrefna og Orri.

Nú er hún elsku hjartans Linda okkar fallin frá, svo miklu fyrr en við ætluðum.

Lengst af okkar ævi höfum við gengið saman með þér og Gissuri, það hefur verið gæfa okkar. Við eigum svo margar ógleymanlegar minningar af samveru með ykkur, þær ylja okkur núna á þessum erfiðu tímum.

Hugmyndin var alltaf að við færum öll saman eitthvað í sólina þegar þú fengir einhvern bata. Mikið hlökkuðum við til að fara enn eina ferðina með ykkur Gissuri. Það varð ekki og nú ert þú komin í sumarlandið, á undan okkur.

Farðu í friði, elsku Linda, við hittumst aftur hinumegin.

Margrét N. og Karl
(Magga og Kalli).

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Skondnar sögur, brandarar, bros og dillandi hlátur.

Þannig munum við elsku Lindu okkar en vináttan spannar yfir fimmtíu ár.

Eins og siður var á þeim tíma þá þótti sjálfsagt ef tvær eða fleiri konur komu saman að stofna saumaklúbb sem við gerðum á unglingsárunum.

Á þeim tíma vissum við ekki að við værum að leggja drög að ævilangri vináttu.

Klúbbinn nefndum við því frumlega nafni Sjö samansaumaðar.

Í gegnum árin höfum við ferðast saman bæði innanlands og utan og farið í ófáar bústaðaferðirnar sem styrkti vináttu okkar enn frekar. Það var sama hvar við vorum staddar, saumaklúbbur, bústaður eða hótel, þá var þjónustulundin og framreiðslugenið svo ríkjandi í Lindu okkar að hún var ávallt staðin upp til að ganga frá eftir borðhald og ekkert þýddi að banna henni það.

Hún var mjög stolt af fjölskyldunni sinni og mikill vinur barnanna sinna og barnabarna.

Linda nýtti sér þjónustu Ljóssins og fann sig þar í leirmunagerð sem gerði mikið fyrir hana.

Gráttu ekki

yfir góðum

liðnum tíma.

Njóttu þess heldur

að ylja þér við minningarnar,

gleðjast yfir þeim

og þakka fyrir þær

með tár í augum,

en hlýju í hjarta

og bros á vör.

Því brosið

færir birtu bjarta,

og minningarnar

geyma fegurð og yl

þakklætis í hjarta.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Við kveðjum trygga og trausta vinkonu með miklum söknuði.

Elsku Linda þú verður alltaf í huga okkar og hjarta.

Sendum fjölskyldu Lindu innilegar samúðarkveðjur.

Saumaklúbburinn,

Guðbjörg (Gugga), Hrefna, Kristín, María (Mæja), Guðný (Ninný) og Sigrún.