Magnús Halldórsson yrkir á Boðnarmiði: Svo magnað var Maríu skap, að myndaðist ósættis gap. Hann var að bauka, með hamfletta gauka. Því Tómas oft tittlinga drap. Ingólfur Ómar Ármannsson yrkir: Þó að Bakkus vinni völd varla slær í brýnu

Magnús Halldórsson yrkir á Boðnarmiði:

Svo magnað var Maríu skap,

að myndaðist ósættis gap.

Hann var að bauka,

með hamfletta gauka.

Því Tómas oft tittlinga drap.

Ingólfur Ómar Ármannsson yrkir:

Þó að Bakkus vinni völd

varla slær í brýnu.

Sæll með gleði sigldu í kvöld

sálarfleyi þínu.

Philip Vogler Egilsstöðum bætti við:

Ég sigli ljúft um lygnan sjó

lögur minn er enginn.

Sé í kulda karl sem dó

þó klukka margt sé gengin.

Broddi B. Bjarnason lýsir Seyðisfirði í dag:.

Feykna mikil fantatök

flóðsins eru núna kunnar.

Hér má líta ragnarök,

reginkraftur náttúrunnar.

Páll Jónasson í Hlíð yrkir:

Óli í kjallaranum

Jónína litla er jólafrík,

Jónína ferðast á hjólatík.

Það er kannski lítið

en samt soldið skrítið

hvað Nína er andskoti Óla lík.

Dúett

Tenórinn Benjamín bassi

hélt konsert með Katrínu skassi,

hún sýpur sitt malt,

hún er sópran og alt,

og flautar með fallegum rassi.

Mér þykir alltaf gaman að rifja upp hestavísur enda var Jarpur í Sandvík mér sérstaklega kær. Og því rifjast upp þessi staka eftir Eggert Ólafsson:

Jarpur skeiðar fljótur, frár,

fimur – reiðarljónið –

snarpur leiðar grjótur, gjár

– glymur breiða frónið.

Og þessa stöku eftir séra Matthías fer ég oft með:

Verður ertu víst að fá

vísu gamli Jarpur.

Aldrei hefur fallið frá

frækilegri garpur.

Þessi húsgangur er eftir Sigurð Eiríksson:

Lyngs um bing á grænni grund

glingra og syng við stútinn

þvinga slyngan hófahund

hringinn í kringum Strútinn.

Margrét Rögnvaldsdóttir kvað:

Þú hefur borið, Þröstur, mig

þúsund glaðar stundir

– kossi heitum kyssi ég þig

kofaveggnum undir.