Bækur
Einar Falur Ingólfsson
En tilfellið með ímyndunaraflið er að ef maður hugsar nógu oft og lengi um eitthvað verður það í fyrstu smám saman mögulegt, síðan jafnvel líklegt, og að lokum óhjákvæmilegt,“ (133) segir undir lok þessarar hrífandi skáldsögu, þar sem því er lýst hvar þýðandinn sem bókin fjallar um situr í grafreit og hjá honum kviknar hugmynd um að flytja til Parísar, hann situr þar undir tré „en er á ferð og flugi í huganum“. Og lesandinn veltir því fyrir sér hvort líf mannsins sem sagt hefur verið frá, og tilvera hans með eiginkonunum tveimur, hafi verið mögulegt, líklegt eða hreinlega raunverulegt.
Grafreiturinn í Barnes er fyrsta saga Gabriels Josipovicis sem þýdd er á íslensku. Höfundurinn fæddist í Frakklandi árið 1940, gekk í barnaskóla í Egyptalandi en nam svo ensku í Bretlandi þar sem hann hefur verið búsettur síðan og kenndi lengi við háskóla. Josipovici hefur verið mikilvirkur höfundur, sent frá sér tvo tugi skáldsagna, tvö sagnasöfn og á annan tug annarra bók, til að mynda fræðirit og ævisögu móður sinnar, þýðandans og skáldkonunnar Söchu Rabinovits. Þetta er hans næst nýjasta skáldsaga, kom út 2018.
Grafreiturinn í Barnes fjallar um þýðanda skáldsagna og gerist á þremur sögusviðum. Fyrst segir af lífi hans í London með fyrri eiginkonunni sem er hljóðfæraleikari. Eftir að hún virðist láta lífið af slysförum hrindir hann fyrrnefndri hugmynd í framkvæmd og flytur
til Parísar, þar sem hann lifir í einsemd afar öguðu lífi, þýðir skáldsögur sem honum finnst lítið til koma, stundar gönguferðir og nýtur þess að hlýða á óperur eftir Monteverdi. Að lokum hittir lesandinn þýðandann fyrir í Wales þar sem hann býr með seinni eiginkonu sinni og eins og allt annar maður, félagslyndur og málglaður, og rifjar upp það sem á dagana hefur drifið.
Þar sem hann lifir einn sínu reglufasta og agaða lífi í París, á því sem kalla má miðjusvið frásagnarinnar, segist þýðandinn hafa fundið „vissa tegund af sálarfriði“ og á ráfi sínu um borgina hugsaði hann stundum: „Við lifum í skógi drauma okkar og langana.“ (97) Hann leitar í listina eftir lífsfyllingu og staðfestu, les ljóð eftir Shakespeare en einkum eru ljóð eftir du Bellay honum mikilvæg með harmleik sínum og harmtölum, þau sækja á huga hans og veita huggun, eins og hann segir. Og svo eru fyrrnefnd verk Monteverdis honum sífellt nærri og undir nálinni, ekki síst óperan Orfeifur, þar sem hin vansæla Evridís hverfur í skugga dauðans, eins og eiginkonan unga, sem þýðandinn hafði elt og njósnað um, svo lesandinn fyllist smám saman grunsemdum um samband þeirra og trúverðugleika frásagnar þýðandans af sambandinu, og tengslum hans við veruleikann. „Hann grúfði andlitið alltaf ofan í bók, sagði konan hans – seinni konan. Hann átti erfitt með að lyfta höfði til að horfast í augu við veröldina.“ (103)
Frásögnin er í þriðju persónu en sjónum alltaf beint að þýðandanum og sýn hans á og hugmyndum um tilveruna. Frásögnin er knöpp, ljóðræn og endurtekningum markvisst beitt með afar snjöllum hætti, þar sem óræður óhugnaður byggist upp og óvissa um hvort hægt sé að trúa manninum þegar hann rifjar upp það sem hefur gerst. Lesandinn fyllist grunsemdum og myndin af raunverulegum atburðum skýrist smám saman, án þess að of mikið sé sagt.
Það er mikið fagnaðarefni að fá eftir langt hlé nýja þýðingu á skáldsögu eftir Gyrði Elíasson, einn okkar allra snjallasta þýðanda. Á síðasta áratug komu út eftir hann rómaðar ljóðaþýðingar og fékk hann árið 2011 og 2014 Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir ljóðasöfn. Átta ár eru liðin síðan þýðing Gyrðis á skáldsögu kom síðast út en Grafreiturinn í Barnes mun vera 17. lausamálsverkið sem hann þýðir, samhliða því að senda frá sér á nær fjórum áratugum um fjörutíu ljóðabækur, skáldsögur og sagnasöfn. Gyrðir hefur ætíð valið sér sjálfur sögur að þýða, sögur sem oft hafa kallast á einhvern hátt á við höfundarverk hans sjálfs, sögur höfunda sem oft hafa staðið utan alfaraleiðar bókmenntaheimsins en hafa alltaf verið áhugaverð viðbót við íslenskar samtímabókmenntir, til að mynda eftir Richard Brautigan, William Saroyan, Ota Pavel og Velmu Wallis. Og þýðing Gyrðis á þessari seiðmögnuðu sögu Josipovicis er dásamleg, málfarið fallegt og ljóðrænt, eins og vænta mátti, og þjónar markvisst uppbyggðri og vel skrifaðri frásögninni fullkomlega.