Hafist var handa við að aflífa sauðfé frá bænum Bergsstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu í vikunni en þar var riða staðfest á mánudag. „Við höfum staðið í miklum undirbúningi og ég var að fá fréttir af því að ferlið væri farið af stað,“ segir …

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Hafist var handa við að aflífa sauðfé frá bænum Bergsstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu í vikunni en þar var riða staðfest á mánudag. „Við höfum staðið í miklum undirbúningi og ég var að fá fréttir af því að ferlið væri farið af stað,“ segir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun.

„Þetta verður gert í áföngum. Féð er flutt frá bænum og aflífað í sláturhúsi en fer ekki inn í sláturhúsið sjálft eða þar sem matvæli eru nálægt. Sauðfjárslátrun er hvort sem er ekki í gangi á þessum árstíma. Undirbúningsvinnan gekk mjög vel en öll keðjan þarf að ganga upp. Safna þarf saman mannskap, fá bíla í flutning á fé, finna gáma til flutnings, opna sláturhús og græja upp,“ segir Sigurborg en féð er flutt í gámum og fer til brennslu hjá Kölku. „Þetta hefur gengið vel og aðgerðir eru að hefjast.“

Umfangið er mjög mikið þar sem sýni er tekið úr hverri einustu kind og í þessu tilfelli þarf því að taka tæplega 700 sýni. „Sýni er tekið úr heila og ná þarf sýni úr mænukylfu. Vegna mikils fjölda dýra þarf að áfangaskipta þessari vinnu eins og gefur að skilja.“

Nýtt smitvarnarhólf

Aldrei fyrr hefur greinst riða á þessu landsvæði að sögn Sigurborgar.

„Þetta er alvarlegt og kemur upp í nýju smitvarnarhólfi sem heitir Miðfjarðarhólf. Á þessu landsvæði hefur aldrei fyrr greinst hefðbundin riða. Handan við ásinn frá þessum bæ hefur verið viðvarandi riða á nokkrum bæjum í Línakradal. Þar á milli er varnargirðing sem lögð hefur verið áhersla á að halda fjárheldri en sú girðing nær frá Miðfjarðarbotni og upp í Langjökul til að verjast því að fé fari þar á milli. Auðvitað hefur maður óttast að smit gæti borist yfir en það hefur sloppið hingað til. Þessi bær er góður sauðfjárræktarbær og aðrir bændur hafa sóst eftir því að fá kynbótahrúta frá þessum bæ. Þá er maður hræddur um að smit hafi borist með þeim,“ segir Sigurborg en meðgöngutími riðu er langur.

„Algengasti meðgöngutími þessa sjúkdóms er eitt og hálft til tvö ár, frá því að smitefni berst í dýrið og þar til klínísk einkenni koma fram. Getur verið styttri eða lengri, eða allt upp í fimm ár.“

Í blaðinu í gær lýsti Þuríður Guðmundsdóttir, formaður upprekstrarfélags Þverárafréttar í Borgarfirði, áhyggjum sínum af því að ekki stæði til að setja fjármagn í að halda við varnargirðingum á milli Húnvetninga og Borgfirðinga. Sigurborg yfirdýralæknir segir ljóst að endurskoða þurfi áætlun ársins 2023 um viðhald varnargirðinga á þessu svæði og verði það gert í samráði við ráðuneytið.

„Matvælaráðuneytið úthlutar fjárveitingum til MAST sem hefur yfirsýn yfir varnargirðingar á landinu. Stofnunin ráðstafar því fé í framkvæmdir við girðingavinnu. Forgangur er, og hefur ætíð verið, settur á að girða tryggilega af riðusvæði. Það svæði sem nú er til umræðu hefur ekki verið talið meðal þeirra fyrr en nú,“ segir í skriflegu svari frá ráðuneytinu við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Ljóst er að um áfall er að ræða fyrir sauðfjárbændur á Bergsstöðum í margvíslegu tilliti. Hvað varðar fjárhagslegu hliðina þá geta bændur sem fyrir þessu verða fengið bætur úr ríkissjóði.

Tekið mið af síðasta framtali

Þegar riða hefur verið staðfest af yfirdýralækni er tekin ákvörðun um að lóga og skal þá gera skriflegan samning um allt er lýtur að lógun sauðfjárins, tímabundið fjárleysi á viðkomandi jörð og greiðslu bóta. Í samningum milli ráðuneytis og bænda sem þurfa að skera niður eru einnig ákvæði um að opinberar greiðslur haldi sér á fjárleysistímanum. Bætur greiðast þannig úr ríkissjóði og bætur fyrir fullorðið fé vegna niðurskurðar skulu fara eftir fjártölu í síðasta skattframtali, samkvæmt upplýsingum frá Bændasamtökunum.

Höf.: Kristján Jónsson