Tinna Hallgrímsdóttir, fráfarandi forseti Ungra umhverfissinna.
Tinna Hallgrímsdóttir, fráfarandi forseti Ungra umhverfissinna.
Greint var frá því í síðustu viku að Tinna Hallgrímsdóttir, fráfarandi formaður Ungra umhverfissinna, hefði verið ráðin til Seðlabanka Íslands (SÍ) í starf loftslags- og sjálfbærnisérfræðings. Samkvæmt upplýsingum frá SÍ er umrætt starf hluti af…

Greint var frá því í síðustu viku að Tinna Hallgrímsdóttir, fráfarandi formaður Ungra umhverfissinna, hefði verið ráðin til Seðlabanka Íslands (SÍ) í starf loftslags- og sjálfbærnisérfræðings.

Samkvæmt upplýsingum frá SÍ er umrætt starf hluti af vinnu Seðlabankans í sjálfbærni- og loftslagsmálum sem snertir öll ábyrgðarsvið bankans og rekstur hans. Tinna er ráðin tímabundið til eins árs og eru launin 950.000 krónur á mánuði.

Sjálfbærni Seðlabankans

Sjálfbærni- og loftslagsmál snerta flest öll starfssvið Seðlabankans, segir í svarinu og hóf bankinn vinnu við innleiðingu sjálfbærnistefnu árið 2020.

Stór þáttur í sjálfbærnivinnu bankans tengist loftslagsbreytingum og þeim auknu kröfum sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja. Þá segir í svarinu að með tilkomu nýs regluverks sé jafnframt þörf á að móta stefnu og verklag um hvernig eftirliti verði háttað með umhverfis- og samfélagslegum kröfum á eftirlitsskyld fjármálafyrirtæki.

Tímabundin staða

Tinna var ekki ráðin til starfsins á grundvelli auglýsingar þar sem um tímabundið starf er að ræða. Segir í svari SÍ við fyrirspurn Morgunblaðsins að verkefnum tengdum sjálfbærni á skrifstofu bankastjóra hafi verið sinnt af öðrum starfsmanni sem sinnir tímabundið öðrum verkefnum, þess vegna var ákveðið að ráða Tinnu tímabundið með það að markmiði að halda áfram að ná heildstætt utan um sjálfbærnivinnu bankans. blo@mbl.is