Vinnusemi þarf að borga sig

Bretar glíma eins og fleiri vestrænar þjóðir við verðbólgu og efnahagsóróa, en það er ekki einsdæmi í sögunni og það má leita leiðsagnar um hvernig slíkur vandi hefur áður verið leystur. Þeir þurfa ekki að leita lengi, því það var nákvæmlega það sem fjármálaráðherrann Nigel Lawson gerði fyrir 40 árum, en hann lést í vikunni, 91 árs gamall. Fleiri gætu farið að fordæmi hans í embætti.

Þekktastur er Lawson sjálfsagt fyrir skattalækkanir sínar, en hann afnam skatta og einfaldaði skattkerfið í hverjum einustu fjárlögum sínum. Hann lækkaði efsta tekjuskattsþrepið úr 60% í 40% og færði skatta á fyrirtæki úr 52% í 35%.

Þetta gerði hann fullviss um það að ef frjálst framtak yrði losað úr viðjum regluverks og frumkvöðlar héldu meiru af ávöxtum erfiðis síns, þá myndu tekjur ríkissjóðs síst minnka og þjóðfélagið njóta aukinnar hagsældar. Það gekk eftir.

Ekki munaði minna um bjartsýnina sem þetta vakti. Þjóðin sá og fann að vinnusemi borgaði sig, framtakið bar ávöxt; að lægri skattar skildu ekki aðeins meira eftir í vösum skattgreiðenda, heldur mætti endurnýta þá fjármuni til frekari vaxtar.

Mestu skipti þó það að venjulegt fólk fékk tækifæri til þess að vinna sig upp í lífinu, bera meira úr býtum fyrir eigin dugnað og það lét ekki á sér standa.

Þetta var arfleifð Nigels Lawsons, að koma ríkisfjármálum í lag með hyggni og hörku, en lækka skatta til þess að virkja dugnað og áræði bæði fólks og fyrirtækja. Þetta lærðu Bretar þá og það væri þeim og fleirum hollt að rifja upp nú.

Þar eru Íslendingar ekki undanskildir. Hér þarf að laga ríkisfjármálin og styrkja stoðir efnahagslífsins; koma á varanlegum friði á vinnumarkaði og auka samkeppnishæfni, draga úr ríkisumsvifum, lækka skatta og laða til landsins fjármagn. Virkja þann kraft og framtak, sem býr með þjóðinni sjálfri, henni til hagsældar til frambúðar.