Uppbygging Fyrirhuguð tengibygging er hér fyrir framan gömlu flugstöðina en suðurbyggingin er í forgrunni.
Uppbygging Fyrirhuguð tengibygging er hér fyrir framan gömlu flugstöðina en suðurbyggingin er í forgrunni. — Teikning/Isavia
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Keflavíkurflugvöllur á eftir að taka stakkaskiptum á næstu árum en verja á tugum milljarða í uppbygginguna.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Keflavíkurflugvöllur á eftir að taka stakkaskiptum á næstu árum en verja á tugum milljarða í uppbygginguna.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, segir mikið framkvæmdaár fram undan.

„Við erum að fara inn í stærsta framkvæmdaár í sögu félagsins og það verður mikið í gangi á flugvellinum í sumar. Við fórum í gegnum strembinn vetur. Við vorum að uppfæra farangurskerfið og farþegar hafa orðið varir við það í innritun.

Gerbreyttur flugvöllur

Svo erum við að fara inn í þetta stóra sumar og miklar framkvæmdir. Við stefnum að því að vera komin með austurálmuna í fulla notkun í lok árs 2024 en hún er rúmlega 20 þúsund fermetrar. Þar verða móttökusvæði fyrir ferðatöskur með fjórum nýjum böndum við komuna til landsins og stærri fríhöfn. Þá verður búið að uppfæra, skipta út eða breyta nánast öllu á veitinga- og verslunarsvæðinu. Sumir rekstrar­aðilar verða áfram og aðrir nýir koma inn. Þannig að í lok árs 2024 erum við að að horfa á gerbreyttan flugvöll,“ segir Guðmundur Daði um þessi áform.

Isavia áætlar að 7,8 milljónir farþega fari um völlinn í ár sem yrði þriðji mesti fjöldi frá upphafi. Árið 2017 fóru 8,8 milljónir farþega um völlinn og metárið 2018 voru farþegarnir 9,8 milljónir.

„Fjárhagslega erum við vel í stakk búin til að ráðast í þessar framkvæmdir. Við fjármögnum þær með lánsfé sem við öflum á mörkuðum og allur hagnaður Isavia fer beint í uppbygginguna. Eins og staðan er á lánamörkuðum er það áskorun, bæði varðandi vaxtakjör og aðgengi að fjármögnun, en gerðar eru strangar kröfur um eigið fé og skuldahlutfall félagsins. Við höfum sagt að það er mikilvægt að félagið hafi svigrúm til að geta haldið áfram að bæta aðstöðuna fyrir farþega og flugfélög, meðal annars með samkeppnishæfu skattaumhverfi,“ segir Guðmundur Daði. Spurður hvort vaxtahækkanir hafi hægt á áformum félagsins segir hann að áskorunin sé fremur fólgin í aðgengi að fjármagni og að einhverju leyti í skuldahlutfalli félagsins, eftir mikið tekjufall í farsóttinni. Isavia hefði viljað getað farið örlítið hraðar í uppbygginguna á næstu tveimur árum.

Sex ný flughlið

Ný austurálma rís nú á Kefla­víkurflugvelli en síðar verður svonefndur austurfingur, alls um 500 metrar að lengd, 80.000 fermetar, byggður út frá henni.

Sex ný flughlið verða í austurálmunni, þar af fjögur með landgöngubrúm, og nýtt tösku- og móttökusvæði fyrir komufarþega sem þrefaldar núverandi komusvæði. Þá verður þar ný og stærri fríhöfn og á annarri hæðinni framhald af veitinga- og verslunarrými á 2. hæð flugstöðvarinnar.

„Þessi fasi er um 20 þúsund fermetrar og er áætlaður kostnaður um 22 milljarðar. Við ætlum að ljúka þessum framkvæmdum fyrir lok árs 2024 og í framhaldi af því, ef félagið hefur fjárhagslega burði til þess og eftirspurnin heldur áfram að aukast, er markmiðið að halda áfram í fasa tvö sem gengur undir nafninu tengibyggingin,“ segir Guðmundur Daði og vísar á teikninguna sem er endurbirt hér fyrir ofan.

Þar er horft yfir flugvöllinn, frá suðri til norðurs, eins og hann gæti litið út 2029. Búið er að lengja suðurbygginguna í forgrunni, breikka landganginn og reisa stóra tengibyggingu milli gömlu flugstöðvarinnar með rauðlitaða þakinu og nýrrar austurálmu sem er til hægri á myndinni.

30 þúsund fermetrar

„Við ætlum að rífa gamla land­ganginn [milli norður- og suðurbyggingar] og byggja nýtt 30 þúsund fermetra mannvirki á tveimur hæðum. Þar verður stórbætt aðstaða við flughliðin sem eru þegar á landganginum og þar verða ný landamæri sem allir farþegar utan Schengen-svæðisins munu þurfa að fara um. Þannig að þeir sem eru að koma til landsins fara í gegnum landamærin og svo beint inn í fríhöfn og töskumóttöku sem tryggir betra flæði og ­eykur skilvirkni. Á annarri hæðinni verður svo þjónusta og verslun fyrir farþega en þar verður hátt til lofts og vítt til veggja og mun það svæði gjörbylta upplifun farþega af flugvellinum.

Eitt af því sem farþegar hafa sagt okkur í gegnum kannanir er að þeir vilja sjá meira framboð af veitingum, verslunum og afþreyingu á flugvellinum og stærri setusvæði. Þannig að með því að vera með stórt afþreyingar-, þjónustu- og verslunarsvæði í miðjunni á flugvellinum, hinu nýja hjarta, erum við að koma til móts við óskir farþega um bætta aðstöðu á flugvellinum.“

Þjónað til borðs

– Hvernig veitingahús verða í tengibyggingunni?

„Við sjáum hvað kemur út úr útboðum og hverju markaðurinn kallar eftir en nú gerum við ráð fyrir að vera með að minnsta kosti tvo veitingastaði þar sem verður þjónað til borðs. Þá gerum við meðal annars ráð fyrir matarmarkaði sem geti verið með svipuðu sniði og mathallir.“

Spurður hvernig tryggja eigi flæði farþega um landganginn á framkvæmdatímanum segir hann að byggður verði nýr bráðabirgðalandgangur vestan megin við núverandi landgang.

Tilbúin sumarið 2029

„Það er sambærilegt og þegar við stækkuðum suðurbygginguna. Þá byggðum við nýjan bráðabirgðalandgang, byggðum upp mannvirkið og hleyptum svo farþegum inn í nýjan landgang. Við vonumst til að framkvæmdum við tengibygginguna ljúki fyrir lok árs 2028 og að sumarið 2029 verði þessi nýja miðja flugvallarins tilbúin. Það ár áætlum við að 11,5 milljónir farþega fari um völlinn,“ segir Guðmundur Daði en það yrði 17% fjölgun frá núverandi metári, 2018.

Fyrirhuguð tengibygging verður 25 til 30 þúsund fermetrar og austurbyggingin rúmlega 20 þúsund fermetrar. Síðar er áformað að byggja allt að 35 þúsund fermetra norðurbyggingu og sem áður segir gæti austurfingurinn orðið allt að 80 þúsund fermetrar. Þá er áformað að byggja tvö bílastæðahús, samtals allt að 100 þúsund fermetrar. Þessi fjögur verkefni eru samtals allt að 265 þúsund fermetrar. Það er ríflega fjórfaldur fermetrafjöldi Kringlunnar en frekari framkvæmdir eru fyrirhugaðar við völlinn af hálfu Isavia og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco.

Höf.: Baldur Arnarson