Ævintýramynd „Kvikmyndin er frábær ævintýramynd fyrir alla fjölskylduna,“ segir í rýni um kvikmyndina Dreka og dýflissur: Gildi meðal þjófa.
Ævintýramynd „Kvikmyndin er frábær ævintýramynd fyrir alla fjölskylduna,“ segir í rýni um kvikmyndina Dreka og dýflissur: Gildi meðal þjófa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin, Smárabíó og Laugarásbíó Dungeons & Dragons: Honor Among Thieves / Drekar og dýflissur: Gildi meðal þjófa ★★★★· Leikstjórn: John Francis Daley og Jonathan Goldstein. Handrit: Jonathan Goldstein, John Francis Daley og Michael Gilio. Aðalleikarar: Chris Pine, Michelle Rodriguez, Justice Smith og Sophia Lillis. Bandaríkin, 2023. 134 mín

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Nýja kvikmyndin Drekar og dýflissur: Gildi meðal þjófa, eftir kvikmyndatvíeykið John Francis Daley og Jonathan Goldstein, byggist á vinsælu samnefndu hlutverkaspili frá árinu 1974. John Francis Daley og Jonathan Goldstein, skrifuðu og leikstýrðu Drekum og dýflissum saman en þeir skrifuðu áður Spider-Man: Homecoming (Jon Watts, 2017) og leikstýrðu saman Game Night (2018). Um er að ræða fjórðu kvikmyndaaðlögunina á Drekum og dýflissum en fyrri kvikmyndir hafa ekki fallið í kramið hjá áhorfendum og D&D-aðdáendum. Þekktasta aðlögunin er frá árinu 2000 eftir Courtney Solomon en sú kvikmynd skartaði m.a. Jeremy Irons.

Arnaldur Indriðason, starfandi kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins árið 2001, skrifaði fremur neikvæðan dóm um þá útgáfu og hafði m.a. þetta að segja um myndina: „Öll ber myndin, Drekar og dýflissur, eins og vísvitandi keim af gömlu, sakleysislegu þrjúbíóunum; maður næstum því vill skipta á hasarblaði í hléinu.“

Kvikmyndin verður að vera nógu góð til að heilla í senn aðdáendur hlutverkaspilsins og ná til breiðari markhóps. Þáttastjórnandinn Neil Druckmann gerir þetta listilega vel með þáttunum The Last of Us (2023–) sem eru byggðir á tölvuleik frá árinu 2013. Nýjasta aðlögunin af Drekum og dýflissum er full af tilvísunum í hlutverkaspilið. Hliðið Baldur's Gate og borgin Neverwinter eru nefnd í myndinni en tilvísanir eins og þessar dýpka aðeins baksöguna hjá almennum áhorfendum.

Hinn sykursæti Chris Pine leikur aðalhlutverkið Edgin Darvis, sem gerist þjófur eftir að eiginkona hans er myrt af illum hópi sem ber nafnið Rauðu galdramennirnir. Sem betur fer hafði eiginkonunni tekist að fela dóttur þeirra Kiru (Chloe Coleman) og þjófarnir, Edgin og hans besta vinkona Holga (Michelle Rodriguez), ala barnið upp saman. Þegar Edgin fréttir af hlut sem getur lífgað eiginkonu hans aftur við leggur hann af stað í hættulegasta ævintýrið hingað til. Edgin og Holga nást og sitja í fangelsi í tvö ár þar til þau loks ná að flýja en þá er Kira föst í klóm fyrrverandi samstarfsmanns þeirra, svikarans Forge (Hugh Grant), sem hefur stillt sér upp við hliðina á banvænni galdrakonu, Sofinu (Daisy Head), og tekið við stjórn á öflugum kastala. Edgin og Holga vilja ná stúlkunni til baka og fá hjálp frá sæmilegum galdramanni, Simon (Justice Smith), og Doric (Sophia Lillis), sem er umskiptingur.

Eins og í öllum hetjuhópum kemur hver og einn með eitthvað á borðið sem nýtist hópnum síðar til að yfirstíga skrýtnu hindranirnar sem hópurinn mætir, eins og að berjast við bústinn dreka. Húmorinn og mismunandi persónur minna á tóninn í Guardians of the Galaxy (James Gunn, 2014).

Kvikmyndatvíeykinu John Francis Daley og Jonathan Goldstein tekst að tryggja að það sem er unnið stafrænt þjóni sögunni en ekki öfugt. Það er einnig ánægjulegt að sumar verurnar eru ekki aðeins tölvugerðar, eins og t.d. risavaxni kötturinn. Eflaust myndu sumir gagnrýna þá nálgun en hún vinnur nostalgíustig hjá rýni. Borgin Forge lítur hins vegar út fyrir að hafa verið afrituð úr tölvuleik. Stærsti hluti kvikmyndarinnar var tekinn upp í Belfast á Norður-Írlandi en eldgosinu í Geldingadölum bregður fyrir í kvikmyndinni. Eflaust munu Drekar og dýflissur ekki eldast vel sjónrænt en húmorinn og söguþráðurinn eru líklegir til að eldast vel, sem rýnir telur að sé mikilvægara.

Leikstjórunum tekst glæsilega að kynna sögupersónurnar á stuttum tíma. Chris Pine er fullkominn í hlutverki óforbetranlegs en þó sjarmerandi þjófs og Rodriguez er dásamleg sem platónskur vinur hans og vöðvabúntið sem vill frekar leysa deilur með ofbeldi. Myndin Drekar og dýflissur er ekki aðeins enn ein endurgerðin heldur stórfyndin ævintýramynd með viðkunnanlegum persónum, áhugaverðum bardagaatriðum og endalausum aulabröndurum.

Kvikmyndin er frábær ævintýramynd fyrir alla fjölskylduna.