Hin árlega Skíðavika á Ísafirði var sett í gær með hefðbundnum hætti á Silfurtorgi, og var boðið upp á lúðrasveit, skemmtiatriði, kakó og kökur. Í kjölfar setningarathafnarinnar hófst svo sprettgangan fræga í Hafnarstræti, og spreyttu alls kyns skíðakempur á öllum aldri sig á henni. Skapaðist mikil stemning líkt og alltaf.
Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá á Ísafirði og nágrenni í tengslum við Skíðavikuna, og einskorðast dagskráin ekki við skíðaíþróttina, þó að vissulega sé hún í fyrirrúmi. Boðið verður upp á sleðarallí í dag, skírdag, auk þess sem keppt verður í skíðaskotfimi á Seljalandsdal.
Fyrsta Skíðavikan var árið 1935, og hefur hún verið haldin nær óslitið síðan, ef frá eru talin árin 1949, 2020 og 2021, en þá voru samkomutakmarkanir í gildi á Ísafirði.