Át Mat er komið fyrir á stólpum til að fá Ljúfu til að fljúga stutta vegalengd á milli þeirra.
Át Mat er komið fyrir á stólpum til að fá Ljúfu til að fljúga stutta vegalengd á milli þeirra. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mannfólkið fær ekki oft að vera í miklu návígi við fálka þótt vissulega geymi Íslandssagan veiði og þjófnað á þessum virðulega fugli í gegnum aldirnar. Dýralæknirinn Elísabet Hrönn Fjóludóttir hefur í vetur verið með íslenskan fálka í sjúkraþjálfun…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Mannfólkið fær ekki oft að vera í miklu návígi við fálka þótt vissulega geymi Íslandssagan veiði og þjófnað á þessum virðulega fugli í gegnum aldirnar.

Dýralæknirinn Elísabet Hrönn Fjóludóttir hefur í vetur verið með íslenskan fálka í sjúkraþjálfun í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum ásamt Guðrúnu Pálínu Jónsdóttur og fleira starfsfólki garðsins. Fálkinn fannst illa á sig kominn í Breiðafirði síðsumars í fyrra en greint var frá þjálfun hans hér í blaðinu fyrir áramót. Elísabet segir það forréttindi að vera í slíkri nálægð við rándýr eins og fálkann sem á miðöldum var kallaður konungur fugla.

Þegar fálkinn fannst var fálkatemjarinn Terézia Teriko Hegerova frá Slóvakíu í starfsþjálfun hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hún vann með fuglinum til að byrja með og úr varð eins konar námskeið fyrir Íslendinga í leiðinni.

Fyrsta verkefnið

„Við höfum unnið eftir leiðbeiningum frá frá Teréziu sem hefur ungengist fálka í Slóvakíu nánast frá blautu barnsbeini. Þegar fálkinn kom til okkar var hún grindhoruð og vó um 1.100 grömm en venjulegur kvenfugl í náttúrunni ætti að vera um 1.700 grömm. Hún hafði því misst mjög mikinn massa. Í framhaldinu gerðist það að Teréziu tókst að öðlast traust fálkans en það tók þrjár vikur án þess að þvinga fuglinn í neitt,“ segir Elísabet, sem sjálf var áður héraðsdýralæknir á Vesturlandi og vann síðar á Keldum en hóf störf í Húsdýragarðinum 1. september. „Ljúfa var fyrsta verkefnið mitt og við höfum nánast verið jafn lengi í garðinum.“

Eftir það hófst sjúkraþjálfunin að sögn Elísabetar sem í raun stendur enn yfir. Fálkinn braggast í Húsdýragarðinum og hefur náð eðlilegri þyngd og mætti ekki þyngjast mikið meira. Þyngdin virðist ekki vera feimnismál hjá fálkum því fuglinn hefur ekki hreyft mótbárum við því að vera vigtaður daglega. Hreyfigeta vængsins er ekki orðin eðlileg og því of snemmt að segja til um hvort fálkinn muni komast aftur út í náttúruna með tímanum eða færa lögheimili sitt í Húsdýragarðinn. Ekki var um vængbrot að ræða en eitthvað hafði gerst með annan vænginn því fálkinn var ófleygur. Röntgenmynd leiddi jafnframt í ljós að vængurinn var laskaður. Voru myndirnar sendar til erlendra dýralækna sem sinna eingöngu fálkum og þeirra mat var að hreyfitaugin í vængnum hefði skaddast. Fálkinn ræður því ekki almennilega við vænginn en sársaukinn ætti ekki að vera mikill og framfarir sjást nánast daglega.

Nafnið vísar í geðslagið

Elísabetu þykir mikið til fálkans koma og segir geðslagið afar gott. Sökum þess hversu meðfærilegur fálkinn hefur verið í sjúkraþjálfuninni stakk Terézia upp á að honum yrði gefið nafnið Ljúfa. Þykir starfsmönnum það lýsandi fyrir lundina og samstarfsviljann hjá fálkanum. Má það eflaust til sanns vegar færa því Ljúfa var tilbúin til að éta og gera æfingar með fulltrúa Morgunblaðsins innan girðingar. Ljúfa skynjaði að Kristinn ljósmyndari er ljúfmenni og leyfði honum að munda myndavélina í innan við eins metra fjarlægð. Af augnsvipnum að dæma hafði Ljúfa meiri fyrirvara gagnvart blaðamanninum og samdi um að hann kæmi ekki miklu nær en þrjá metra.

Eftir öfluga sjúkraþjálfun hefur tekist að fá Ljúfu til að fljúga á milli stólpa sem komið hefur verið fyrir í aðstöðunni þar sem hún dvelur. Henni tekst að taka á loft í stutta stund og ná í mat þótt hún hafi ekki burði til að fljúga eðlilega.

Villt dýr ekki fyrirsjáanleg

„Húsdýragarðurinn hefur í gegnum tíðina tekið að sér veik og slösuð dýr af válista og þá er Náttúrufræðistofnun með í ráðum. Eftir að Terézia dvaldi á landinu höfum við komið auga á fleiri möguleika til að sinna vel slíkum verkefnum en auðvitað kemur fyrir að dýrin eru það illa löskuð að þau lifa ekki af. Það hafa komið nokkrir smyrlar á ári en í mismunandi ástandi eins og gengur,“ segir Elísabet og fyrir dýralækninn er fróðlegt að vinna með villtu dýri.

„Maður þekkir ekki fugla eins vel og maður þekkir hundinn sem dæmi en auk þess er þetta villt dýr. Hún getur því verið óútreiknanleg og maður getur ekki ætlast til þess að hún hlýði. Í Slóvakíu hafa fálkar verið þjálfaðir í 3-4 þúsund ár en eru þó ekki orðnir „húsvanir“.“

Höf.: Kristján Jónsson