Öryggi „Magnús Ragnarsson stjórnaði af yfirvegun og öryggi og það smitaði út frá sér. Hann kunni verkið vel og öllum innkomum stýrði hann af fumleysi. Heildarbragurinn í túlkun hans var sannfærandi,“ segir í rýni um flutning Kórs Langholtskirkju á Messíasi eftir Georg Friedrich Händel.
Öryggi „Magnús Ragnarsson stjórnaði af yfirvegun og öryggi og það smitaði út frá sér. Hann kunni verkið vel og öllum innkomum stýrði hann af fumleysi. Heildarbragurinn í túlkun hans var sannfærandi,“ segir í rýni um flutning Kórs Langholtskirkju á Messíasi eftir Georg Friedrich Händel. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Langholtskirkja Messías ★★★★· Tónlist: Georg Friedrich Händel. Texti: Charles Jennens. Hljómsveitarstjóri: Magnús Ragnarsson. Einsöngvarar: Jóna G. Kolbrúnardóttir (sópran), Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir (mezzó-sópran), Elmar Gilbertsson (tenór) og Bjarni Thor Kristinsson (bassi). Kór Langholtskirkju ásamt kammersveit. Konsertmeistari: Páll Palomares. Tónleikar í Langholtskirkju sunnudaginn 26. mars 2023.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Kór Langholtskirkju var stofnaður hinn 23. mars árið 1953 og fagnar því 70 ára afmæli um þessar mundir. Til að fagna þessum tímamótum blés kórinn til afmælis­tónleika og flutti Messías eftir Händel ásamt hópi einsöngvara og kammersveit en segja má að verkið sé samofið sögu kórsins því hann var nú að flytja óratoríuna í 25. sinn á tónleikum (í alls tíu uppfærslum).

Georg Friedrich Händel (1685-1759) fæddist í Þýskalandi en fluttist 27 ára gamall til Englands og bjó þar uns hann lést eða í tæpa hálfa öld; hann gerðist meðal annars breskur ríkisborgari árið 1727. Händel hafði að vísu samið þó nokkurn fjölda verka áður en hann fluttist yfir Ermarsundið og náð undraverðum tökum á bæði þýskum, frönskum og ítölskum tónsmíðastíl. Meirihluti verka hans var þó saminn á Englandi, framan af einkum ítalskar óperur en upp úr 1730 tók að halla undan slíkum verkum þar í landi og síðasta óperan sem Händel samdi við ítalskan texta var frumflutt árið 1741. Hann dó þó ekki ráðalaus, heldur leitaði hann nú á ný mið og hóf að semja óratoríur. Slík verk áttu sér auðvitað langa sögu á meginlandinu en sá var munur á að óratoríum Händels var meðal annars ætlaður flutningur í leikhúsum en á meginlandinu, til að mynda á Ítalíu, voru þær einkum færðar upp í kirkjum. Óratoríur Händels voru einnig samdar við enska texta og sóttu til dæmis innblástur í enska kórtónlist.

Eftir Händel liggja alls tæplega 30 óratoríur og af þeim sem hann samdi á Englandi er Messías sú sjöunda í röðinni. Verkið samdi Händel mjög hratt eða einungis á 24 dögum, það er að segja frá 22. ágúst til 14. september 1741; vísast leitaði hann þó einhverra hugmynda og fyrirmynda í eldri verkum sínum. Óratorían var frumflutt í Dyflinni í apríl 1742 og færð upp í Lundúnum ári síðar. Hún sló þó ekki í gegn strax, hlaut þannig mátulega góðar viðtökur, en vinsældir hennar jukust hratt og nú má fullyrða að Messías sé eitt vinsælasta og mest flutta kórverk tónlistarsögunnar. Messías var líka eitt síðasta af eigin tónverkum sem Händel heyrði flutt sjálfur en hann var viðstaddur tónleika í Covent Garden þar sem verkið var á efnisskránni hinn 6. apríl 1759, átta dögum áður en hann lést.

Messías skiptist í þrjá hluta og segir hver þeirra frá afmörkuðu efni kristindómsins, það er að segja fæðingu Krists, krossfestingu og upprisu. Inntak þess er sótt í bæði Gamla og Nýja testamentið, Jobsbók og Davíðssálma en líka að hluta til í messubók ensku biskupakirkjunnar. Textahöfundur er Charles Jennens en þeir Händel höfðu áður unnið saman, meðal annars að óratoríunni Sál (Saul). ­Messías hefst á hljómsveitarforleik en skiptist að öðru leyti í hefðbundna óratoríuþætti: söngles, aríur og kóra. Verkið er fyrst og fremst frásögn eða hugleiðing og hefur ekki á að skipa eiginlegum persónum eða hlutverkum. Händel samdi það fyrir bæði litla hljómsveit og býsna fámennan kór þrautþjálfaðra einsöngvara, enda eru sumir kórþættirnir mjög tæknilega erfiðir. Hins vegar tíðkaðist lengi framan af að flytja Messías með stórum hópi flytjenda, oft í útsetningu annarra tónskálda á borð við ­Mozart. Þannig tók 2.000 manna kór (sumir segja 5.000) og 500 manna hljómsveit þátt í flutningnum á stór-Händel-hátíðinni í Crystal Palace árið 1857. Frá þessum sið hefur nánast alveg verið horfið og nú er óratorían nánast alltaf flutt í samræmi við upphaflegar óskir tónskáldsins.

Alls samanstóð kór Langholts­kirkju nú af 36 söngvurum, kammersveitina skipuðu 18 hljóðfæraleikarar og einsöngvararnir voru fjórir. Messías var því fluttur mjög í samræmi við það sem gerðist í árdaga óratoríunnar og er það vel. Jafnvægið milli kórs, einsöngvara og hljómsveitar var gott og stjórnandinn, Magnús Ragnarsson, kallaði fram ótal blæbrigði í túlkun sinni. Tempóin voru aldrei of hröð (eða þá of hæg) og hendingar allar skýrar. Alls tók flutningur alls rétt rúmlega tvær klukkustundir, án hlés, sem er mjög í samræmi við flutning á Messíasi í dag. Reyndar ber að fara varlega í að leggja of mikið upp úr heildarlengd einstaka flutnings, því mjög misjafnt er hvaða kaflar verksins eru nákvæmlega fluttir hverju sinni og yfirleitt er alltaf einhverjum þeirra sleppt. Þannig var til að mynda 4. atriði annars hluta og 3. atriði þriðja hluta sleppt á tónleikunum 26. mars. Þar sem ekki er um eiginlega frásögn í verkinu að ræða kemur það ekki að sök.

Kór Langholtskirkju stóð sig vel á tónleikunum. Hann fór ívið varlega af stað og fyrir hlé (1. hluti) mátti heyra lítilsháttar intónasjón-­vandamál hér og þar, til að mynda í „And he shall purify“ (Og hann mun hreinsa), en almennt markaðist þó flutningurinn af öryggi. Eftir hlé (2. og 3. hluti) litu kórsöngvarar almennilega upp úr nótunum og sungu af krafti. Ég nefni hér sérstaklega „And with his stripes“ (Og fyrir hans benjar) sem og auðvitað sjálfan Hallelúja-kórinn sem hljómaði af bæði krafti og öryggi (já, það var staðið upp eins og hermt er að Georg konungur II. hafi gert en raunar er uppruni þeirrar sögu mjög á reiki). Lokakórinn („Worthy is the Lamb“ (Maklegt er lambið)) og Amen-fúgan í lokin voru snilldarlega flutt.

Einsöngvararnir Jóna G. Kolbrúnardóttir (sópran), Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir (mezzó-­sópran), Elmar Gilbertsson (tenór) og Bjarni Thor Kristinsson (bassi) stóðu sig öll með prýði. Reyndar má kannski færa fyrir því rök að rödd Wagner-bassa á borð við Bjarna Thor sé ívið stór fyrir barokkverk eins Messías, en hann komst vel frá sínu, einkum í lokaaríu sinni, „The trumpet shall sound“ (Því lúðurinn mun gjalla). Bæði Jóna G. og Guðrún Jóhanna sungu af innlifun og djúpri túlkun (kunnu textann sem sagt vel) en mér fannst þó Elmar raunar bestur einsöngvaranna. Hann kom öruggur til leiks í „Comfort ye“ og söng líka til að mynda bæði sönglesin „He had dwelled in heaven“ (Hann sem situr á himni) og „Thou shalt break them“ (Þú skalt mola þá) fádæma vel.

Páll Palomares var konsertmeistari í tiltölulega lítilli hljómsveit og einstaka sinni bar á ónákvæmni í flutningi. Almennt var þó leikur hljómsveitarinnar góður og auðvitað reynir mikið á hljóðfæraleikara þegar þeir eru svona fáir; áhorfendur heyra þannig hvert smáatriði í flutningunum. Ég hefði viljað heyra meiri kraft í strengjunum í upphafi reiðiaríunnar „Why do the nations so furiously rage together“ (Hví geisa heiðingjarnir) en aftur á móti er einleikur trompetleikarans Einars Jónssonar eftirminnilegur í „The trumpet shall sound“ (Því lúðurinn mun gjalla) sem er gríðarlega erfitt sóló sem sígur í.

Magnús Ragnarsson stjórnaði af yfirvegun og öryggi og það smitaði út frá sér. Hann kunni verkið vel og öllum innkomum stýrði hann af fumleysi. Heildarbragurinn í túlkun hans var sannfærandi en hann gaf einnig einsöngvurum nokkurt frelsi, enda voru þeir á ferð um kirkjuna og fyrsta innkoma Bjarna Thors var meðal annars af svölunum.

Messías kann að vera eitt mest flutta kórverk sögunnar en það er alls ekki auðvelt í flutningi. Það má þannig ekki flytja of hægt og tilgerðarlega og heldur ekki of hratt þannig að glæsilegir kórþættir verksins fái ekki notið sín til fulls (auk þess sem flúraður söngurinn týnist þannig). Magnús Ragnarsson fór bil beggja og ef frá er talin örlítil ónákvæmni í kór og hljómsveit á stöku stað var um að ræða afar sannfærandi flutning.