DNA-greining Hárlokkur af höfði þýska tónskáldsins Ludwigs van Beethoven rannsakaður af vísindamönnum.
DNA-greining Hárlokkur af höfði þýska tónskáldsins Ludwigs van Beethoven rannsakaður af vísindamönnum. — AFP/Anthi Tiliakou
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is „Þetta er ævintýralega óintressant,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um rannsókn hóps vísindamanna frá ýmsum löndum á hárum af höfði þýska tónskáldsins Ludwigs van Beethoven, en frá henni hefur verið sagt í fjölmiðlum um allan heim. Niðurstöðurnar voru birtar í virtu vísindariti, Current Biology.

Sviðsljós

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

„Þetta er ævintýralega óintressant,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um rannsókn hóps vísindamanna frá ýmsum löndum á hárum af höfði þýska tónskáldsins Ludwigs van Beethoven, en frá henni hefur verið sagt í fjölmiðlum um allan heim. Niðurstöðurnar voru birtar í virtu vísindariti, Current Biology.

Beethoven lést árið 1827, 56 ára gamall. Hann var þá orðinn heyrnarlaus og átti við margvísleg veikindi að stríða. Menn hafa alla tíð síðan velt fyrir sér hvert raunverulegt dánarmein hans hafi verið og hvers vegna hann hafi misst heyrnina.

Með DNA-raðgreiningu á leifum af hári Beethovens segjast vísindamennirnir hafa komist að því að erfðafræðilegar ástæður hafi að líkindum legið að baki lifrarsjúkdómi sem hann þjáðist af. Að auki fundu þeir merki um að hann hefði smitast af veiru sem veldur lifrarbólgu. Engar haldbærar skýringar fundust hins vegar á heyrnarleysi hans.

„Niðurstaðan er ómerkileg og ekkert sem mér finnst standa upp úr,“ segir Kári sem kveðst hafa kynnt sér ritgerð vísindamannanna. „Ef þeir hefðu komist að því hvað olli heyrnarleysinu væri það annað mál. En þeir hafa notað dýra aðferð og aðeins komist að hlutum sem engu máli skipta,“ segir hann. „Í mínum huga skiptir aðeins eitt máli í sambandi við Beethoven og það er tónlistin sem hann skapaði.“

Erlendir vísindamenn á sviði DNA-rannsókna sem New York Times ræddi við eru þó jákvæðir gagnvart rannsókninni. Þeir segja hana vel gerða og trausta og þykir ýmislegt forvitnilegt hafa komið fram.

Reyndist vera af konu

Fyrir um tveimur áratugum var önnur rannsókn gerð á hárlokk sem eignaður var Beethoven. Það var ekki DNA-greining heldur eiturefnarannsókn sem leiddi í ljós að í hárinu voru leifar af blýi. „Niðurstöður benda til þess að hann hafi þjáðst af alvarlegri blýeitrun og að hún sé líkleg orsök þrálátra veikinda hans og kunni að hafa leitt hann til dauða,“ sagði í frásögn Morgunblaðsins af málinu 22. október 2000. Svo mikla athygli vakti rannsóknin að skrifuð var um hana bók sem varð metsölurit, Beethoven's Hair eftir Russel Martin. Eftir bókinni var nokkrum árum seinna gerð heimildarmynd.

Nýja rannsókin leiddi ekki aðeins í ljós heilsufarsupplýsingar. Hún sýndi fram á að lokkurinn sem rannsakaður var fyrir um tuttugu árum var ekki af Beethoven heldur konu af gyðingaættum! Svolítill munur þar á. Líkur hafa verið leiddar að því hver konan er og að einhver mistök hafi átt sér stað frekar en ásetningur, en skiljanlega eru félagsmenn í American Beethoven Society, sem á sínum tíma lagði fram um 7.300 dollara til að kaupa lokkinn á uppboði, heldur súrir yfir þessu. En fleiri lokkar eignaðir tónskáldinu höfðu varðveist og reyndust flestir hafa eigendasögu og innbyrðis samsvörun sem gaf nýju DNA-rannsókninni traustari grundvöll, þannig að menn trúa því að vísindamennirnir hafi að þessu sinni raunverulega haft undir höndum hár af höfði Beethovens.

Svipt ættarstoltinu

Í Belgíu býr fjölskylda sem um aldir hefur notað ættarnafnið Beethoven og hefur talið til náins skyldleika við tónskáldið. Hefur sá skyldleiki raunar verið helsta stolt fjölskyldunnar. En DNA-greiningin sýndi að þetta ágæta fólk er honum alveg ótengt erfðafræðilega. Martin Larmuseau, annar aðalhöfunda greinarinnar í Current Biology, prófessor í erfðatækni, sýndi fjölskyldunni þá tillitssemi að láta hana vita af niðurstöðunni áður en skýrt var frá henni opinberlega. „Þeim var mjög brugðið,“ sagði hann í viðtali við New York Times. Larmuseau telur að skýringin felist í því að faðir Ludwigs van Beethoven hafi verið getinn af öðrum en eiginmanni ömmu tónskáldsins. Engin gögn hafa varðveist um fæðingu hans og skírn og amman átti við áfengisvanda að stríða. Stirt samband var alla tíð á milli tónskáldsins og föður hans og er hermt að Ludwig van Beethoven hafi látið sér vel líka þegar sögur gengu um að hann væri í reynd sonur Friðriks Vilhjálms II. Prússakonungs eða jafnvel Friðriks mikla.

Hárlokkar frægra Íslendinga

Annars er enginn skortur á hárlokkum af frægðarfólki veraldarsögunnar og því ærin verkefni á boðstólum fyrir vísindamenn sem telja sig geta fengið eitthvað „intressant“ út úr þeim. Nokkrir hárlokkar frægra Íslendinga eru til dæmis varðveittir á Þjóðminjasafninu. Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir Sesseljudóttir sérfræðingur þar veitti Morgunblaðinu upplýsingar um þá. Þar eru til dæmis lokkar úr hári Alberts Thorvaldsen, myndhöggvarans góða, Bjarna Sívertsen kaupmanns í Hafnarfirði, Bjarna Thorarensen amtmanns, Páls Melsteð sagnfræðings og fleiri en einn frá „sóma Íslands, sverði og skildi“, Jón Sigurðssyni forseta, og Ingibjörgu Jensdóttur konu hans.

Ekki er Kári Stefánsson spenntur fyrir að rannsaka þessa lokka. „Ég hef ekki trú á að DNA-raðgreining á hári Jóns varpi ljósi á nokkurn skapaðan hlut í erfðafræði hans,“ segir Kári. Öðru máli gegndi ef Jón forseti hefði t.d. frá unga aldri haft sjúkdóm og dáið úr honum, þá væri kannski hægt að finna stökkbreytingu í genum hans sem skýrði það. Kári bætir því við að vissulega væri hægt að komast að ýmsu um Jón með DNA-rannsókn, t.d. hvort rétt sé farið með ættfærslur hans eða hvort hann hafi átt lausaleiksbarn. Jón og Ingibjörg voru sem kunnugt er barnlaus. Í rómaðri skáldsögu Helga Ingólfssonar Þegar kóngur kom er Jón látinn eignast lausaleikskróga í einni ferð sinni hingað til lands. Skáldum er ekkert heilagt!

„Best er að leyfa þessu fólki að ligga óáreitt í gröf sinni,“ segir Kári. Hann segir að það þurfi að vera fyrir hendi skýrar rannsóknarspurningar og traust rök þegar ráðist er í dýrar erfðafræðirannsóknir.

Þjóðminjasafnið geymir ýmsa óvenjulega muni

Hár af höfði Jóns forseta og Ingibjargar varðveitt

Hárlokka Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur konu hans má sjá á fastasýningu Þjóðminjasafnsins. Sýndi Steindór Gunnar Steindórsson samskiptastjóri safnsins Morgunblaðinu þá. Samanhringaður lokkur úr hári Jóns er undir gleri í fallegu nisti úr gylltu silfri sem Ingibjörg bar jafnan um háls sér. Má vel vera að hann sé frá fyrstu árum tilhugalífs þeirra. Í nistinu er einnig undir gleri ljósmynd af Jóni. Gáfu ættingjar Ingibjargar safninu nistið. Frá Ingibjörgu er svo einnig varðveitt festi fyrir vasaúr með hólkum, fléttuð úr hári hennar. Kom hún einnig frá ættingjum hennar.

Enn fremur eru á safninu lokkar úr hári Jóns forseta komnir frá Benedikt skáldi Gröndal sem var honum handgenginn á Kaupmannahafnarárum sínum. Hinn 22. ágúst ágúst 1874, árið sem Íslendingar héldu upp á þúsund ára byggð í landinu en gleymdu að bjóða Jóni, fylgdi Benedikt honum á fína rakarastofu í borginni. Meðan hárskerinn snyrti koll forseta beygði skáldið sig niður og tíndi í bréfpoka lokka úr hári hans á gólfinu. Hvað Jóni hefur fundist um þetta uppátæki vitum við því miður ekki. Kannski tók hann ekki einu sinni eftir því!

Lokkana sem Benedikt Gröndal tíndi upp mun hann hafa varðveitt sem sjáaldur auga síns alla tíð sína og segir það sitt um þá dýrkun á Jóni forseta sem komin var til sögu löngu fyrir lát hans. Að Benedikt látnum færði Helga dóttir hans lokkana Forngripasafninu að gjöf.

Höf.: Guðmundur Magnússon