Körfubolti
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Hilmar Smári Henningsson fór á kostum fyrir Hauka þegar liðið tók á móti Þór frá Þorlákshöfn í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Ólafssal í Hafnarfirði í gær.
Leiknum lauk með sjö stiga sigri Hauka, 90:83, en Hilmar Smári gerði sér lítið fyrir og skoraði 32 stig ásamt því að taka tvö fráköst og gefa fjórar stoðsendingar.
Haukar byrjuðu betur og skoruðu 21 stig gegn 14 stigum Þórsara í fyrsta leikhluta. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og var staðan 46:39, Haukum í vil, í hálfleik.
Þórsarar mættu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og þeim tókst að minnka forskot Hafnfirðinga í fimm stig í þriðja leikhluta og var staðan 62:57, Haukum í vil, að honum loknum.
Þórsarar byrjuðu fjórða leikhluta á því að skora þriggja stiga körfu og minnka muninn í tvö stig, 60:62. Hafnfirðingar skoruðu hins vegar næstu tíu stig leiksins. Vincent Malik minnkaði muninn í fimm stig fyrir Þórsara þegar 30 sekúndur voru til leiksloka en það dugði ekki til og Haukar fögnuðu sigri.
Eins og áður sagði var Hilmar frábær fyrir Hauka en hann skoraði fimm þriggja stiga körfur og var með 45% þriggja stiga nýtingu. Hafnfirðingar hittu vel úr skotunum sínum í gær og voru með 41% skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna.
Á sama tíma gekk Þórsurum einstaklega illa að hitta úr sínum skotum fyrir utan þriggja stiga línuna en þeir skoruðu úr einungis 9 af 32 þrigga stiga skotum sínum og voru með 28% nýtingu fyrir utan.
Daniel Mortensen skoraði 15 stig fyrir Hauka, ásamt því að taka ellefu fráköst og gefa sex stoðsendingar og þá skoraði Darwin Davis 12 stig og gaf sjö stoðsendingar.
Jordan Semple var stigahæstur hjá Þórsurum með 23 stig, ellefu fráköst og eina stoðsendingu. Vincent Malik Shahid skoraði 18 stig, tók fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.
Haukar leiða því 1:0 í einvíginu en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitunum. Næsti leikur liðanna fer fram á laugardaginn kemur í Þorlákshöfn.
Í hinum leik kvöldsins mættust Keflavík og Tindastóll í sínum fyrsta leik í átta liða úrslitunum í Blue-höllinni í Keflavík en leiknum var ekki lokið þegar blaðið fór í prentun.