Óráð er fyrsta bíómynd leikstjórans Arrós Stefánssonar í fullri lengd.
Óráð er fyrsta bíómynd leikstjórans Arrós Stefánssonar í fullri lengd.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hinn heimsþekkti hljóðhönnuður Justin Dolby sá um hljóðheiminn í bíómyndinni Óráð sem frumsýnd var sl. föstudag. Myndin er fyrsta bíómynd leikstjórans Arrós Stefánssonar í fullri lengd. Um hryllingsmynd er að ræða og því mikilvægt að tónlist og…

Viðtal

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Hinn heimsþekkti hljóðhönnuður Justin Dolby sá um hljóðheiminn í bíómyndinni Óráð sem frumsýnd var sl. föstudag. Myndin er fyrsta bíómynd leikstjórans Arrós Stefánssonar í fullri lengd. Um hryllingsmynd er að ræða og því mikilvægt að tónlist og áhrifahljóð slái á rétta strengi áhorfenda og fái taugar þeirra til að þenjast til hins ítrasta.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Justin Dolby annast hljóð í íslenskri bíómynd í fullri lengd. Hann er meðal annars þekktur fyrir hljóðvinnslu í erlendu kvikmyndinni Tár sem kom út árið 2022 með Cate Blanchett í aðalhlutverki en myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna,” segir Arró sem er ungur að árum. Aðeins 35 ára.

Justin hefur getið sér gott orð fyrir hljóðvinnslu tónlistarmynda, m.a. um feril Eric Clapton og þá byltingu sem varð í tónlistinni árið 1971. Þá var Víetnamstríðið í algleymi og stjórnmál og samfélagsmál lituðu dægurtónlistina. Tónlistin sem breytti öllu er heiti myndarinnar en þar er m.a. fjallað um The Who, Arethu Franklin, John Lennon og Rolling Stones. Það var byltingarhugur í fólki og söngvar um ástir, frið og blóm hljóðnuðu.

Það kannast eflaust flestir við ættarnafn Justins en hann er barnabarn uppfinningamannsins, Ray Dolby, sem var bandarískur verkfræðingur og fann upp hljóðkerfið Dolby árið 1965. Það hefur þróast og orðið fullkomnara með árunum. Í raun og veru breytti hann hljóðheimi sjónvarps og kvikmynda og setti ný viðmið sem flestir fara eftir til að auka upplifun áhorfenda. Dolby breytti leiknum en tækni hans byggir á því hvernig mannskeppnan nemur hljóð.

Fyrsta kvikmyndin þar sem Dolby hljóðtæknin var notuð var A Clockwork Orange sem kom út árið 1971. Hljóðkerfi hins framsýna uppfinningarmanns er að finna í þúsundum kvikmyndahúsa um allan heim og í streymisveitum þannig að fólk geti upplifað sanna bíóstemmingu heima fyrir. Dolby er einnig að finna í tæknibúnaði þar sem hágæða hljóðtækni er krafist.

Í dag hefur fyrirtækið kynnt þrívíddarhljóð til sögunnar. Það læðist að þér úr öllum áttum í kvikmyndasalnum og áhorfendur greina hreyfingu betur en áður, fá jafnvel á tilfinninguna að eitthvað sveimi yfir þeim. Það kemur sér vel við framleiðslu hryllingsmynda.

Dolby er risafyrirtæki með á þriðja þúsund starfsmenn og er skráð í kauphöllina í New York. Uppfylla þarf strangar kröfur til að geta notað vörumerki fyrirtækisins í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

Hvalreki

Framleiðandinn, leikstjórinn og handritshöfundurinn Arró Stefánsson segir að það sé gríðarlegur heiður að fá fagmann eins og Justin Dolby, að sinni fyrstu bíómynd. Óráð naut engra opinberra styrkja og leiðin til að til að láta það ganga upp er einföld. „Aleigan var sett að veði.“

Justin þurfti ekki að husgsa sig lengi um eftir af hafa séð stiklu af myndinni og segir Arró samstarfið hafa gengið mjög vel. „Ég gæti ekki verið stoltari af útkomunni.“

Hann segir viðtökur áhorfenda hafi verið mjög góðar og vel hafi gengið frá frumsýningunni. Arró er farinn að hugsa út fyrir landsteinana. „Það styttist í að sá hluti af ferlinu hefjist þar sem við fylgjum myndinni eftir á erlendum kvikmyndahátíðum og hefjum sölu- og markaðssetningu.”

Höf.: Hörður Vilberg