Í dómssal Sakborningarnir fjórir í dómssal þegar málið var flutt.
Í dómssal Sakborningarnir fjórir í dómssal þegar málið var flutt. — Morgunblaðið/Eggert
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær fjóra karlmenn í 6 til 10 ára fangelsi fyrir að hafa ætlað að flytja 99,25 kíló af kókaíni hingað til lands frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi, en þarlend yfirvöld lögðu hald á fíkniefnin

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær fjóra karlmenn í 6 til 10 ára fangelsi fyrir að hafa ætlað að flytja 99,25 kíló af kókaíni hingað til lands frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi, en þarlend yfirvöld lögðu hald á fíkniefnin. Kókaínið var falið í sjö trjádrumbum.

Páll Jónsson hlaut tíu ára fangelsisdóm, Daði Björnsson hlaut sex ára og sex mánaða fangelsisdóm, Jóhannes Páll Durr hlaut sex ára fangelsisdóm og Birgir Halldórsson hlaut átta ára fangelsisdóm.

Auk fangelsisdómanna er sakborningum gert að greiða meira en ellefu milljónir í lögfræðikostnað hver, og meira en eina milljón hver í málskostnað.

Páll sá um að flytja inn timbrið frá Brasilíu sem fíkniefnin voru falin í. Unnsteinn Örn Elvarsson, verjandi Páls, sagðist hafa vonast eftir vægari dómi. Nú yrði rýnt í dóminn, sem er yfir 100 blaðsíður að lengd, og í framhaldinu verður ákveðið hvort honum verði áfrýjað.

Sonja Berndsen, aðstoðarsaksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, sagði við blaðamenn að það væri ríkissaksóknara að ákveða hvort dóminum yrði áfrýjað.