Hugh Short, fyrrverandi stjórnarformaður Nova, skrifaði í gær færslu á Facebook-síðu sína þar sem hann gerir upp árin hjá félaginu. Short var sem kunnugt er felldur úr stjórn Nova á aðalfundi félagsins í síðustu viku, þrátt fyrir að hafa verið á meðal þeirra fimm einstaklinga sem tilnefningarnefnd hafði mælt með. Hugh er fjárfestingastjóri hjá bandaríska fjárfestingarfélaginu PT Capital.
Pt Capital eignaðist sem kunnugt er 50% hlut í Nova árið 2017 og Short rifjar upp að það hafi verið ein af fyrstu stóru erlendum fjárfestingum hér á landi eftir bankahrunið 2008. PT Capital eignaðist nærri allan hlut í Nova árið 2021 þegar félagið keypti Novator út úr Nova.
Short segir í færslunni að það hafi verið sér heiður og forréttindi að starfa í stjórn Nova í þau sex ár sem hann sat í stjórn. Þá hrósar hann Margréti Tryggvadóttur, forstjóra Nova, og óskar nýkjörinni stjórn velfarnaðar. Þar nefnir hann sérstaklega Magnús Árnason, sem bauð sig fram þvert á tillögu tilnefningarnefndar og náði kjöri á kostnað Shorts. Magnús var framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova á árunum 2017 til 2022.
Athygli vekur að gengi bréfa í Nova hefur hækkað um 15% eftir aðalfundinn í síðustu viku.